Réttarfar, atvinnuréttindi o.fl.

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 22:20:24 (1010)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef nokkrar athugasemdir fram að færa við þetta frv. eða bandorm þar sem ýmsu ægir saman bæði varðandi EES-aðlögun og einnig flýtur fleira með þótt það hafi nú almennt verið talið að það væri ekki æskilegt. Athugasemdir mínar eru sumar hverjar þess eðlis að þær eiga ekki síður við um ákvæði í ýmsum öðrum frv. en þessu. Engu að síður held ég að það sé ekkert verra tækifæri hér en annars staðar til að koma þessum athugasemdum á framfæri.
    Varðandi 1. lið 1. gr. þessa frv. geri ég þá athugasemd að ég hef ákveðnar efasemdir um hvernig hægt er að gera kröfu um það að sá sem býður þjónustu hér á landi, í þessu tilviki niðurjöfnunarmaður sjótjóns, hafi lögheimili hér á landi án þess að brjóta jafnræði íslenskra og erlendra ríkisborgara sem er kveðið á um í öllum EES-réttinum. Ég veit að þessi lögheimilisákvæði eru víðar til staðar. En strangt til tekið er einmitt verið að mismuna fólki innan EES-svæðisins á þennan hátt. Ég er ekki viss um að þessar hömlur, sem eru ekki miklar, séu nothæfar. Mér þykir ekki síst ástæða til að geta þessa vegna þess að hér er ekki um eitthvað að ræða sem er bara sett út í bláinn heldur er verið að reyna að kveða á um að einhverjar takmarkanir séu á hverjir hljóta hvaða réttindi sem er.
    Ég vil vekja athygli á því að í umsögn um þetta frv. frá Alþýðusambandi Íslands vilja þeir meira að segja ganga lengra í þessum hömlum. Í athugasemd nr. 2 frá þeim stendur, ef ég má, með leyfi forseta, rekja þar eina stutta athugasemd:
    ,,ASÍ telur að hér sé fulllangt gengið til að fullnægja ákvæðum EES-samningsins og telur að setja eigi kröfu um lögheimili hér á landi og ríkisborgararétt í einhverju aðildarríki samningsins.`` Sama athugasemd er gerð varðandi breytingar á lögum um prentrétt en að þeim kem ég seinna. Og það er aftar í þessu frv.
    Í rauninni er greinilegt að alla vega í huga sumra eru ákveðnar hömlur með því að setja ákvæði um lögheimili. Ég hef fengið það staðfest, m.a. hjá Stefáni Má Stefánssyni, í umræðu í allshn. að hæpið er að neita því að allir eigi að geta boðið þjónustu sína hér á landi án hindrana og þar dugi ekki að krefjast lögheimilis. Sé þetta rétt, og ég hef tilhneigingu til að ætla að svo sé, þá erum við þar með enn eitt sem að sumra mati mundi flokkast undir falskt öryggi. Ég hef í rauninni ekki neina sérstaka skoðun á því hvort æskilegt sé að setja miklar hömlur á það hverjir geti starfað hér á landi sem niðurjöfnunarmenn sjótjóna, ég tel mig einfaldlega ekki svo fróða um þau mál, heldur er ég fyrst og fremst að tala um þetta grundvallaratriði: Er verið að setja einhverjar hömlur eða einhverjar girðingar í frv. sem munu ekki halda og er þegar séð að muni ekki halda? Ef svo er, veitir það þá þeim falskt öryggi sem telja að það þurfi að setja hömlur? Í sumum tilvikum gæti ég verið í þeirra hópi en í öðrum væri ég það áreiðanlega ekki. Ég tel það ekkert fortakslaust að alltaf þurfi að setja hömlur um það hverjir fá að starfa hér, búa eða gera eitthvað annað. En í sumum tilvikum á það örugglega við.
    Ég vil jafnframt vekja athygli á því að með þessu ákvæði er ekki einungis verið að opna möguleika fyrir borgara EES-svæðisins til að öðlast þessi starfsréttindi, uppfylli þeir skilyrði um lögheimili, heldur borgara annarra landa og það er einmitt það sem athugasemd ASÍ gengur út á. Að þessu leyti er þessi frumvarpsgrein ekki einungis varðandi aðlögun að EES, heldur er hún víðtækari.

    Varðandi 2. tölul. 1. gr. spyr ég: Hver á að leggja mat á hvað telst sambærilegt próf?
