Vinnumarkaðsmál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 15:35:16 (1059)

     Guðmundur Bjarnason :
    Herra forseti. Við ræðum hér um nokkur frv. sem tengjast atvinnu- og búseturéttindum launafólks ef Ísland gerist aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði. Öll eru þessi mál afar þýðingarmikil og hljóta að þurfa að skoðast vel í nefnd þeirri sem fjalla mun um frumvörpin af hálfu Alþingis og varðar þessi mikilvægu mál. Ég verð reyndar að lýsa þeirri skoðun minni að ég er undrandi á því hversu fáir þingmenn fylgjast með þessari umræðu og hlýða á skýringar hæstv. ráðherra og sérstaklega þó hvað stjórnarliðar láta sig málið lítið varða að undanteknum hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni sem hefur fylgst mjög vel með allri þessari umræðu eins og reyndar allri umræðu í Alþingi yfirleitt. Hann situr mjög vel þingfundi.
    Hér er um að ræða afar þýðingarmikil mál sem hafa verið í almennri umræðu í þjóðfélaginu þegar rætt hefur verið um hið Evrópska efnahagsssvæði. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, virðulegi forseti, en mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra varðandi réttindi og launakjör erlendra aðila sem geta komið inn á vinnumarkaðinn hér og frv. sem er til umræðu fjallar sérstaklega um.
    Menn hafa velt mikið vöngum yfir því hvort hugsanlegt sé að hingað kunni að koma vinnuafl og vinna fyrir lægri laun en íslenskir ríkisborgarar og á hugsanlega öðrum samningskjörum en við höfum samið um á okkar vinnumarkaði. Mér sýnist þetta frv. hins vegar eiga að taka til þess. III. kafli laganna t.d. fjallar sérstaklega um að þau starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um skuli gilda og skuli vera lágmarkskjör. En það sem mig langaði til að árétta er sú spurning sem ég beini til hæstv. félmrh.: Er hugsanlegt að erlendir verktakar sem koma hingað til að vinna hugsanlega stór og þýðingarmikil verkefni --- við getum tekið t.d. við virkjunarframkvæmdir eða stóriðjuver eða hvað annað það kann að vera sem erlendir aðilar hugsanlega kunna að sælast eftir hér á landi og munu auðvitað geta tekið þátt í útboðum hér eftir og átt aðild að slíkum verkefnum --- komi einnig með vinnuafl eða starfslið með sér sem okkur sé ekki mögulegt að fylgjast með hvaða laun þeir launþegar muni þiggja? Er mögulegt að þannig sé farið fram hjá þeim ákvæðum, sem ég skil svo að þessi lög eigi að kveða á um, að skilyrðislaust sé um lágmarkslaun að ræða sem samið er um hér innan lands og við hljótum að gera kröfu til þess að gildi hér á landi. Það á að gera það að verkum að erlendir verktakar hafi ekki hag af því og sjái ekki ástæðu til þess að taka með sér vinnuafl til að greiða lægri laun, heldur leiti eftir vinnuafli innan lands til þess að vinna þau verk sem þessir erlendu verktakar hugsanlega hafa tekið að sér samkvæmt verksamningum eða útboðum?
    Það var fyrst og fremst þetta atriði, virðulegi forseti, sem mig langaði til þess að bæta inn í þessa umræðu og fá skýr svör hjá hæstv. félmrh. um það að slíkt geti ekki átt sér stað, eða hann a.m.k. upplýsi mig um það ef ég fer villur vegar, að þrátt fyrir þessi ákvæði sem við erum að fjalla um í frv. kunni það að vera mögulegt að flytja inn vinnuafl sem greidd séu lægri laun eða það ráðið á öðrum starfskjörum og verri en þeim sem samið er um á okkar vinnumarkaði.