Réttarfar, atvinnuréttindi o.fl.

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 23:28:18 (1012)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það var ekki af áhugaleysi um þetta mál að ég var ekki staddur í þingsalnum þegar hv. síðasti ræðumaður hóf ræðu sína heldur var það vegna þess að ég vildi láta fara vel um mig og naut þess að horfa á hv. þm. í sjónvarpinu og hlýða þar á mál hans. Ég get upplýst að hann tók sig ákaflega vel út og flutti snjalla ræðu og var vitur eins og venjulega. Ég lét ekki eitt orð fram hjá mér fara sem út gekk af hans munni.
    Ég ætla hins vegar ekki að ræða frv. í smáatriðum. Þetta er ekki hreinlegt eða aðgengilegt frv. Þetta er bandormur um breytingar að ég held á einum tíu lögum eða lagabálkum. Sumar þeirra eru ekki stórvægilegar en þó er það nokkuð misjafnt. Ég treysti því að allshn., sem fær málið til meðferðar, fari vandlega yfir það, vísi einstökum þáttum þess til athugunar í öðrum nefndum þingsins eftir því sem við á, í landbn., félmn. og fleiri nefndum svo að um þetta mál megi verða ítarleg umræða við 2. umr. Þetta er stórmál og þetta er raunverulega mjög stórt frv. sem tekur til breytinga á tíu lögum og er ákaflega afdrifaríkt. Ég held því að fullkomin ástæða sé fyrir okkur að vera ekki að flana að neinu. Þetta fylgifrv. EES-samnings galopnar þjóðfélagið fyrir útlendingum. Það er að sjálfsögðu eðlileg afleiðing, ef samningurinn verður staðfestur, að það sé gert. Frv. veitir í stórum dráttum íbúum EES-svæðisins sama rétt og Íslendingum á Íslandi. Þó að einstaka varnaglar séu settir þarna inn um að ráðherra geti eitt og ráðherra geti annað, þá skipta þeir ósköp litlu máli. Frv. er flutt til að fullnægja tilgangi EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga og frjálsa för launafólks. Við höfum eftir lögtöku EES-samnings og breytingu þá sem lögð er fyrir í frv. engan frumburðarrétt yfir þessu landi sem við höfum fram að þessu kallað okkar.
    Nú vil ég ekki sýna útlendingum neina ógestrisni. En þetta mál er allt mjög rausnarlegt og þar af leiðir að aðstaða þeirra sem hér eru í mörgum greinum þrengist við það að fá þessa gesti sem hér er verið að bjóða heim.
    Annað atriði vil ég geta um í þessu sambandi. Það er í sambandi við málsmeðferðina. Það er út af fyrir sig tæplega þinglegt að bera fram frv. af þessu tagi, þ.e. svona margar lagabreytingar í einum og sama bandorminum. Þó að þetta heyri dómsmrh. þá væri þingtæknilega aðgenglegra að vinna þetta mál í fleiri frumvörpum en hér er sett upp.
    Ég tel einboðið að hv. nefnd veitist góður tími til að athuga þetta mál og að sjálfsögðu er engin ástæða til þess að afgreiða það frá Alþingi fremur en önnur fylgifrumvörp EES-samnings fyrr --- og ég undirstrika fyrr --- en EES-samningur hefur verið afgreiddur. Nú er ég ekki að draga úr því að nefndir vinni og vinni skipulega og vel og á það höfum við stjórnarandstæðingar fallist. En það er ákaflega klúðurslegt að afgreiða lagabreytingar sem eru afleiðing af EES-samningnum á undan þinglegri afgreiðslu EES-samningsins. Ég vænti því þess að málum verði stýrt þannig að ef EES-samningur kemur á annað borð til með að ganga hér til atkvæða verði hann afgreiddur fyrst og síðan þessi fylgifrumvörp. Ef við yrðum ekki aðilar að Evrópsku efnahagssvæði er engin ástæða til þess að standa í þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til. Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram við 1. umr. málsins.
    Ég ætla ekki að fara út í einstaka efnisþætti. Ég tek undir það að margt af því sem hér hefur verið sagt í gagnrýnisátt um frv. og varnaðarorð sem hér hafa verið mælt og ég ætla ekki að endurtaka þau. En ég tel að þetta mál þarfnist verulegrar vinnu í nefnd og ég treysti því að hún verði unnin.