Vinnumarkaðsmál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 15:13:03 (1056)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um vinnumarkaðsmál vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Frv. er lagt fyrir Alþingi vegna fullgildingar samnings um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði og felur í sér nauðsynlegar breytingar á þrennum gildandi lögum um vinnumarkaðsmál.
    Þau lög sem hér um ræðir eru lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 26/1982, með síðari breytingu, lög um vinnumiðlun, nr. 18/1985, og lög um breytingu á lögum um starfskjör launafólks o.fl., nr. 55/1980, með síðari breytingum. Um er að ræða fáeinar breytingar sem fela í sér aðlögun laganna að þeim skuldbindingum sem EES-samningurinn kveður á um. Einkum er hér um að ræða að undanskilja ríkisborgara aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins frá ýmsum kvöðum og takmörkunum er gilt hafa um erlenda ríkisborgara aðra en Norðurlandabúa.
    Hlutaðeigandi breytingar á lögunum um atvinnuréttindi útlendinga byggjast á að samkvæmt samningi um Evrópskt efnahagssvæði munu ríkisborgarar EFTA-ríkja og ríkisborgarar aðildarríkja EB ekki þurfa atvinnuleyfi til að starfa hér á landi. Hingað til hefur ríkisborgurum þessara ríkja, annarra en Norðurlandanna, ekki verið heimilt að leita sér að vinnu eða ráða sig í vinnu hér á landi nema hafa sérstakt dvalarleyfi og atvinnuleyfi sem bundin eru ýmsum skilyrðum. Þeim verður nú frjálst að dvelja í öðru landi innan EES og leita sér að atvinnu í allt að þrjá mánuði. Fái viðkomandi vinnu tryggir EES-samningurinn honum frelsi til að ráða sig beint í starfið og ekkert sérstakt atvinnuleyfi er nauðsynlegt. Svo framarlega sem takmarkanir vegna allsherjarreglu, almannaöryggis og almannaheilbrigðis eiga ekki við fást dvalarleyfisskilríki yfirleitt sjálfkrafa, að undangenginni umsókn, til allt að 5 ára ef ráðningartíminn er lengri en 12

mánuðir, annars jafnlengi og ráðningartíminn segir til um. Það er því nauðsynlegt að kveða skýrt á um það í lögum um atvinnuréttindi útlendinga hvert er gildissvið þeirra. Enn fremur krefjast 28. gr. EES-samningsins og reglugerð nr. 1612/68, sem lagt er til að lögfest verði með öðru frv., þeirra breytinga sem hér eru lagðar til.
    Þótt launþeginn þurfi að vera ríkisborgari EES-ríkis ef hann ætlar að starfa og búa í öðru aðildarríki þarf fjölskylda hans ekki að vera það til að búa með honum. Fjölskyldumeðlimir, sem ekki eru ríkisborgarar EES-ríkis, þurfa yfirleitt atvinnuleyfi ef þeir ætla að hefja vinnu í öðru aðildarríki og einnig er hægt að krefja þá um vegabréfsáritun. Þó veitir 11. gr. reglugerðar Evrópubandalagsins nr. 1612/68 maka og börnum launþega, sem eru yngri en 21 árs eða eru á hans framfæri, rýmri rétt til að ráða sig í hvaða vinnu sem er, hvar sem er í viðkomandi aðildarríki jafnvel þó að þau séu ekki ríkisborgarar neins aðildarríkis. Þau þurfa eftir sem áður sérstakt atvinnuleyfi sem þau eiga sjálfkrafa rétt á. Þau þurfa þannig ekki að uppfylla sérstök skilyrði í lögum um atvinnuréttindi útlendinga eins og t.d. að fá samþykki viðkomandi verkalýðsfélags.
    Með breytingu á 1. gr. laganna er kveðið á um að lögin gildi um alla þá erlendu ríkisborgara sem falla ekki undir Evrópska efnahagssvæðið, samanber þó ákvæði 11. gr. laganna um þá sem ekki þurfa atvinnuleyfi. Ákvæði EES-samningsins gilda um þá ríkisborgara aðildarríkja EB- og EFTA-ríkja sem starfa hér á landi.
