Mat á umhverfisáhrifum

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 18:43:22 (1086)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Frv. um umhverfismat sem hæstv. ráðherra hefur mælt hér fyrir felur í sér mjög þarflegt nýmæli í lögum hérlendis. Ég vil eindregið taka undir þau markmið sem hér eru fram sett og útfærslur þeirra í öllum aðalatriðum í frv. Um það gildir hið sama og gilti um hið fyrra mál, að þetta er þarflaust að tengja hinu Evrópska efnahagssvæði sem slíku. En hafi það orðið kveikjan að því að frv. var samið og til að minna ríkisstjórnina á málefnasáttmála sinn þar sem orðið umhverfismat kemur fram, ef ég man rétt, ber ekki að lasta það út af fyrir sig. En um þetta mál ber auðvitað að fjalla óháð því hvaða örlög samningur um Evrópskt efnahagssvæði fær hér eða annars staðar og það ber greiða fyrir lögfestingu þessa máls hér að vel athuguðu máli og hugsanlega að gerðum einhverjum breytingum á frv. eftir athugun í þingnefnd.
    Ég vil takmarka mig við örfá atriði hér. Það er í fyrsta lagi varðandi 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra skipi nefnd fimm sérfræðinga sér til ráðuneytis um framkvæmd laga þessara og að sett verði reglugerð sem kveði nánar á um skipun nefndarinnar og starfshætti. Ég tel æskilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að kveðið verði á um skipun þessarar nefndar með skýrari hætti í löggjöfinni eða a.m.k. liggi það fyrir hvaða viðhorf eigi að gilda þegar hún verður sett á laggirnar, þ.e. sú reglugerð sem hér er boðað að ráðherra muni setja varðandi nefndina. Það segi ég ekki af neinni meinbægni við að svona vettvangur verði settur á laggirnar, það finnst mér að geti vel komið til greina en hins vegar skiptir mjög miklu máli hvaða sjónarmið eiga að ráða við skipan nefndar sem fær í raun jafnveigamikið hlutverk og þessari nefnd er ætlað samkvæmt frv.
    Þá kem ég að 5. gr., 1. mgr., þar sem ráðherra er heimilað að víkja frá kvöðinni um umhverfismat varðandi einstakar framkvæmdir að fengnum tillögum sérfræðinganefndar. Það kann að vera rétt að hafa heimild af þessu tagi. En ég átta mig þó ekki á hvaða tilefni eru höfð í huga að þessu leyti. Síðan kemur sjálfstæður málsliður um að framkvæmdir í þágu varnarmála séu undanþegnar lögum þessum. Varðandi það efni tek ég undir það sem fram kom hér hjá hv. 15. þm. Reykv. áðan að ég skil ekki að nein ástæða sé til að undanskilja framkvæmdir í þágu varnarmála, eins og það er hér orðað, umhverfismati. Það ber auðvitað að hafa í huga að við erum ekki með her í landinu og ekki umfangsmiklar framkvæmdir á vegum Íslendinga í því sambandi. En það er sannarlega þörf á því að veita aðhald að því er snertir umsvif þeirra sem samkvæmt samningum við íslensk stjórnvöld kynnu að verða tilkvaddir og falla undir þetta ákvæði, varnarmál. Þar ættu vítin að vera til að varast þau því fáir hafa í rauninni gengið eins á íslenska náttúru og gegn íslenskum umhverfishagsmunum og einmitt setulið fyrr og síðar sem hér hefur átt dvöl í landinu. Nú má vera að menn hugsi það svo að hér sé neyðarréttur á ferðinni, eins konar ,,force majeure`` og því eigi að undanskilja þessa aðila. Það eru ekki ástæður til þess þegar t.d. er verið að semja um dvöl manna eða uppsetningu mannvirkja sem tengd eru slíkum aðilum hérlendis. Það sem gerst hefur á Suðurnesjum og raunar víðar um landið, bæði á árunum eftir síðustu heimsstyrjöld og einnig á tímum hennar, en þá megnuðu íslensk stjórnvöld ekki að grípa þar inn í með ákvarðandi hætti, ætti að verða mönnum til umhugsunar þegar litið er á þessi ákvæði.
    Varðandi 6. gr. sem útfærir nánar hvaða framkvæmdir skuli háðar umhverfismati þá sýnist mér að það séu viðmiðunarmörkin sem þurfi að athuga og meta hvar dregin skuli. Ég er ekki sannfærður um að menn hafi hitt naglann á höfuðið þarna og það er kannski hæstv. ráðherra ekki heldur, ég veit það ekki. Það er auðvitað álitamál hvar svona mörk eru dregin. Þetta á að ná til veigameiri framkvæmda. En á það ber að líta að það fer talsvert eftir eðli máls og sérstaklega eftir því umhverfi sem í hlut á hvaða áhrif framkvæmd af ákveðinni stærð getur haft á umhverfið. T.d. getur fegurðargildi lands eða svæðis mælt gegn því að yfirleitt sé hróflað við því og það beri fremur að friðlýsa svæðið og undanskilja þar alla mannvirkjagerð en ráðast í framkvæmdir. Það má auðvitað segja að það ætti að vera verkefni Náttúruverndarráðs að tryggja að slík svæði séu friðlýst og vernduð sérstaklega. Þetta er atriði sem ég leyfi mér að benda á. Þetta á t.d. við um háspennulínurnar og mörkin sem þar eru sett varðandi legu háspennulína sem eru einhver allra leiðustu mannvirki sem við sjáum hér í landinu mjög víða. Það þarf ekki 132 kílóvatta línur, það nægir að fara niður í hundana svokölluðu, einstrengja línur sem lagðar voru hér og þar í sveitum án nokkurra inngripa náttúruverndaraðila eða aðhalds á sínum tíma, oft með hörmulegum afleiðingum fyrir umhverfið og til stórfelldra lýta. Það er fátt sem er jafndapurlegt upp á að horfa og hvernig línukraðakinu er fyrir komið víða um landið til stórfelldra lýta fyrir umhverfið. Þess vegna tel ég að þarna þurfi að meta málin svolítið öðruvísi en fram er sett í 6. gr. Það gildir einnig varðandi 10. liðinn, lagningu vega. Þar spyr maður sig: Hversu víðtækt er þetta? Hvað eru vegir samkvæmt skilgreiningu 10. tölul.? Ég hef ekki borið það saman við lögskýringarnar. Falla t.d. hálendisvegir og fjallvegir undir þessa skilgreiningu með ótvíræðum hætti? Hversu víðtækt er þetta?