    Þessi spurning á án efa við um fleiri sambærileg ákvæði í öðrum frv. og áhugavert að fá að vita með hverjum hætti þessum málum verði skipað í einstökum ráðuneytum, hvort þar verði um samræmdar reglur að ræða, ef við göngumst undir þennan Evrópurétt sem ég vona að sjálfsögðu að verði ekki, eða hvort við verðum með reglugerðir tvist og bast til að skera úr um þetta og kannski með misvísandi ákvæðum.
    Varðandi 3. gr. þá vek ég athygli á því að við umfjöllun í sumar kom í ljós að hér gætir ákveðins misræmis milli þeirra EES-reglna sem verið er að uppfylla og lagatextans. Í nefnd þarf að fá botn þetta.
    Ég vil leyfa mér að lesa upp úr athugasemdum með með frv. og tek það fram að að einhverju leyti hafa verið gerðar lagfæringar en þetta stendur sem ég hér vitna til, með leyfi forseta:
    ,,Í bókun 5 um stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins, sem fylgir samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, ESE-samningnum, er meðal annars gengið út frá því að dómstóllinn geti þurft á framburði vitnis eða sérfræðings að halda við úrlausn máls, en til að afla slíks framburðar eru tveir kostir ráðgerðir. Annars vegar er í 25. gr. stofnsamþykktarinnar kveðið á um heimildir dómstólsins til að krefjast að maður gefi slíka skýrslu fyrir dómstóli á búsetustað sínum, en til að mæta þeim þörfum eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 í 28. gr. frumvarpsins. Hins vegar er í 23. gr. samþykktarinnar byggt á því að vitnaleiðslur fari fram fyrir dómstólnum sjálfum í samræmi við starfsreglur dómstólsins. Þær starfsreglur skulu samkvæmt 43. gr. ESE-samningsins settar af dómstólnum og samþykktar af EFTA-ríkjunum, og liggja því ekki fyrir. Í tengslum við þetta er ákvæði 26. gr. samþykktarinnar sem orðast þannig í íslenskri þýðingu:
     ,,Reynist vitni óáreiðanlegt eða rjúfi vitni eða sérfræðingur eið skal EFTA-ríki fara með slíkt brot á sama hátt og brot gegn dómstóli sínum á sviði einkaréttar. Hlutaðeigandi EFTA-ríki skal í því tilviki fara í mál við viðkomandi fyrir þar til bærum dómstóli.``
     Þessi þýðing er ekki í samræmi við frumtexta greinarinnar en þar segir í endurskoðaðri þýðingu að EFTA-ríki skuli fara með vitni sem ekki fullnægir vitnaskyldu sinni og vitni eða sérfræðing sem gefur rangan eiðfestan framburð á sama hátt og ef brotið hefði verið framið við meðferð einkamáls fyrir dómstóli í ríkinu og ber viðkomandi EFTA-ríki þá eftir kröfu dómstólsins að saksækja þann sem brotið hefur af sér fyrir þar til bærum dómstóli sínum.``
    Ég ætla ekki að lesa þetta allt en gríp næst niður nokkrum línum neðar í þessum athugasemdum við 3. gr. frv.:
    ,,Þörfin á breytingum á íslenskri löggjöf vegna umræddra ákvæða 26. gr. stofnsamþykktarinnar er takmörkuð.`` --- Þessu fylgir nokkur skýring sem ég vísa hér til og enn neðar í sömu athugasemd kemur það þriðja sem ég sé ástæðu til að leiða hér inn í umræðuna:
    ,,Á hinn bóginn er áskilið í nefndu ákvæði stofnsamþykktarinnar að unnt sé að saksækja mann fyrir rangan eiðfestan framburð fyrir EFTA-dómstólnum eftir kröfu dómstólsins, með sama hætti og ef slíkt brot hefði verið drýgt við skýrslugjöf í einkamáli fyrir dómstóli hér á landi. Refsiákvæði vegna slíkrar háttsemi koma fram í 142. gr., sbr. 2. mgr. 143. gr. og 144. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til þess að færa út gildissvið þeirra reglna, þannig að þær nái einnig til rangs framburðar fyrir EFTA-dómstólnum, er lagt til með 3. gr. frumvarpsins að nýju ákvæði verði bætt við 6. gr. laga nr. 19/1940 til að heimila að refsingu samkvæmt 142.--144. gr. laganna verði beitt vegna slíks brots þótt það sé drýgt fyrir EFTA-dómstólnum og þar með utan íslenska ríkisins.``
    Ég læt hér lokið tilvitnun minni og biðst afsökunar á þessum texta og hafi einhver verið að koma inn núna þá ætla ég að sverja það af mér að bera nokkra ábyrgð á því hvernig hann hljómar og tek það raunar fram að einn ágætur stjórnarsinni sagði í nefnd: Hver ber ábyrgð á þessum ósköpum? Ég held ég muni það rétt. Ég ætla ekki að svara því. En ég er ekki að rekja þetta af illmennsku einni saman og kvelja þingheim með þessu heldur er ég að koma með dæmi um það sem við munum þurfa að taka fyrir innan nefndarinnar.
