Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 14:41:33 (1047)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað mér að bæta miklu við umræðuna, þó svo ég taki til máls og nýti ræðurétt, heldur hitt að mig langar til að segja fáein orð út af því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra í síðustu orðum hennar í andsvari við mig þar sem hún nefndi til sögunnar sem mögulegar varnir að gera kröfu um tungumálakunnáttu. Ég vil segja að auðvitað gildir það ákvæði samningsins að óheimilt er að mismuna fólki eftir ríkisfangi. Tungumálakunnátta er ekki þjóðernisbundin krafa heldur miklu fremur hæfniskrafa. Menn verða því að beita kröfunni um tungumálakunnáttu á þann veg að það samrýmist starfinu. Krafan má ekki vera sterkari en eðli starfsins gefur tilefni til. Það getur verið breytilegt eftir störfum

hvaða ástæða er til að setja háar og miklar kröfur um færni í íslensku máli.
    Við höfum nú þegar, eins og hæstv. ráðherra greindi frá, 700 útlendinga í störfum hjá hinu opinbera á Íslandi, bæði ríki og sveitarfélögum. Með því að ráða þá útlendinga í störf án kröfu um íslenskukunnáttu höfum við gefið út óbeina yfirlýsingu sem þýðir það að við munum ekki geta sett tungumálakröfu í þeim störfum. Fyrst við gátum ráðið útlendingana í þessi störf án kröfu tungumálakunnáttu getum við ekki gert það eftir ESS-samninginn að setja þá kröfu um sömu störf. Við erum búin að segja að þeir geti sinnt þessum störfum þrátt fyrir skort á færni í íslensku máli.
    Annað leiðir af þessum 700 útlendingum sem gerir okkur erfiðara fyrir að skilgreina opinber störf, þ.e. hvaða störf falli utan við gilidssvið þessa hluta fjórfrelsisins. Með því að ráða þessa 700 útlendinga í tiltekin störf erum við að mínu mati samkvæmt dómstóli EB búin að loka fyrir það að við getum einhliða skilgreint þau störf sem opinber störf sem falli utan gildissviðs launþegafrelsisins.
    Ég vil lesa hér, virðulegi forseti, stuttan útdrátt úr einum dómi, nr. 152/1973, dómstóls EB, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Ítalskur ríkisborgari starfaði hjá þýsku póstþjónustunni sem faglærður verkamaður. Í málaferlum sem ítalski ríkisborgarinn átti frumkvæði að vaknaði spurningin hvort hann teldist opinber starfsmaður í skilningi 4. mgr. 48. gr. EBE og væri því undanþeginn meginreglunni um frjálsa för launþega.`` Og dómareifunin er svo hljóðandi: ,,4. mgr. 48. gr.``, þ.e. Rómarsáttmálans sem jafngildir 28. gr. EES-samningsins, ,,mælir fyrir um takmarkanir á aðgangi erlends vinnuafls til ákveðinna starfa á vegum hins opinbera. Hins vegar getur ákvæðið ekki réttlætt ráðstafanir sem fela í sér mismunun varðandi launakjör eða önnur starfsskilyrði eftir að viðkomandi hefur verið ráðinn í þjónustu hins opinbera. Það eitt að viðkomandi hefur þegar verið ráðinn sýnir að hagsmunirnir sem réttlæta undantekningu 4. mgr. 48. gr. eru ekki í hættu. Starfslýsing í ráðningarsamningi sem skilgreinir samband atvinnurekenda og launþega hefur engu hlutverki að gegna við ákvörðun gildissviðs 4. mgr. 48. gr.``
    Kjarninn í dómnum er sem sé sá að það að hafa ráðið útlending til tiltekins starfs sýnir að hagsmunirnir, sem réttlæta undantekninguna í 4. mgr. 48. gr. Rómarsáttmálans eða 28. gr. EES-sáttmálans, eru ekki í hættu. Þetta er staða sem blasir við þegar menn setjast niður við það verkefni eftir gildistöku samningsins að skilgreina hvaða störf við getum staðið á að falli utan við þetta svið fjórfrelsisins.