    Þá er það skilgreiningin á verksmiðjum sem hér eru nefndar, t.d. í 8. lið. Þar eru sérstaklega tíundaðar verksmiðjur þar sem fram fer frumbræðsla á steypujárni og stáli og í 9. lið efnaverksmiðja með blandaða framleiðslu. Ég spyr: Tekur þetta með ótvíræðum hætti til málmbræðslna? Eru málmbræðslur í þessu samhengi efnaverksmiðjur? Hvað um slíkar bræðslur? Hvað um álbræðslur? Eru þær með ótvíræðum hætti undir þessum skilgreiningum? Ég vil að það sé á hreinu. Í rauninni hlýtur það að vera markmiðið, eins og reyndar kom fram í máli hæstv. ráðherra, að umhverfismat þurfi að fara fram þar sem þær eiga í hlut. Það kann að vera af vanþekkingu minni og athugunarleysi að spurningin er fram borin en hún er hér fram sett til vonar og vara.
    Þetta voru helstu ábendingar af minni hálfu varðandi málið. Þó vil ég nefna það varðandi 10. gr. og útfærslu og úrvinnslu á umhverfismati að þar er skipulagsstjóra gert að kynna niðurstöðurnar og athugasemdum skal skilað til skipulagsstjóra innan sex vikna frá birtingu niðurstöðu umhverfismats. Ég sé ekki neins staðar í frv. að gert sé ráð fyrir því að binda í lög að haldnir skuli opnir fundir um slíkar niðurstöðir. Ég hef þá í huga það sem upp hefur verið tekið víða í engilsaxneskum löndum, t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum, að halda opna fundi, ,,hearings``, þar sem aðilar geta komið fram með sínar áhyggjur, vegist á, leitað upplýsinga og ég hvet til þess að það verði athugað í sambandi við frv. hvort ekki sé ástæða til að lögbjóða slíkt í sambandi við úrvinnslu á niðurstöðum umhverfismats. Um tímafrestinn til að vinna slíkt mat samkvæmt 8. gr., svo og um hver skuli stýra þessu máli, er auðvitað skylt að það sé metið hvort frv. sé með eðlilegar áherslur í því sambandi. Ég held að í sambandi við ýmsar athuganir þurfi lengri frest sem vissulega er heimild til samkvæmt frv. En það er spurning hvort þessi almenni sex mánaða frestur sem meginregla sé ekki í raun of þröngur til að lögbjóða hann. Það verði þá frekar undantekning en hitt og undantekningin verði meginreglan. Það er auðvitað ekki skynsamlegt að haga lagasetningu með þeim hætti.
    Síðan er það kostnaðarþátturinn sem hv. 15. þm. Reykv. minnti á að hlyti að verða álitaefni og hugsanlega matsatriði fyrir þann sem biður um umhverfismat, hvort hann í raun vilji fylgja því eftir ef kostnaðurinn er mikill. Þetta er framkvæmdar- og útfærsluatriði. Auðvitað hlýtur það að koma til að reiddar verði fram áætlanir um slíkan kostnað, hann verði metinn og réttir aðilar, t.d. skipulagsstjóri, tryggi að slíkar upplýsingar liggi fyrir. Hafa ber í huga að aðstæður hérlendis hafa verið með nokkuð óvenjulegum hætti að því er snertir þessi mál vegna þess hve almennar rannsóknir á náttúru landsins eru skammt á veg komnar eða hvað þær hafa verið ófullnægjandi. Almennar upplýsingar hafa í nágrannalöndum okkar fyrir löngu legið fyrir sem almennur gagnabanki en hér hefur þetta skort vegna þess hversu lítið hefur verið lagt í almennar rannsóknir á náttúru landsins á liðinni tíð og er mjög til vansa fyrir Íslendinga sem hafa viljað telja sig fullvalda þjóð. Það má kannski segja að ef farið verður að tengja þetta við samninginn um EES fari að halla á hugtakið ,,fullveldi``. En það ætla ég ekki að tengja inn í þetta sérstaklega. Þetta eru þær aðstæður sem valda því að kostnaður við svona umhverfismat verður óhjákvæmilega hár miðað við það sem ella væri ef menn hefðu hér góðan gagnagrunn og vitneskju um náttúru landsins sem er í mörgum tilvikum það sem þarf að skoða sérstaklega þó vissulega sé með réttum hætti vísað á fjölmarga aðra þætti, félagslega þætti og fleiri atriði sem falla inn í umhverfismat og það er mjög til bóta.

    Þetta er gott mál sem hér er á ferðinni. Við skulum sameinast um að fjalla um það og gleyma á meðan samningnum um Evrópskt efnahagssvæði því þetta kemur því máli ekkert við.