Hlé á fundum Alþingis

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 19:06:21 (1089)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Síðan Alþingi var sett, hinn 17. ágúst, tæpum sjö vikum fyrr en venja stendur til, hafa verið haldnir 24 þingfundir á 21 þingfundadegi. Tvenn lög hafa verið samþykkt og 1. umr. um 35 frumvörp er lokið, en umræða ekki hafin um 15 frumvörp en þá eru talin bæði svokölluð EES-frumvörp sem eru fimm og þingmannafrumvörp.
    Fimm þingsályktunartillögur eru komnar fram, þar af hefur einni verið vísað til nefndar.
    Af þessu má sjá að Alþingi hefur verið starfsamt þessa ágúst- og septemberdaga. Okkar bíða mikil verkefni þegar þingfundir hefjast að nýju en það er von forseta að þessir aukafundir Alþingis, ef svo má segja, hafi skilað þeim árangri sem að var stefnt.
    Gert er ráð fyrir að fundir Alþingis hefjist á ný samkvæmt starfsáætlun Alþingis þriðjudaginn 6. okt. Fundi er slitið.