Mat á umhverfisáhrifum

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 18:57:20 (1087)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim tveimur hv. þm. sem hér hafa talað fyrir góðar undirtektir við þetta mál en jafnframt mun ég leitast við að svara einhverjum af þeim spurningum sem fram komu í þeirra ræðum.
    Ég tek undir það með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að við skulum sameinast um að leiða þetta mál fram til góðrar niðurstöðu og samþykktar burt séð frá því hvort og hvernig það tengist umræddum samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Sá samningur eða sú samningsgerð hefur raunar orðið til að flýta því að sett væri samræmd löggjöf eða gerð tillaga um samræmda löggjöf um þetta þarflega nýmæli eins og hv. þm. sagði svo réttilega.
    Báðir fyrri ræðumenn gerðu athugasemd við það að varnarmál eða framkvæmdir í þágu varnarmála væru undanþegnar lögum þessum eins og segir í 5. gr. Því er til að svara að það er beinlínis orðað svo í þessari tilskipun í lið 4. í 1. gr. Það þýðir auðvitað ekki í sjálfu sér að slíkar framkvæmdir þurfi ekki að taka tillit til umhverfissjónarmiða. Það er alveg rétt, sem hér var sagt áðan, að vissulega var það svo um ýmsar framkvæmdir hér, t.d. á styrjaldarárunum og raunar í framhaldi af þeim, að þar var ekki tekið tillit til umhverfissjónarmiða frekar en gert var á svo mörgum öðrum sviðum og við svo margar aðrar framkvæmdir yfirleitt vegna þess að þau sjónarmið, þau gildi og þær reglur og afleiðingar af ýmsum okkar mannanna gerðum lágu hreinlega ekki fyrir. Það var ekki um það vitað og hefði betur á ýmsum sviðum verið öðruvísi að staðið. Nú eru vissulega breyttar kringumstæður og breytt sjónarmið og menn komast hreinlega ekki upp með það lengur, hvort sem það er á sviði varnarmála eða í öðrum tilvikum, að taka ekki tillit til umhverfissjónarmiða. Ég hygg að við framkvæmdir í varnarmálum, t.d. við nýja olíuhöfn í Helguvík, hafi verið tekið ýtrasta tillit til öryggis- og umhverfissjónarmiða. En það er rétt að hér áður var ýmislegt gert sem betur væri ógert og annað sem betur hefði mátt gera. Nefnt var hér, og það gerði hv. þm. Kristín Einarsdóttir, um fylgiskjalið og tilvísun til þess. Þess eru dæmi í íslenskri löggjöf að fylgiskjöl sem birt eru með lagafrumvörpum séu jafnframt birt í lagasafni og hafi lagagildi og fái slíka umfjöllun. Það gildir t.d. um varnarsamninginn milli Íslands og Bandaríkjanna sem er afar stuttur í lagasafni, en honum fylgja fylgiskjöl sem birt eru þar líka og hafa lagagildi.
    Það er rétt og sjálfsagt að taka undir það að ýmsar þær viðmiðanir sem eru settar í 6. gr. eru auðvitað álitamál, eins og ævinlega þegar settar eru viðmiðanir af slíku tagi, og má ræða og má rökstyðja á margan veg að ætti að vera svona eða ætti að vera með öðrum hætti. Undir það skal ég taka og það hlýtur nefndin að taka til athugunar. Það er auðvitað sjónarmið að það eru ekki bara háspennulínur sem hér um ræðir, heldur línulagnir almennt og enn má nefna að það er tiltölulega nýtt sjónarmið og nýtt í umræðunni að raflínulagning sé af hinu illa og hafi slæm áhrif. Það er ekki langt síðan menn hugsuðu fyrst og fremst um það að fá rafmagnið og það sem því fylgdi, hita, ljós og allan þann vinnusparnað. Það er nýtt sjónarmið að horfa til þess að það geti verið sjónmengun, eins og það er oft nefnt, eða umhverfisspilling af línulögnum. En við getum verið sammála um að í sumum tilvikum er það og í sumum tilvikum hefur þar verið farið fram með þeim hætti sem ekki mundi gert nú. Hins vegar meðan jafndýrt er og raun ber vitni að leggja slíkar línur í jörð um langa vegu komumst við ekki hjá því að hafa slík mannvirki í landinu ef við ætlum að nýta afl fallvatnanna og njóta þess.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi hér vegi. Ég held að samkvæmt þessu þá taki þetta til vega um hálendið, vissulega. Það var lagt fram á Alþingi á fyrra ári frv. um skipulags- og byggingarmál á hálendi Íslands sem hlaut ekki mjög góðar viðtökur, að ekki sé sterkar að orði kveðið. Meginatriðið þar er auðvitað að ná utan um þau mál þannig að þar gildi reglur, ekki endilega með hvaða hætti það er gert.
    Þá minntist hv. þm. einnig á það að nauðsynlegt væri að hafa ákvæði um opna fundi til þess að fjalla um þessi mál. Ég hef efasemdir um að slíkt eigi að binda í lög en bendi á að slíkir fundir hafa auðvitað verið haldnir. Iðnrn. og umhvrn. stóðu t.d. fyrir fundi

um umhverfismál, m.a. í Vogum á Vatnsleysuströnd vegna fyrirhugaðrar álversbyggingar þar, stóðu fyrir opnum borgarafundi þar sem fóru fram líflegar umræður og menn skiptust á skoðunum um þá framkvæmd.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir vék að hlutverki Náttúruverndarráðs. Það mun í rauninni ekki breytast frá því sem nú er í lögum að Náttúruverndarráð er umsagnaraðili eins og nú háttar og samkvæmt þessu yrði það það áfram. Hún velti einnig fyrir sér þýðingu orðanna ,,umtalsverð áhrif`` sem eru í 4. gr. Ég hygg að svarið við þeirri spurningu sé raunar í 6. gr. þar sem taldar eru upp þær framkvæmdir sem háðar eru umhverfismati.
    En ég skal ekki, virðulegi forseti, lengja þetta meira. Ég held að ég hafi svarað flestu því sem um var spurt. Sú framkvæmd að skipulagsstjóri eða skipulagsstjórn hafi umsjón með umhverfismati er í samræmi við þá starfsvenju sem ég veit best til að gildi á Norðurlöndunum.
    En ég ítreka þakkir mínar til þingmanna sem hér hafa talað fyrir jákvæðar undirtektir en tek undir það að auðvitað eru hér ýmis álitamál og umhvn. mun fjalla um þau og ég efast ekki um að málið fái ítarlega og vandaða umfjöllun í nefndinni.