Hópuppsagnir

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 14:59:01 (1053)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um hópuppsagnir. Frv. er lagt fyrir Alþingi vegna fullgildingar samnings um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Með samþykkt frv. eru lögfestar reglur sem settar eru fram í tilskipun Evrópubandalagsins, nr. 75/129, um samræmingu á lögum aðldarríkjanna um hópuppsagnir. Samkvæmt 6. gr. tilskipunarinnar og með vísan til samnings um Evrópskt efnahagssvæði skulu aðildarríkin setja nauðsynleg lög og stjórnvaldsfyrirmæli til að hrinda markmiðum hennar í framkvæmd.
    Frv. er samið af nefnd sem félmrh. skipaði til að undirbúa aðild Íslands að frjálsum atvinnu- og búseturétti á Evrópsku efnahagssvæði. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar ASÍ og VSÍ auk ráðuneytisins. Nefndinni var einnig falið að fjalla um þann þátt félagsmála sem snertir samtök aðila vinnumarkaðarins.
    Samkvæmt skipunarbréfi var hlutverk nefndarinnar að koma með tillögur um það hvernig tryggt verði í framkvæmd að Ísland uppfylli þær reglur sem gilda munu á sviði félags- og vinnumála á Evrópska efnahagssvæðinu á sama tíma og tryggt verði að aðilar vinnumarkaðarins geti fylgst með atvinnuþátttöku útlendinga hér á landi og að íslenskum kjarasamningum og íslenskum lögum sé framfylgt.
    Nefndin varð sammála um að eðlilegast væri að efni tilskipunarinnar væri í sérlögum enda ekki ótvírætt í hvaða lögum þessi nýju ákvæði ættu annars heima.
    Frv. felur í sér að sveitarfélög eða vinnumiðlanir, þar sem þær starfa, eiga að annast þau verkefni sem fylgja hópuppsögnum. Þar sem sveitarfélag er með fleiri en 500 íbúa verður það að jafnaði stjórn vinnumiðlunar sem annast þetta verkefni. En þar sem íbúar eru færri en 500 verður þetta verkefni sveitarstjórnar eða þess aðila sem hún ákveður að fela slík verkefni eins og t.d. þeim sem annast atvinnuleysisskráningu í sveitarfélaginu. Í framtíðinni, með stækkun eða sameiningu sveitarfélaga, má gera ráð fyrir að öll sveitarfélög annaðhvort reki eða sameinist um rekstur vinnumiðlana enda eðlilegt að þær annist þessi verkefni.
    Hlutverk vinnumálaskrifstofu félmrn. breytist ekki með frv. Hlutverk hennar er fyrst og fremst að hafa heildaryfirsýn yfir stöðu og þróun atvinnumála í landinu. Eitt af verkefnununum verður eftir sem áður að taka við tilkynningum um uppsagnir og meta atvinnuástandið og þróun þess út frá upplýsingum sem öðrum, sbr. 6. gr. frv.
    Efni 6. gr. er nánast það eina sem til hefur verið í lögum um uppsagnir hópa. Í núgildandi löggjöf er einungis að finna ákvæði um tilkynningu vegna uppsagna fjögurra eða fleiri starfsmanna, sbr. 55. gr. laga um stjórn efnahagsmála. Slíka tilkynningu átti að senda til vinnumálaskristofu félmrn. og hlutaðeigandi verkalýðsfélags. Ákvæðið hefur verið túlkað svo að nægilegt sé að senda slíkar tilkynningar með tveggja mánaða fyrirvara áður en uppsagnarfresturinn rennur út. Þetta ákvæði hefur verið efnislega fellt inn í frv. Það þýðir að hlutverk vinnumálaskrifstofu félmrn. varðandi hópuppsagnir er að mestu leyti óbreytt. Ástæða þess að þetta ákvæði er fellt inn í frv. er bæði sú að hafa hliðstætt efni í sömu lögum og undirstrika það hlutverk vinnumálaskrifstofu félmrn. að hafa heildaryfirsýn í slíkum málum en búast má við að vinnumálaskrifstofan geri kröfur um upplýsingar frá vinnumiðlunum eða sveitarstjórnum í slíkum málum þegar ástæða er til. Ákvæðið á að tryggja að vitneskja um hópuppsagnir berist til ráðuneytisins og verkalýðsfélaga eftir sem áður. Vert er að vekja athygli á að ákvæði 6. gr. tekur til uppsagna fjögurra eða fleiri starfsmanna en hópuppsögn skv. 1. gr. frv. miðast við 10 eða 30 starfsmenn, allt eftir stærð fyrirtækja. Þess má geta að skv. 5. gr. tilskipunar EB um hópuppsagnir hefur þessi tilskipun engin áhrif á rétt aðildarríkja til að beita eða koma á lögum eða stjórnsýslufyrirmælum sem eru hagstæðari launþegum. Slíkum tilskipunum á vinnumála- eða félagsmálaviðinu er yfirleitt ætlað að tryggja lágmarksrétt launafólks eða annarra hópa um hlutaðeigandi málefni.
    Á sama hátt er t.d. aðilum vinnumarkaðarins heimilt að semja um hagstæðari réttindi í kjarasamningum en tryggð eru með þessum lágmarksréttindum. T.d. hafa þeir aðilar vinnumarkaðarins, sem samþykktu miðlunartillögu ríkissáttasemjara frá 26. apríl 1992, þegar tryggt sér áþekk réttindi og þau sem felast í frv. Að sumu leyti er um rýmri rétt að ræða samkvæmt frv. og að sumu leyti samkvæmt miðlunartillögunni. Það sem er hagstæðast fyrir launþegann gildir. Dæmi um þetta er að samkvæmt frv. taka uppsagnir fyrst gildi 30 dögum eftir að tilkynning um þær berast stjórn vinnumiðlunar í umdæminu. Ekkert slíkt ákvæði er í miðlunartillögunni. Framlenging uppsagnarfrests vegna þess að ákvarðanir hafa dregist um hugsanlegar endurráðningar er hins vegar einungis að finna í miðlunartillögunni. Þá nær hugtakið ,,hópuppsögn`` til dálítið minni fyrirtækja í miðlunartillögunni. Það nær til fyrirtækja með 16 starfsmenn meðan í frv. er miðað við 20 starfsmenn en í báðum tilvikum þarf að segja upp a.m.k. 10 manns.