    Í 2. tölul. 4. gr., svo ég taki aftur upp þráðinn, er gert ráð fyrir að dómsmrh. leggi mat á það hvort skilyrðum um próf sé fullnægt.
    Nú hef ég ekki kannað það hvernig þessu er háttað í öðrum lögum, þó hef ég rennt yfir eitt frv. sem tekur mjög mikið á þessu sem er um starfsréttindi og menntunarkröfur og eitt og annað af því tagi. Ég veit ekki hvort ég hafði það með mér upp í stólinn en það hefur loðað við þessi málsgögn mín sem hafa verið tilbúin nokkuð lengi. En mér finnst skipta máli að það séu trúverðug ákvæði í lögum og mér finnst ankannalegt að segja að dómsmrh. skuli leggja mat á hvort skilyrðum um próf sé fullnægt. Ég skil ekki að dómsmrh. sjálfur þurfi að vera hæfur til þess að leggja slíkt mat, ekki eru þeir alltaf löglærðir og það dylst svo sem engum að öðrum er ætlað að gera það og það er vísað til möguleika á að kveða á um slíkt í reglugerð.
    Sé það ætlun löggjafans að einhver annar meti þessi próf á að sjálfsögðu að segja það. Ég sé enga ástæðu til að vera með svona feluleik í lögum og mér er alveg sama þótt slíkt hafi verið gert fyrr. Ég vil

bara að það sé sagt sem er meint. Ég held að það sé ekki ósanngjörn krafa og það sé mál til komið að taka slíkar athugasemdir alvarlega.
    Ég vil líka vekja athygli á að athugsemdum við frv., þar sem fram kemur að hér eru ákvæði á ferðinni sem stangast á við eina af mörgum tilskipunum Evrópubandalagsins, nr. 89/48 EBE, um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum en frv. til staðfestingar þeirri tilskipun er komin á borð okkar þingmanna og eflaust í umfjöllun í nefnd.
    Enn gríp ég niður í greinargerðina og með sömu afsökunarbeiðni um orðalag, en þar segir á bls. 9, með leyfi forseta:
    ,,Í öðru lagi gætir hér áhrifa af áðurnefndri tilskipun 89/48/EBE um viðurkenningu á erlendri sérfræðimenntun. Í 3., 9. og 14. gr. laga nr. 61/1942 er það skilyrði sett fyrir heimild til að starfa sem fulltrúi héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanns og fyrir veitingu málflutningsleyfis, að hlutaðeigandi þurfi að hafa embættispróf í lögum frá Háskóla Íslands eða eftir atvikum jafngilt próf frá öðrum stað samkvæmt íslenskum lögum. Þessi skilyrði eru í andstöðu við umrædda tilskipun, en hér má ítreka það sem áður segir, að engar almennar reglur gilda hér á landi um viðurkenningu á lögfræðimenntun sem er fengin erlendis. Af þessum sökum er lagt til í 4., 6. og 7. gr. frumvarpsins að sambærilegt próf við íslenskt embættispróf í lögum geti komið að sama haldi í þessu tilliti, en að auki er áskilið að lögfræðingur með slíka menntun þurfi að hafa næga þekkingu á íslenskum lögum, svo sem er heimilt eftir reglum áðurnefndrar tilskipunar.`` --- Síðan sleppi ég úr aðeins, en síðan segir:
    ,,Það má jafnframt benda hér á að eftir reglum frumvarpsins eru heimildir í þessum efnum ekki bundnar við þá, sem hafa lokið prófi í lögfræði við háskóla í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, enda er ástæðulaust að gera slíkan almennan greinarmun á menntunarstað fyrst stefnt er að viðurkenningu erlendrar menntunar til þessara þarfa.``
    Ég vil byrja á því að vekja athygli á því að hér er enn verið að víkka út fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Út af fyrir sig hef ég enga sérstaka skoðun á því að ef það er á annað borð verið að opna fyrir aðra með starfsréttindi en Íslendinga eða þá sem hafa próf frá íslenskum háskóla þá finnst mér út af fyrir sig alveg koma til álita að opna fyrir fleirum en ég hlýt að vekja athygli á því að þetta er ekkert sem er óhjákvæmilegt vegna EES-samningsins.