    Með lögum um breytingar á lagaákvæðum er varða fjárfestingar erlendra aðila var m.a. gerð breyting á 1. mgr. 9. gr. og var hún á þá leið að útlendingur sem átt hefur lögheimili skemur en eitt ár á Íslandi skyldi sækja um atvinnurekstrarleyfi til félmrn. en annars til viðskrn. Félmrn. hefur ekki veitt nein leyfi skv. 9. gr. heldur hafa sjálfstætt starfandi einstaklingar fengið leyfi sín á grundvelli 8. gr. Í ljósi þess að atvinnurekstrarmál lögaðila heyra í reynd undir viðskrn. en sjálfstæð atvinnuleyfi einstaklinga sem ekki byggja á sérstakri löggildingu heyra undir félmrn., sbr. 8. gr. laga nr. 26/1982, er hér lögð til sú breyting að 9. gr. falli alveg niður. Viðskrn. þarf að gera tilsvarandi breytingu. Með því móti verður ljósara hvert aðilar eigi að sækja sín leyfi, eftir því hvort í hlut á einstaklingur eða fyrirtæki.
    Með þeirri breytingu á 11. gr. laganna, sem hér er lögð til, eru gömul ákvæði sem lúta að sérstöðu Dana felld niður. Samkvæmt 4. tölul. 11. gr., sem lagt er til að verði felldur niður, þurfti ekki að sækja um atvinnuleyfi fyrir útlendinga er höfðu aðsetur hér á landi er lög nr. 13 31. maí 1927 öðluðust gildi. Þessir einstaklingar verða ekki krafðir um atvinnuleyfi. Með því að fella brott 5. tölul. er sérstakt ákvæði er varðar danska ríkisborgara, sem lög um ráðstafanir í sambandi við Ísland og Danmörku taka til, numin úr gildi. Samningurinn um norrænan vinnumarkað hefur veitt þessum ríkisborgurum, sem og öðrum Norðurlandabúum, atvinnu- og búseturétt frá 1983. 7. tölul. 11. gr. tryggir ríkisborgurum hinna Norðurlandanna að þeir þurfi ekki atvinnuleyfi eftir þriggja ára búsetu á Íslandi. Ákvæði samningsins um norræna vinnumarkaðinn fela það í sér að lögin um atvinnuréttindi útlendinga eiga ekki við um ríkisborgara frá hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt þessum breytingum kemur einn töluliður, þ.e. 4. tölul., í stað 4. og 7. tölul. núgildandi laga en 1.--3. tölul. eru óbreyttir. Ekki þurfti því að sækja um atvinnuleyfi fyrir útlendinga sem stunda eingöngu nám í skólum sem íslenska ríkið á eða styrkir, útlendinga í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja, útlendinga sem verið hafa íslenskir ríkisborgarar frá fæðingu en misst hafa íslenskan ríkisborgararétt og útlendinga sem undanþegnir eru atvinnuleyfi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
    Með þeirri viðbót í 11. gr. laga um vinnumiðlun sem hér er lögð til er tryggt að þeir sem falla undir samninginn um Evrópskt efnahagssvæði njóti þjónustu vinnumiðlunar áður en þeir hefja störf hér á landi og enn fremur ef þeir verða atvinnulausir. Er þetta í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1612/68. Í reglugerð 1612/68 eru fjölmörg ákvæði um þjónustu vinnumiðlana sem ég hef þegar gert grein fyrir.
    Ekki þarf að gera aðrar lagabreytingar vegna þessara ákvæða en hér er lagt til þótt framkvæmd vinnumiðlunar muni breytast við aðildina að EES, einkum þó það er tekur til upplýsinga til erlendra aðila. Um er að ræða framkvæmdaratriði sem rúmast innan núgildandi laga með þeirri breytingu sem hér er lögð til.
    Í tengslum við undirbúning lögfestingar á breytingu á lögum vegna samnings um Evrópskt efnahagssvæði hafa lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks o.fl., m.a. verið athuguð. Niðurstaðan af þeirri athugun er sú að í ljósi þess hve viðkvæmur íslenskur vinnumarkaður er fyrir innstreymi erlends vinnuafls, og þá sérstaklega erlendra verktaka, væri nauðsynlegt að hafa ákvæði 1. gr. fyllri og skýrari. Þá hefur komið í ljós að ákvæði íslenskra laga um launajafnrétti kynjanna þykja, a.m.k. að dómi þeirra er fjalla um félagssáttmála Evrópuráðsins, ekki nógu afdráttarlaus. Efni tilskipana nr. 76/207, um framkvæmd meginreglna um jafnan rétt karla og kvenna til vinnu, starfsþjálfunar, stöðuhækkana og starfsaðstæðna, og nr. 75/117, um samræmingu löggjafar aðildarríkjanna og þeirrar meginreglu að konur og karlar hljóti jöfn laun, þarf að vera fyrir hendi í íslenskum lögum og þykir eðlilegt að gera það í lögum er ná til vinnumarkaðarins fremur en í lögum um jafnrétti kynjanna.
    Samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði er öll mismunun byggð á þjóðerni óheimil

og þykir nauðsynlegt að árétta það í þessum lögum. Lög nr. 55/1980 gilda um öll störf óháð tímalengd ráðningarsamnings. Slíkt er hins vegar ekki tekið fram beinum orðum í 1. gr. laganna. Í ljósi þess að vinnuafl kann að koma erlendis frá til að inna af hendi verkefni hérlendis um skamma hríð má ætla að tryggara sé að hafa ákvæði í lögum þess efnis. Kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins munu því gilda óháð því hvort ráðningartími er lengri eða skemmri. Með ofangreindri breytingu er í reynd ekki verið að koma með nein nýmæli heldur er verið að undirstrika hvað felst í ákvæðum um lágmarkskjör sem giltu alveg óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma. Laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um skulu vera lágmarkskjör óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.
    Eins og fram hefur komið í almennum athugasemdum er með frv. verið að undirstrika það að kjarasamningar gilda sem lágmarkskjör hvort sem í hlut á karl eða kona, Íslendingur eða erlendur ríkisborgari eða hvort ráðningarsamningur er til lengri eða skemmri tíma. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.
    Með þeirri breytingu á 5. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks o.fl., sem lögð er til með 6. gr. frv. er stefnt að því að íslensk löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða brjóti ekki í bága við þær almennu tryggingareglur sem gilda munu á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þetta þýðir að óheimilt yrði að greiða þeim erlendu ríkisborgurum er falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið út það sem haldið hefur verið eftir af launum þeirra til greiðslu í lífeyrissjóð. Slíkt færi berlega í bága við 29. gr. samningsins um EES og 10. gr. reglugerðar EB nr. 1408/1971. Í fyrsta lagi hafa í framkvæmd erlendir ríkisborgarar einungis fengið greitt sitt eigið framlag en ekki framlag atvinnurekenda sem lífeyrissjóðurinn hefur haldið eftir. Í öðru lagi mundi við slíka útgreiðslu skapast eyða í tryggingatímabilið.
    Samkvæmt 29. gr. samningsins um EES skulu leggjast saman öll tímabil sem taka ber til greina samkvæmt lögum hinna ýmsu landa til að öðlast og viðhalda bótarétti, svo og við útreikning bótafjárhæðar. Með þeirri breytingu yrði komið í veg fyrir að unnt væri að fá lífeyrissjóðsgjaldið greitt út til ríkisborgara frá aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum. Sú leið var valin að ósk heilbr.- og trmrn. að hafa ákvæðið almennt orðað þannig að það næði til allra milliríkjasamninga sem Ísland ætti aðild að með slíkum efnisatriðum.
    Eftir gildistöku laga þessara er lífeyrissjóðum einungis heimilt að endurgreiða sjóðfélögum iðgjöld þeirra í því skyni að færa fé og þar með réttindi sem þeim fylgja milli lífeyrissjóða. Þó er heimilt að ákveða í reglugerð endurgreiðslu til erlendra ríkisborgara, annarra en þeirra ríkisborgara er falla undir samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, sem flytja af landi brott. Enn fremur er heimilt að ákveða í reglugerð endurgreiðslur á þeim iðgjöldum sem menn greiða til lífeyrissjóða eftir að hafa náð 75 ára aldri svo og á þeim hluta iðgjalda sem kunna að fara fram úr því sem skylt er að greiða samkvæmt lögum eða kjarasamningum.
    Í samræmdri reglugerð Sambands ísl. lífeyrissjóða er ekki heimild til að endurgreiða erlendum ríkisborgurum greidd iðgjöld ef þeir flytjast af landi brott. Hins vegar er slík heimild í reglugerðum nokkurra lífeyrissjóða innan Landssambands lífeyrissjóða, t.d. í reglugerð Lífeyrissjóðs verslunarmanna.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.