    Að öðru leyti er skilgreining hugtaksins eins í báðum tilvikum en skv. 1. gr. frv. er skilgreining

hugtaksins hópuppsagnir sú að það eru uppsagnir atvinnurekenda á fastráðnum starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum einstökum þeirra þegar fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á 30 daga tímabili er í fyrsta lagi a.m.k. 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu. Í öðru lagi a.m.k. 10% starfsmanna í fyrirtækjum sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn en færri en 300 starfsmenn í vinnu og í þriðja lagi a.m.k. 30 starfsmenn í fyrirtæki sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.
    Í 2. gr. frv. er ákvæði um samráð atvinnurekenda við trúnaðarmann starfsmanna eða annan fulltrúa sem þeir hafa til þess valið vegna hugsanlegrar hópuppsagnar. Samráð skal eiga sér stað eins fljótt og auðið er eftir að atvinnurekandi íhugar eða áformar hópuppsagnir eða a.m.k. eftir að hann kemst að þeirri niðurstöðu að uppsagnir séu nauðsynlegar og í síðasta lagi áður en til upsagnar kemur.
    Ég vil nefna að þetta ákvæði um samráð kom inn í kjarasamninga síðasta vor í tengslum við miðlunartillögu ríkissáttasemjara milli helstu samtaka á vinnumarkaði. Þar er tekið fram að samráð skuli eiga sér stað áður en til uppsagna kemur. Þá er í 2. gr. enn fremur keðið á um að senda beri afrit af öllum skriflegum upplýsingum sem um getur í 3. mgr. þeirrar greinar til stjórnar vinnumiðlunar í umdæminu eða til sveitarstjórna ef engin vinnumiðlun er starfrækt í sveitarfélaginu. Hugtakið ,,umdæmi`` er hér notað í stað sveitarfélags þar sem sveitarfélög geta sameinast um rekstur vinnumiðlana, sbr. 7. gr. laga um vinnumiðlun.
    Í 3. gr. er kveðið á um hvernig beri að standa að því að senda tilkynningu um fyrirhugaðar hópuppsagnir til hlutaðeigandi stjórnvalds, þ.e. stjórnar vinnumiðlunar eða sveitarstjórnar. Þá er kveðið á um efnislegt innihald þessara tilkynninga og skyldu atvinnurekenda til að koma afriti af tilkynningum til fulltrúa starfsmanna. Í niðurlagi greinarinnar er ábending um að fulltrúar starfsmanna geri sínar athugasemdir ef einhverjar eru og komi þeim á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld.
    Fram kemur í 4. gr. að uppsagnir sem hafa verið tilkynntar samkvæmt lögunum taki fyrst gildi 30 dögum eftir að tilkynning hefur borist hlutaðeigandi stjórnvaldi. Þennan frest á stjórn vinnumiðlunar eða sveitarstjórnir, þar sem engin vinnumiðlun er, að nota til að leita lausna á þeim vanda sem fyrirhugaðar uppsagnir munu valda. Þarna geta bæði komið til verkefni skv. 8. gr. laga um vinnumiðlun, eins og aðstoð við að finna önnur störf og sérstök verkefni í samráði við sveitarstjórnir og Atvinnuleysistryggingasjóð. Ákvæði um að fulltrúar starfsmanna og atvinnurekenda eða fulltrúar hans skulu gæta þagnarskyldu varðandi upplýsingar sem gefnar eru samkvæmt ákvæðum þessara laga eru ekki hluti af tilskipuninni en slík ákvæði má m.a. finna í dönskum lögum. Þessu ákvæði er bæði ætlað að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækisins og um leið að upplýsingastreymi milli aðila verði sem mest. Þetta gildir einnig um persónulegar upplýsingar sem þar kynnu að koma fram. Aðilar vinnumarkaðarins voru ásáttir um að hafa þetta ákvæði í lögunum.
    Í 5. gr. eru nefndar þær undantekningar sem eru frá lögunum. Í a-lið er t.d. átt við einstaklinga eða hópa sem ráðnir eru til reynslu eða með tímabundnum ráðningarsamningi. Í b-lið eru áhafnir skipa sérstaklega undanskildar ákvæðum frv. eins og gert er í tilskipuninni. Ástæða þess er sú sérstaða sem gildir um ráðningu á skipum víðast hvar í heiminum og þeirrar umboðsstarfsemi sem þar á sér stað. Í Evrópubandalaginu hefur ekki náðst samstaða um að taka áhafnir skipa undir þessi ákvæði um hópuppsagnir. Ef slíkt ætti að gerast hér á landi yrði það að gerast með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins í samræmi við þær hefðir sem gilda í vinnurétti hér á landi. Í c-lið er fyrst og fremst átt við fyrirtæki sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta eða rekstur þeirra stöðvaður vegna ólögmætrar starfsemi. Í síðustu málsgrein 5. gr. er vakin athygli á að ákvæði laganna hafa ekki áhrif á uppsagnarfrest sem slíkan, skv. lögum nr. 19/1979, kjarasamningum eða ráðningarsamningum, aðeins hvenær hann tekur gildi skv. 4. gr. frv.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.