    Ég veit að hér er um deilumál að ræða og ég þykist hafa heyrt það hent á lofti að það hafi skýlaust verið tekið af skarið um að það sé mat íslenskra stjórnvalda að við eigum að leggja skilyrðin upp en ekki að fara í einu og öllu eftir þeim tilskipunum sem eru hérna. Ég treysti því að ég verði leiðrétt ef ég hef ekki skilið ummæli sem starfsfólks ráðuneytis og sjálfsagt einhverjir fleiri hafa látið falla.
    Mér sýnist að hvorki í þessari tilskipun sem verið sé að brjóta né annars staðar sé beinlínis að finna ákjósanlega lausn og ég ætlast í rauninni til þess að við höldum áfram með þessa vinnu innan nefndarinnar.
    Varðandi 5. gr. geri ég þá almennu athugasemd að ég tel ekkert einboðið að best sé að kveða á um skilyrði til þess að fá að flytja mál hér á landi í reglugerð. En ég lít fram hjá því að hér eru aðrir kvaldari en við í allshn. og þurfa að sæta því að vera að fjalla um frv. þar sem reglugerðardýrkunin og ákvörðun ráðherra og annað slíkt tröllríður öllu. Það er ekkert skárra þó aðrir kveljist meira yfir því að framkvæmdarvaldið skuli vera búið að taka allt í sínar hendur. Mér finnst að við eigum að gera athugasemd við það sem okkur finnst ástæða til jafnvel þótt önnur ráðuneyti fari enn verr að ráði sínu í sambandi við aðlögun að Evrópsku efnahagssvæði.
    Varðandi 6. gr. þá vil ég taka fram að samkvæmt ákvæðum hennar þá getur orðið sú breyting að ekki þurfi allir lögmenn að flytja prófmál til þess að fá réttindi á Íslandi.
    Varðandi 8. og 9. gr. vil ég vekja athygli á því að þessi ákvæði merkja það einnig að Íslendingar búsettir erlendis mega ekki gefa út blað nema þá að þeir fari þá leið að stofna um það félag eins og fært er fyrir hvern sem vill. Þetta sem er takmörkun réttar fyrir útlendinga opnar þó jafnframt auðvelda leið fyrir erlenda útgefendur þannig að nú getum við kannski séð Murdoch vera að kaupa Moggann ef hann vill. Ritstjóri skal þó búa á Íslandi og sú skýring hefur verið gefin innan allshn. að þau ákvæði um lögheimili muni halda vegna þess að það verði að vera unnt að lögsækja hann ef þörf krefur, t.d. ef um meinyrðamál yrði að ræða. Ég ætla ekkert að vefengja þetta svona í fyrsta umgangi en aftur á móti þarf auðvitað þetta að vera alveg skýrt og mér finnst það ekkert ósennilegt. Ég er ekki löglærð en aftur á móti þá finnst mér nauðsynlegt að fleiri en löglærðir velti þessu fyrir sér, skilji og leiti skýringa.
    Í 10.--19. gr. frv. er verið að staðfesta þar í framkvæmd einn meginréttinn á Evrópska efnahagssvæðinu, frjálst flæði fólks. Gert er, samkvæmt ákvæðum samningsins sjálfs, ráð fyrir að tryggja rétt borgara á Evrópska efnahagssvæðinu til þess að leita sér að vinnu í þrjá mánuði og ég vek athygli á því að þess er ekki krafist að EES-borgarar hafi dvalarleyfi í höndunum fyrir þessa þrjá mánuði en það hefur komið til tals. Jafnframt þá erum við þarna líka komin inn á fleiri svæði en ég ætla að bíða með þá athugasemd.
