Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 10:43:35 (1016)



     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegur forseti. Ég skal játa það að ég hugleiddi það aðeins í gærkvöldi hvort rétt væri að vísa þessari tillögu til utanrmn. vegna þess að hér var komið að máli við mig og þess óskað að þetta mál færi þangað. Eftir að hafa hugleitt málið komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri ekki rétt. Hér er um þingsályktun að ræða sem gerir ráð fyrir því að ,,Alþingi kjósi sjö manna nefnd sem taki ákvörðun um tilhögun og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Að og að öðru leyti fari atkvæðagreiðslan fram samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.``
    Ég tel að allshn. Alþingis þurfi einmitt að skoða þessi mál vegna þess að verði samþykkt að fara út í þjóðaratkvæðagreiðslu kemur sú hugmynd ekki hingað inn aftur til umfjöllunar í þinginu heldur fer inn í sjö manna nefnd sem á að taka ákvörðunina. Ég held að það séu þessir þættir málsins sem allshn. þarf ekki síst að skoða auk þess sem ég vil benda á það að tillögur um þjóðaratkvæði hafa hingað til allar farið til allshn. Ég kannaði það í skjölum þingsins að öllum tillögum, sem komið hafa upp um það að vísa

einstökum málum í þjóðaratkvæði sem og almennum tillögum um þjóðaratkvæðagreiðslu, hefur verið vísað til allshn. svo ég tel að þetta mál eigi best heima þar.
    Ég get hins vegar lýst því sem minni skoðun að ég tel ekkert á móti því að allshn. hafi eitthvert samráð við utanrmn. eða leiti álits utanrmn. á málinu ef um það er vilji og ef um það eru uppi kröfur. Það hefur áður gerst í þinginu að slíkt hafi verið gert. Ég vil minna á frv. sem var í félmn. um fullorðinsfræðslu. Þar var menntmn. Alþingis höfð með í samráði. Ég get alveg hugsað mér að sá háttur verði hafður á en málið sem slíkt fari inn í allshn.