Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 11:33:21 (1026)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég vona að mér verði ekki virt það til hins verra þó að ég nýti mér rétt minn til að fara hér upp um þingsköp þar sem ég á erfitt með að vera viðstödd umræðuna á eftir eða eftir hádegið. En ég vil vekja athygli áður en lengra er haldið í málinu hvernig gengið er frá því á hinu háa Alþingi.
    Í 36. gr. þingskapalaga segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Lagafrumvörp skulu vera samin með lagasniði . . .  ``
    Við getum spurt okkur sjálf hvort svo er um þetta frv. hér. Texti 1. gr. er afar stuttur, og ég vænti þess að menn séu með þetta fyrir framan sig, en hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í 2. tölul. V. viðauka, reglugerð 1612/68/EBE eins og henni var breytt með reglugerð 312/76/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagsvæðisins, skal hafa lagagildi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af V. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum samningsins.
    Reglugerðir (EBE) þær sem vísað er til í 1. mgr. eru prentaðar sem fylgiskjal með lögum þessum.``
    Spurning mín er því þessi: Er það blað brotið í sögu íslenskrar lagagerðar að reglugerðir birtist í lagasafni? Það hljóta þær að gera. Nú mætti segja að það blað væri brotið en lög eiga auðvitað að vera læsileg öllu venjulegu fólki í lagasafni. Hvernig yrði þá þessi lagatexti? Hann yrði þannig, eins og ég hef þegar lesið, ásamt þeim reglugerðum sem hér eru birtar, hér er upphaflega reglugerðin og ég bið menn að reyna að skilja þetta ef menn geta lagt það á sig. Síðan er reglugerðarbreytingin en fólk er auðvitað engu nær þó það lesi hana, heldur er skýringuna raunar að finna --- og hvar er hana að finna? Hana er að finna í athugasemdum við einstakar greinar, um 1. gr. Þar er skýrt hvað í raun og veru eigi að standa í þessum lögum. Það dugar ekki alveg til þó menn færu eftir fimm eða tíu ár að leita uppi frumvarp því eftir stendur að það vantar að finna V. viðauka, bókun 1 við samninginn og, eins og hér segir svo skýrt: og öðrum ákvæðum samningsins.
    Ég spyr, virðulegi forseti: Heitir þetta að setja lög svo að þau séu með lagasniði? Það held ég að geti ekki verið. Niðurstaða mín er sú að enginn venjulegur læs Íslendingur geti opnað lagasafnið sitt og fundið út úr hvað í þessu á að standa og ég hlýt, hæstv. forseti, að vekja athygli á þessu.