    Umræðan um þessar tilteknu greinar á að mínu mati fyrst og fremst heima í almennri umræðu um Evrópska efnahagssvæðið og samninginn sem liggur fyrir til umræðu, því hér er um framkvæmdaratriði að

ræða og stefnumörkunin er í samningnum sjálfum og útfærð þar. Ég vek hins vegar athygli á því að hér erum við komin með umfjöllun um afskaplega viðkvæma og mikilvæga þætti samningsins og kannski eitt af því sem er einna umdeildast.
    Enn kem ég að kafla þar sem er verið að fjalla um eitt heitasta deilumál varðandi EES-samninginn um rétt útlendinga til að eignast fasteignir á Íslandi. Samkvæmt 20. gr. frv. er ráðherra veitt heimild til að gera nákvæmlega eins og honum sýnist þrátt fyrir ákveðin ákvæði sem hugsanlega hefðu verið notuð sem girðingar. Það hefur verið sagt að þetta sé samsvarandi núgildandi lögum og þó orðalagið sé ekki eins þá sé ég á þessu stigi málsins ekki ástæðu til að vefengja það en ég tel að við munum verða að skoða það hvort sett hafi verið fyrir allan leka þarna. Þarna er ég að gefa mér það að mér finnst ekki æskilegt að útlendingar geti eignast fasteignir á Íslandi en ég tek það skýrt fram að ekkert slíkt er auðvitað alveg ótvírætt. Það eru fyrst og fremst hin öfgakenndu dæmi sem við ekki viljum sjá sem valda því að við tökum öllu slíku með tortryggni.
    Það hefði svo sem verið hægt að nýta leið af þessu tagi til þess að sýna fram á það með þessari ráðherraheimild að Íslendingar væru ekkert að mismuna öðrum borgurum Evrópska efnahagssvæðisins en meginákvæðin sem þetta varða eru í 22. gr. og hana mun ég því lesa, með leyfi forseta, og athugasemdir við frv. Í 22. gr. stendur:
    ,,Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 1.--3. mgr. þarf ekki að afla leyfis ráðherra:
    1. Þegar um er að ræða leigu á fasteign eða réttindi yfir henni og leigutími eða annar réttindatími er þrjú ár eða skemmri eða uppsögn áskilin með ekki lengri en árs fyrirvara.
    2. Þegar sá sem í hlut á nýtur réttar hér á landi samkvæmt reglum samnings um Evrópska efnahagssvæðið um frjálsa fólksflutninga, staðfesturétt eða þjónustustarfsemi. Ráðherra setur nánari reglur um til hvaða fasteigna þessi réttur tekur og framkvæmd réttarins að öðru leyti.`` --- Tilvitnun í þessa grein lýkur, en ég á eftir að koma aðeins nánar að þessu á eftir en vitna örstutt í athugasemdir, en þar segir í athugasemdum við frv. á bls. 14, með leyfi forseta:
    ,,Í 22. gr. frumvarpsins er gengið út frá því að sá, sem nýtur ofangreindra réttinda, þurfi ekki að afla sérstaks leyfis til fasteignakaupa hér á landi. Á hinn bóginn er þar gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um til hvaða fasteigna þessi réttur taki og framkvæmd réttarins að öðru leyti. Með því er vísað til þess annars vegar að samningur um Evrópska efnahagssvæðið stendur því ekki í vegi að takmarkanir séu gerðar á því gagnvart ríkisborgara í öðru samningsríki, sem er ekki búsettur hér á landi, að hann geti eignast fasteign, sem er ekki nauðsynleg í atvinnustarfsemi hans eða til að halda þar heimili, til dæmis sumarbústað, og hins vegar að ekkert er því til fyrirstöðu að ríkisborgara í öðru samningsríki sé gert að sanna rétt sinn fyrir íslenskum stjórnvöldum, til dæmis við þinglýsingu. Ráðherra getur þannig kveðið á um það í reglugerð að réttur samkvæmt 2. tölul. 4. mgr. 1. gr. laganna, sbr. 22. gr. frumvarpsins, taki ekki til vissra tegunda fasteigna og að sá sem hyggst neyta réttinda samkvæmt ákvæðinu skuli afhenda þinglýsingastjóra yfirlýsingu um leið og þinglýsingar er beiðst þar sem því yrði lýst yfir að viðlagðri refsiábyrgð að hlutaðeigandi uppfylli nánar tilgreind skilyrði, sbr. einnig 23. gr. frumvarpsins.``
    Lýk ég hér með tilvitnun og lít aðeins á 23. gr. þar sem til hennar er vísað en þar er einungis fjallað um þinglýsingar og ég ætla ekki að ræða meira um það.
