Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 13:58:00 (1038)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er eins og hér hefur komið fram svo oft áður að frv. sem fylgja EES-samningnum, greinargerðir þeirra og framsöguræður ráðherra vekja fleiri spurningar en þær sem svör fást við. Þannig var það með langa framsögu hæstv. félmrh. um atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES og frv. sjálft þó að það sé ekki svo ýkja langt, aðeins fjórar greinar, og það gerði ekki málið auðveldara yfirferðar að mælt var fyrir þremur frv. í einu þó að þau séu skyld. E.t.v. er þetta sýnishorn af því sem koma skal, illskiljanlegar lagagreinar sem vísa í bókanir, viðauka og reglugerðir sem svo vísa á enn aðrar bókanir, viðauka og reglugerðir. Allur almenningur og jafnvel þingmenn eiga því erfitt með að átta sig á því hvað í lögunum felst. 1. gr. frv. um atvinnu- og búseturétt er dæmigerð fyrir þessi vinnubrögð.
    Í 2. gr. er kveðið á um það að hæstv. ráðherra skipi nefnd til þess að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og fjalla um ágreining sem upp kann að koma varðandi ákvæði reglugerða. Þetta er svo sem ágætt en ef alvarlegur ágreiningur kemur upp varðandi lög og reglur, sem eiga að gilda á EES-svæðinu, skiptir bara alls ekki neinu máli hver úrskurður einhverrar nefndar, sem hæstv. félmrh. skipaði, er. Þar ræður umfjöllun og úrskurður annarra aðila meiru.
    Eins og ég sagði, þá vakti ræða hæstv. ráðherra upp margar spurningar og reyndar komu þó nokkrar fram hjá ráðherranum sjálfum. Hún spurði t.d.: Er ástæða til þess að óttast að útlendingar fari að leita hingað í miklum mæli? Hvaða starfsgreinar munu útlendingar sækja í? Hvaða tryggingu gefur öryggisákvæðið okkur? Hvenær getum við beitt því? Til hvaða gagnaðgerða gætu önnur lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins gripið ef við beittum öryggisákvæðinu? Er hugsanlegt að í framkvæmd verði ráðningarkjör útlendinga lakari en Íslendinga sem leitt gæti til að kjörum launafólks yrði haldið niðri? Hvernig verður háttað ýmsum félagslegum réttindum fólks?
    Allar þessar spurningar og fleiri sem hæstv. ráðherra varpaði fram í upphafi gáfu til kynna að ráðherrann ætlaði í ræðu sinni að leitast við að svara þeim. En svo fór þó ekki. Í ræðunni komu ekki fram önnur svör en þau að allir íbúar á EES-svæðinu eiga og munu fá sama rétt og íslenskir ríkisborgarar til vinnu og húsnæðis svo og það sem ekki var ítarlega farið í í ræðu hæstv. félmrh. að þeir munu að sjálfsögðu hafa sama rétt til félagslegrar þjónustu.
    Þá taldi hæstv. ráðherran nauðsynlegt að kryfja málin til mergjar og grípa í tíma til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að vernda vinnumarkað okkar og tryggja sem best kjör íslensks launafólks. Það var ekki laust við að þessi orð hæstv. ráðherra feli í sér ákveðinn ótta við það sem koma skal með samþykkt EES-samnings. Og ég sé ekki með hvaða hætti hæstv. ráðherra telur að við getum verndað vinnumarkaðinn ef samningurinn verður samþykktur skilyrðalaust. Meira að segja aðild að verkalýðs- eða stéttarfélagi tryggir okkur ekki forgang að vinnu á því svæði sem viðkomandi stéttarfélag nær yfir. Þar með munu þessar 370 millj. íbúa EES-svæðisins eiga sama rétt. Félmrn. og Alþýðusamband Íslands hafa átt samstarf um ítarlega könnun á störfum erlendra ríkisborgara hér á landi og hugsanlegum áhrifum frjálsrar búsetu og atvinnuréttar í kjölfar EES-samninga. Í skýrslunni er dregin fram, eins og hæstv. félmrh. sagði, sú almenna ályktun að þegar á heildina er litið sé ástæðulaust að gera ráð fyrir að yfir landið hellist meiri háttar fólksflutningar. En í ljósi fámennis hér á landi gæti lítið verið mikið.
    Setjum nú svo að þessi almenna ályktun sem dregin er fram í skýrslunni reynist rétt og jafnvel að ekki verði um að ræða aukinn fjölda þeirra sem flytjast hingað og stunda hér vinnu. Er þá allur vandi leystur? Þurfum við þá engar áhyggjur að hafa? Getum við sagt að við höfum ráðið við þetta fram að þessu og munum gera það áfram ef ekki verður um verulega fjölgun að ræða?
