Frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 18:06:43 (1083)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig skil ég vel að hv. 3. þm. Reykv. vilji ekki sitja undir því að vera borinn röngum sökum. Hins vegar stangast á fullyrðingar þannig að það mjög erfitt fyrir mig sem var fjarri á þessum fundum, sem hann er að vitna til, að segja til um það hvað er rétt og hvað er rangt í þessu efni. Hitt er hins vegar nauðsynlegt að komi fram að það var ákvörðun þingflokks Alþb. fyrra miðvikudag, rétt áður en ég fór í þingleyfi sem stóð í tvær vikur, að hv. 2. flm. frv., þ.e. hv. 14. þm. Reykv., mundi í fjarveru minni ef kostur gæfist á mæla fyrir málinu. Mér kemur það því gersamlega á óvart núna, það fer þá eitthvað á milli mála í þessu máli sem mér hefur verið tjáð, því það kemur mér gersamlega á óvart ef staðan er þannig að menn hafi ekki verið tilbúnir til að ræða málið ef menntmrh. gaf kost á því fyrr. Ég verð því að segja alveg eins og er að mér sýnist að menn þurfi að fara aðeins betur yfir þetta mál og aðalatriðið er þó ekki þetta heldur hitt að hér er um að ræða mál sem snertir væntanlega tugi þúsunda heimila á Íslandi. Það eru þúsundir námsmanna núna og foreldra þeirra og fjárhaldsmanna að fá útreikninga heim á tekjugrunni næsta námsárs, 1992--1993, og það er vonandi ekki oft notað í þessum ræðustól, það orð sem ég nú nota. Það liggur við að þetta fólk fái það sem í daglegu tali er kallað sjokk, verði fyrir meiri háttar áfalli. Þetta fólk sér ekki fram á hvernig það á að leysa sín fjárhagslegu vandamál í vetur. Það er að flosna upp úr námi í stórum stíl og, virðulegi forseti, það er til vansa að Alþingi skuli nú taka sér tveggja vikna leyfi, af hvaða ástæðu sem það nú er, án þess að ræða þetta mál af fullri alvöru og einlægni.