Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 10:50:24 (1020)


     Páll Pétursson (um atkvæðagreiðslu) :
    Frú forseti. Ég ætla að biðja menn að fara ekki að gera þetta að einhverju hitamáli. Mér finnst að málið liggi nokkuð ljóst fyrir. Hér er ekki um að ræða breytingar á stjórnarskrá. Þar af leiðandi er útilokað að láta það mál fara í stjórnarskrárnefnd. Hér er ekki um að ræða utanríkismál. Þetta er tillaga um atkvæðagreiðslu á Íslandi og þar af leiðandi finnst mér að það sé með engu móti hægt að setja þetta niður í utanrmn. Þetta er dæmigert kosningamál. Kosningamál tilheyra allshn. Það er dómsmrh. eða dómsmrn. sem kæmi til með að fara með framkvæmd þessarar atkvæðagreiðslu og það er dómsmrh. sem á að vera þar yfirhöfuð. Það er ekki hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson. Ef það væri hugmyndin að fela Jóni Baldvini Hannibalssyni, hæstv. utanrrh., að sjá um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu væri náttúrlega einboðið að láta það fara í utanrmn. En svo er nú sem betur fer ekki heldur er ætlast til þess að hæstv. dómsmrh. verði þarna aðalmaðurinn. Mér finnst hins vegar að ef utanrmn. hefur áhuga á að tjá sig um þetta mál sé það henni leikur einn. Samkvæmt nýjum þingsköpum höfum við myndað skynsamlegan farveg um samstarf nefnda. Allra hluta vegna er eðlilegt að þetta mál sé á forræði allshn. Utanrmn. getur sent inn umsögn um málið ef henni svo sýnist en forræði málsins hlýtur að vera hjá allshn. Ég sé ekki annað en allshn. sé prýðilega fær um að meðhöndla eina litla tillögu sem þessa. Ég veit ekki hvert menn eru að fara, hvort þeir eru að vantreysta allshn. Það vona ég ekki.
    Ég vitna til fordæma. Ég held að allar tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu hafi verið sendar allshn. á undanförnum árum. Ég nefni t.d. tillöguna um þjóðaratkvæðagreiðslu um EFTA-samninginn sem þrír þingmenn Framsfl., Ingvar Gíslason, Ólafur Jóhannesson og Þórarinn Þórarinsson fluttu á sínum tíma. Þeirri tillögu var að sjálfsögðu vísað til allshn. Ég ætla að biðja menn að vera ekki að orðlengja þetta mjög mikið. Málið er dæmigert allsherjarnefndarmál.