Upplýsingamiðlun og aðgangur að upplýsingum um umhverfismál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 17:27:37 (1069)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af ræðu hæstv. umhvrh. vil ég aðeins minna á að í greinargerð frv. til breytinga á stjórnarskránni um framsal einhvers hluta ríkisvalds til fjölþjóðlegrar stofnunar, þar sem gert er ráð fyrir að aukinn meiri hluti á Alþingi geti framselt vald til fjölþjóðlegrar stofnunar, er komist þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í þessu sambandi má einnig nefna væntanlega alþjóðasamninga í umhverfismálum sem ætla má að geri ráð fyrir yfirþjóðlegu valdi ef tilætlaður árangur á að nást á svo mikilvægu sviði.``
    Það er alveg ljóst að flutningsmenn þessarar breytingar á stjórnarskránni gera sér grein fyrir því að aðgerðir í umhverfismálum krefjast þess að íslenskt ríkisvald sé framselt til alþjóðlegra stofnana.