    Það er æðimargt sem upp hefur komið í umræðu sem ekki er útkljáð um þessi mál. M.a. hefur það komið fram að það eru ákveðnir borgarar sem mega samkvæmt nýjum tilskipunum EB flytjast á milli án þess að öðlast rétt til búsetu í landi sem tengist atvinnu hans. Þetta er m.a. gamalmenni, sem geta framfleytt sér ,,nota bene``, og þetta eru líka aðrir þeir sem hafa fastar tekjur annars staðar frá og hafa sem sagt möguleika á því að framfleyta sér á Íslandi án þess að starfa þar. Þetta er sem sagt opið samkvæmt mjög nýlegum tilskipunum Evrópubandalagsins og þetta er hluti af EES. Hér mun vera um þrjár tilskipanir að ræða sem ég hef hér í höndum og ef einhver telur að þetta sé óskýrt af minni hálfu, þá mun ég að sjálfsögðu rekja þetta nánar en ég vil bara til nánari skýringar benda á tilskipun um búseturétt frá 28. júní 1990, 90/364, EBE. Síðan er það 90/365, EBE, um búseturétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem látið hafa af störfum, og hina þriðju um búseturétt námsmanna, 90/366, EBE, þannig að það fari ekkert á milli mála um hvað ég er að tala.
    Í þessu tilviki eru ákveðnar hömlur á því hverjir mega koma hingað. En hins vegar eftir að fólk hefur á annað borð tekið sér búsetu, hefur hér tekjur, þá er það búið að ávinna sér ákveðin réttindi. Það hefur t.d. eftir ákveðinn tíma eftir ákvæðum sem sveitarfélög setja réttindi í félagslega húsnæðiskerfinu svo framarlega sem það getur framfleytt sér að öðru leyti hér. Það hefur í krafti þess að ekki má mismuna vegna ríkisfangs innan EES ýmis réttindi hér á landi.
    Nú get ég alls ekki skorið úr um það hvort þetta er jákvætt eða neikvætt. Ég hef hins vegar heyrt þau rök að það þyki ekki slík ásókn hér og nú í að komast hingað og nota lepp eins og auðvitað er hægt nú þegar að við þurfum í rauninni ekki að hafa áhyggjur af þessu vegna þess að Ísland sé ekki svo eftirsótt að búa á t.d. fyrir vel stæða eftirlífeyrisþega að við þurfum að hafa af því áhyggjur. Þetta eru ekki

röksemdir sem fullnægja mínum skilningi. Ég vil að við séum með fortakslausar reglur, reglur sem við erum sátt við og ég held að við verðum hreinlega að sæta því að þarna sé verið að opna enn eina glufuna af mörgum. Og síðan eigum við auðvitað eftir að leggja mat á það hvort það er kannski alveg ákjósanlegt að safna hingað fólki, ef það reyndist nú rangt mat að hingað vildi fólk ekkert koma af því að við værum svo langt í burtu og það væri svo kalt t.d. eins og maður heyrir. Þetta er eitt af þessum fjölmörgu stóru atriðum sem við erum hreinlega að glíma við.