    1. des. 1991 var hlutfall erlendra ríkisborgara 2,1% af heildaríbúafjölda landins eða tæplega 5.400 manns. Í dag er verulegur hluti þeirra erlendu ríkisborgara sem hér stunda vinnu með fjölskyldu sína í heimalandinu. Nú á til þess að tryggja frjálsa för launþega innan EES-svæðis að setja reglur um það að fjölskylda launþega eigi rétt á að flytjast með honum. Að vísu þarf launþeginn að vera kominn í atvinnu eða geta tryggt framfærslu sína með tekjum erlendis frá til þess að öðlast búseturétt á Íslandi. Ég veit ekki hvar tekjumörkin til framfærslu eru sett. Af hálfu stjórnvalda hefur ekki verið talið að íslenska fjölskyldan þyrfti háar tekjur til framfærslu. En setjum nú svo að framfærslan sé af þar til kvöddum aðilum talin tryggð og fjölskylda launþegans komi til landsins. Þar er um að ræða skv. 1. tölul. 10. gr. reglugerðar nr. 1612/68 maka launþega, börn yngri en 21 árs, ömmur og afar og þá á einnig að auðvelda öðrum aðstandendum launþegans að koma til landsins ef þeir eru á framfæri hans. Þetta er auðvitað sjálfsagt ákvæði að auðvelda það að fjölskyldan geti verið sameinuð. En er íslenskt þjóðfélag undir það búið að taka við slíkri aukningu?
    Við getum haft mismunandi skoðanir á því hvort samningurinn muni hafa það í för með sér að fólk flytjist til landsins eða frá landinu en við verðum að vera undir það búin að mæta því sem samningurinn hefur í för með sér verði hann samþykktur. Og setjum svo að helmingur þeirra erlendu ríkisborgara sem nú eru hér einir fengju fjölskylduna til sín, maka og börn. Samkvæmt þeim lögum sem munu gilda ef EES-samningurinn verður samþykktur hafa EES-ríkisborgarar innan EES-svæðis sama rétt til skólagöngu og íslenskir ríkisborgarar. Þetta gæti þýtt að skólakerfið þyrfti að taka við verulegri fjölgun nemenda og því hljótum við að velta fyrir okkur hvort skólakerfið geti tekið við aukningu umfram það sem nú er. Síðast í gær var sagt frá því í fréttum sjónvarpsins að engar reglur hafi verið mótaðar um kennslu barna innflytjenda sem nú þegar eru í grunnskólum landsins og því hefur skapast þar vandræðaástand. Einnig var, eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kom inn á, fjallað ítarlega um kennslu þessara barna og réttindi þeirra í grein sem Arthur Morthens skrifaði í Morgunblaðið í gær og lýsir ástandinu vel.

    Því vil ég spyrja: Hvernig metur hæstv. ráðherra getu sveitarfélaganna og skólakerfisins til þess að taka við hugsanlegri fjölgun íbúa? Eða ef allar ömmurnar og afarnir kæmu nú á eftir börnunum og barnabörnunum, hvað með þjónustu aldraðra? Þó ekki sé greiddur ellilífeyrir til þessara erlendu ríkisborgara fyrst um sinn, þá þurfum við að veita ýmsa aðra þjónustu. Erum við undir það búin að takast á við aukin verkefni í þjónustu aldraðra? Hefur það verið metið hver kostnaður sveitarfélaganna getur orðið í þessum efnum? Það þarf að kryfja málið til mergjar, sagði hæstv. félmrh. Hefur það verið gert hvað varðar sveitarfélögin og þau auknu verkefni sem þau þurfa að fást við ef samningurinn verður samþykktur?
    Annað sem mun snerta sveitarfélögin beint er atvinnumiðlun og upplýsingaþjónusta um ástand vinnumarkaðarins. Það kom að vísu fram hjá hæstv. ráðherra að ráðuneytið mun fyrst um sinn sinna hlutverki þessu en það er þó aðeins til bráðabirgða. Við munum þurfa að koma upp kostnaðarsömu upplýsingakerfi og vinnumiðlun hjá sveitarfélögunum. Hvenær reiknar ráðherrann með að við þurfum að hafa lokið við að koma slíku kerfi í gagnið eftir þeim kröfum sem gerðar verða á EES-svæðinu?