    Ég vil líka benda á að í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er skýrt kveðið á um það skilyrði í 4. tölul. 3. gr. sem menn þurfa að uppfylla til að fá skipun, setningu eða ráðningu í stöðu. 4. tölul. er: Íslenskur ríkisborgararéttur. Nú spyr ég: Hvað eru þessi lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna víðtæk? Hvað ná þau yfir mörg störf hjá hinu opinbera? Síðan spyr ég: Hvað nær undanþáguákvæðið um störf í opinberri þjónustu til margra starfa af þeim? Ég er alveg viss um að svarið við síðari spurningunni er miklu þrengra, mun færri störf eru undanþegin frelsinu en lögin ná til. Þar með erum við með þjóðernisbundna mismunin sem er óheimil gagnvart EES-samningnum. Ég er því alveg sannfærður um og vil fullyrða að íslenskum stjórnvöldum er það ljóst að þau verða að breyta þessum lögum og þau munu koma með breytingu á þeim. Ég fæ ekki skilið að sú breyting skuli ekki þegar fram komin. Getur það verið að íslensk stjórnvöld séu að reyna að fela það að þessa breytingu þurfi að gera? Ég hygg að hæstv. fjmrh., sem fer með forræði í þessum lögum, verði að svara þessu. Hann verður að svara því og enn frekar er ástæða til þess að krefjast þess að hann svari þegar hæstv. félmrh. lýsir því yfir að það sé á valdi hvers ríkis að gefa sína eigin skilgreiningu um hvað falli undir undanþáguákvæðið. Hæstv. ráðherra verður þá að koma hér og segja: Öll störf sem að falla undir réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru undanþegin ákvæðinu um fjórfrelsið. Hann verður að gera það. Ef hann gerir það ekki, þá er maðkur í mysunni. Ég held nefnilega að menn muni hrökkva í kút þegar þeir átta sig á þessu samhengi málsins. Ég vil og hef reynt að draga athygli að þessu því ég tel það eitt af stóru málunum í frv. að átta sig á því hvert gildissvið frv. er burt séð frá lagtexta og öðrum slíkum nýjungum.
    Þetta vil ég, virðulegi forseti, taka fram í tilefni af þeirri vörn ráðherra að við gætum gripið til kröfu um tungumálakunnáttu. Ég hygg að það sé minna hald í þeirri vörn en menn vilja vera láta, því miður. Ég vil gjarnan trúa því að svo sé, eins og menn segja, að þetta sé nokkuð góð hindrun. Því miður er það mín skoðun að svo sé ekki.
    Ég vil svo árétta það að lokum, vegna þess að um það er ágreiningur milli mín og ráðherra, að dómareifanirnar sem ég er með kveða alveg skýrt á um það að það er dómstóll EB sem tekur það að sér að ,,defínera`` hvert undanþáguákvæðið nær. Það segir meira að segja hér í einum dómnum, nr. 149/1979, Framkvæmdatjórn EB gegn Belgíu: ,,Með 4. mgr. 48. gr. er meginreglunni um bann við mismunun vikið til hliðar þegar um er að ræða störf hjá því opinbera. Af þessum sökum er ekki unnt að láta aðildarríkjunum eftir afmörkun hugtaksins ,,opinber þjónusta``.``
    Dómstóll EB segir: Það er ekki hægt að láta hvert ríki innan EB um það að skilgreina hvaða störf falla undir orðin opinber þjónusta. Undir þetta hafa aðildarríki EB beygt sig eftir því sem ég best veit. Og þau munu auðvitað halda áfram að beygja sig undir dómstól EB í þessu efni eftir gildistöku EES-samningsins. Það er augljóst mál út frá samræmingarkröfunni í samningnum að það verður ekki liðið af hálfu

EB að túlkun á þessu ákvæði þróist í mismunandi áttir eftir því hvort menn eru að ræða um þróun á EB-svæðinu eða einstökum EFTA-ríkjum. Það verður að vera samræmi og meira að segja er í 4. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, ef ég man rétt: ,,Ráðherra á hverju sviði er falið það vald að gefa út reglugerðir til þess að samræma framkvæmd hér innan lands við það sem gerist erlendis.`` Það þarf því ekki einu sinni að leita til Alþingis til þess að lúta niðurstöðum erlendra aðila um túlkanir mála heldur getur ráðherra á viðkomandi sviði tekið við þeirri túlkun og sagt já og amen. Hann getur gefið út reglugerð og sagt: Veskú, þetta eru íslensk lög.