Vinnumarkaðsmál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 15:46:20 (1064)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka út af fyrir sig fyrir svör ráðherra vegna spurningar minnar um 5. gr. Ég hjó bara eftir því að í greinargerðinni er talað um að ákvæði íslenskra laga um launajafnrétti kynjanna þyki ekki nógu afdráttarlaus. Einhvern veginn finnst mér nú að það sé ekki vandamálið sem við eigum við að stríða hér á Íslandi að lagatextinn sé ekki nógu afdráttarlaus. Því eins og ég las hér upp þá hefur verið reynt að skilgreina þetta alveg í botn. Út af fyrir sig hef ég ekkert á móti því, ég tel það alveg sjálfsagt og eðlilegt að ákvæði um launajafnrétti kynjanna komi inn í lög um starfskjör launafólks og hefði auðvitað átt að vera komið þar inn fyrir löngu. Því maður getur kannski orðið eins og Cató gamli og sagt um öll lög: Að lokum legg ég til að inn komi ákvæði um jafnrétti kynjanna. Það mætti þess vegna vera í öllum lögum. Það breytir hins vegar ekki veruleikanum. Hann breytist ekki nema með tilteknum aðgerðum. Og það er auðvitað til þeirra sem við þurfum að grípa en ekki endilega texta.