    Þá er það 9. gr. reglugerðar nr. 1612/68 þar sem launþegum frá öðrum EES-ríkjum er tryggður jafn réttur hvað varðar aðgang að íbúðarhúsnæði. Það hlýtur þá að gilda einnig um jafnan rétt allra þessara 370 milljóna íbúa EES-svæðisins eða þeirra sem koma til með að nýta sér búseturétt hér á landi og íslenska húsnæðislánakerfið. Hvað hefur verið gert til að mæta hugsanlegri aukningu þar, hvort sem um er að ræða húsbréfakerfið eða félagslega húsnæðiskerfið? Ég vil jafnframt fá svör hæstv. ráðherra við því hvort í núgildandi úthlutunarreglum félagslega húsnæðiskerfisins felist einhver sú mismunun sem fella verður úr gildi. Hver eru viðbrögð bankakerfisins sem sér um ákveðinn hluta af starfsemi í kringum húsbréfin? Er í úthlutunarreglum húsbréfakerfisins einhver mismunun sem fella þarf úr gildi? Það mætti einnig velta því fyrir sér hvort frv. um búseturétt og fullan aðgang að vinnumarkaði breyti einhverju um úthlutunarreglur ýmissa sjóða sem tilheyra íslensku atvinnulífi eða í það minnsta hvort þörf sé á að endurskoða hlutverk þeirra. Eins má velta fyrir sér áhrifum samningsins á hlutverk og stöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ef til vill höfum við að mati stuðningsmanna þessa samnings enga þörf fyrir neina sjóði þegar hugmyndir og fjármagn erlendis frá fara að streyma inn á íslenskan vinnumarkað, en þó hlýtur það að hafa verið skoðað með tilliti til þessa samnings.
    Atvinnuréttur og jafnræðisreglur eru, eins og áður er nefnt, útfærðar í reglugerð 1612/68 sem lögfesta á samkvæmt frv. Það er alveg nýtt fyrir mér að lögfesta eigi reglugerð í heild sinni en ég þekki þó ekki nógu vel til til þess að geta fullyrt að svo hafi aldrei verið gert. Það er hins vegar afar mikilvægt að skoða hvaða áhrif þessi reglugerð hefur á íslenskt atvinnulíf í heild sinni.
    Í 7. gr. er til að mynda afdráttarlaust kveðið á um sama rétt ríkisborgaranna til þjálfunar í skólum er tengjast atvinnulífi og til endurmenntunar. Erlendir ríkisborgarar þurfa jafnvel enn meir á slíkri þjálfun í skóla að halda en Íslendingar sem þekkja þau störf sem hér eru unnin mun betur. Þetta getur þýtt að leggja verði mun meiri fjármuni í hvers konar starfsþjálfun í framtíðinni, hvort sem um er að ræða ríki, einstakar stofnanir eða fyrirtæki.
    Í lögum er kveðið á um að strangt eftirlit skuli hafa með ráðningu útlendinga í störf og með launakjörum þeirra. Leggja beri fyrir ráðuneytið ráðningarsamninga þar sem fram á að koma eftir hvaða kjarasamningi er farið. Þessar reglur munu gilda áfram um alla þá sem þurfa atvinnuleyfi en ekki fyrir þá sem búa á EES-svæðinu. Hins vegar kom það fram hjá hæstv. ráðherra að nauðsynlegt væri að tryggja eftirlit með ráðningarsamningum þeirra sem hingað koma af þessu svæði. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra með hvaða hætti slíkt eftirlit verði tryggt og hver muni bera kostnaðinn af því.
    Ég nefndi í upphafi 2. gr. frv. um atvinnu- og búseturétt þar sem um er að ræða ákvæði um að setja á fót þriggja manna nefnd sem á að hafa virkt eftirlit með framkvæmd laganna. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að hugmyndin væri sú að nefndin fái víðtækt umboð til að fjalla um öll þau svið er tengjast framkvæmd laganna. Nefndin gæti átt frumkvæði að því að taka á málum og einnig væri hægt að vísa ágreiningi eða úrskurðarefni til nefndarinnar. Ég vil því spyrja ráðherrann: Er það samkvæmt samningi um EES að vísa ágreiningsefnum sem upp kunna að koma og varða framkvæmd laga sem tengjast honum til nefndar sem einstakir ráðherrar skipa til þess að hafa eftirlit með framkvæmd laganna? Ef svo er, hvaða gildi hafa úrskurðir þessara nefnda? Eru þeir að mati ráðherra jafngildir úrskurðum sem koma frá Brussel og gætu snert sama efni? Er ekki staðreyndin sú að ef upp koma alvarleg ágreiningsefni varðandi EES-samninginn og þau lög sem honum fylgja, þá verði að vísa þeim ágreiningi til Brussel eða nauðsynlegt verði að fá staðfestingu þaðan á þeim úrskurðum sem nefnd ráðherra kveður upp?
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, ítreka þá ósk mína að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því hvað samningur um EES þýðir fyrir sveitarfélögin, hvaða kostnað hann hefur í för með sér, hvaða kröfur þau verða að uppfylla og hvort fram hafi farið eitthvert mat á því hvernig sveitarfélögin eru í stakk búin til að taka við fjölgun íbúa sem samþykkt þessa frv. gæti haft í för með sér.