    Ég hafði vonað að hv. 2. þm. Suðurl., Jón Helgason, gæti verið við þessa umræðu en því miður getur hann það ekki og við því er ekkert að gera og hans ástæður fullgildar. En ég veit að hann hafði áhuga á því að gera grein fyrir þessu. Án þess að ég sé að ætla mér það að tala í orðastað hans þá vil ég að nokkrar athugasemdir komi fram, frá félagi sem honum er kært, og eru í þeirri umsögn sem kemur frá Búnaðarfélagi Íslands. Með leyfi forseta ætla ég aðeins að grípa niður í þetta álit sem er undirritað af Jónasi Jónssyni:
    ,,Samningur án óraskanlegs fyrirvara um þetta efni`` og þá er ég að tala um nákvæmlega þessar greinar ,,mundi veita þegnum annarra ríkja aðgang að þessum yfirráðum`` þ.e. sem sagt yfirráðum yfir landi. Enn fremur segir: ,,Stjórn Búnaðarfélags Íslands telur það orðalag sem lagt er til að verði á umræddri lagagrein`` --- það kemur reyndar ekki fram hvaða lagagrein það er en samkvæmt orðanna hljóðan held ég að það ætti að vera nokkuð ljóst --- ,,tryggi á engan hátt þessi sjónarmið gagnvart þeim sem vilja komast yfir land eða landsréttindi hér undir því yfirskyni að þeim sé það nauðsynlegt vegna raunverulegs eða fyrirhugaðs atvinnurekstrar. Stjórnin fær ekki séð að hægt sé að tryggja forgangsrétt Íslendinga á landsréttindum með breytingum á lögum miðað við EES-samning. Til þess þurfi skýrar undanþágur frá þeim EES-samningi eins og fengust varðandi sjávarútveginn. Á þetta kann þó e.t.v. að reyna í sambandi við boðaða breytingu á jarðalögum.``
    Ég vil bara halda þessu til haga hér. Ég hafði ekki hugsað mér að taka nákvæmlega þessi sjónarmið fyrir og er því ekki búin til þess hér og nú en ég treysti því að þetta verði eitt af þeim málum sem við munum fá úr skorið og fjalla um á ábyrgan hátt innan allshn.
    Ég ætla aðeins að drepa á tvennt enn. Varðandi 3. tölul. 26. gr. bendi ég á að það þarf að hafa í huga að fullnægjandi ákvæði séu um hvíldartíma. Þarna er talað um landflutninga en þetta er eitt af deilumálum innan EES og ég veit hreinlega ekki hvernig þau standa.
    Við 28. gr. vil ég benda á athugasemdir mínar við 3. gr. sem þegar hafa komið fram.
    Það væri eflaust ástæða til þess að fjalla um fleira í þessum bandormi og sjálfsagt hefur mér skotist yfir eitthvað sem síðar mun koma fram í umræðum og umfjöllun nefndarinnar og ég tel að nefndin sé kjörinn vettvangur til þess að kafa dýpra ofan í þetta. En enn og aftur vil ég vekja athygli á því að bandormar eru ekki hin ákjósanlegasta leið til lagasetningar sem ég sé fyrir mér. Þar er verið að grauta í mörgu í einu og þegar illa tekst til, sem ég vona að verði ekki í þessu tilviki, getur einfaldlega flotið með eitthvað sem ekki nær nokkurri átt og því miður hafa dæmin sannað það. Ég vona sannarlega að hér muni ekki neitt slíkt verða en þær efnislegu athugasemdir sem ég hef fram að færa varða mjög veigamikil mál í sambandi við EES-samninginn og að sjálfsögðu mun þurfa að takast á um það. Ég vonast til þess að ekki verði komið með neinar falskar girðingar eða fölsk öryggisákvæði heldur standi það sem standist. Ég ætlast líka til þess að við förum betur ofan í þessi álitamál varðandi fasteignir og búsetu og ég trúi ekki öðru en að í sambandi við starfsréttindi þurfi að vinna töluvert meira verk heldur en nú þegar hefur verið unnið. Það er auðvitað alveg óbærilegt í rauninni að vera að fjalla um svona stór og viðamikil mál og ég get ekki tekið undir það hól sem fram hefur komið hjá ákveðnum ráðherrum, ekki þeim ráðherra sem um þennan málaflokk fjallar heldur öðrum ráðherrum og einkum þó hæstv. utanrrh., um meðferð annarra þjóða á þessum samningum. Vissulega hafa þær margt gert betur en við í sambandi við kynningu, býst ég við, en það að fara að keyra svona viðamikinn samning í gegn með tveggja daga umfjöllun tel ég alveg hreint fráleitt. Og því meira sem ég sé af þeim pappírum sem hér eru lagðir á borð okkar þeim mun sannfærðari er ég um þetta. Ég ætla nú ekki að fara að verða eins og Cató gamli og segja ,,auk þess legg ég til . . .  `` en ég ætla enn og aftur að geta þess að við erum að fjalla um mál sem komið er langt í umfjöllun að margra mati án þess að hafa séð stóra og mikla hluta þessa samnings, t.d. fiskveiðisamninginn. Ég get ekki látið hjá líða að nefna það þó að ekki sé á málasviði dómsmála.