Samkeppnislög

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 13:43:02 (1093)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er til umræðu, frv. til samkeppnislaga, var á dagskrá áður en þinghlé var gert. Hæstv. viðskrh. hafði mælt fyrir því og var lögð á það áhersla að mál þetta fylgdi öðrum frv. sem tengjast samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Nú er það svo að frv. er ekki tengt því máli í sjálfu sér nema að litlu leyti. Samningur um Evrópskt efnahagssvæði leggur engar sérstakar skyldur á herðar íslenskum stjórnvöldum til að breyta íslenskum samkeppnisreglum. Það er samkvæmt þeim samningi fullkomlega í okkar valdi hvort við teljum ástæðu til að gera það og hvaða leikreglur verða settar í samkeppni hér innan lands. Það er hins vegar mikilvægt að þessar leikreglur séu sem traustastar eins og allar aðrar leikreglur í atvinnulífinu. Því er mikilvægt að mál þetta nái fram að ganga. Ég vil hins vegar benda á að miklar athugasemdir eru gerðar við það af atvinnulífinu. Það er ekki sjálfgefið að sams konar samkeppnisreglur gildi hér á landi á okkar litla markaði og meðal þeirra stóru þjóða sem tengjast Evrópubandalaginu eða væntanlegu Evrópsku efnahagssvæði. Þetta kemur mjög skýrt fram í athugasemdum frá aðilum vinnumarkaðarins sem leggja mikla áherlsu á að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum verði tryggð. Það vantar að fá yfirlit frá hæstv. ríkisstjórn um það með hvaða hætti eigi að tryggja betri samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum á hinu væntanlega Evrópska efnahagssvæði.
    Það verður því miður að segjast eins og er að þær leikreglur sem gilda innan lands eru oft og tíðum mjög ótraustar. Það hefur t.d. komið fram að undanförnu að ríkisstjórnin ætlar sér að breyta nokkrum leikreglum í sambandi við atvinnulífið en svo virðist vera að hún hafi ekki enn komið sér saman um hvernig breytingarnar skuli vera. Það hefur ekkert heillegt yfirlit komið frá ríkisstjórninni um það hvernig á að tryggja betur samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
    Sem dæmi má taka að fyrir nokkru síðan var ákveðið af hæstv. ríkisstjórn að breyta virðisaukaskattskerfinu. Fyrst var ætlunin að afnema þar ákveðnar undanþágur. Síðan var horfið frá því og ákveðið að hætta endurgreiðslu virðisaukaskatts til tiltekinna fyrirtækja. Ég er þeirrar skoðunar að okkar virðisaukaskattskerfi sé nokkuð gott. Í því eru fáar tiltölulega stórar undanþágur sem eru vissulega umdeilanlegar og verða það ávallt en það á ekki að hringla í þessu kerfi og skapa óvissu á markaði. Í þessu tilviki er fyrirtækjum í prentiðnaði og bókaútgáfu sagt að þau geti ekki átt von á því að búa við sambærilegar reglur og erlend samkeppnisfyrirtæki. Með þessari ákvörðun var ríkisstjórnin að næturlagi að kippa grundvellinum undan þeim atvinnurekstri en virðist að vísu að vera að átta sig á því núna nokkrum vikum síðar.
    Það hlaut hver maður að vita, sem eitthvað hefur komið nálægt skattamálum, að slík ákvörðun mundi að verulegu leyti raska samkeppnishæfni þessa iðnaðar. Það ætti hver einasti hæstv. ráðherra að vita og það ætti hver einasti hv. þm. jafnframt að vita. Samt er þessi ákvörðun tekin og ég trúi því ekki að það hafi verið haft samráð um hana við þá embættismenn sem best þekkja til í skattamálum.
    Jafnframt er ákveðið að breyta tekjuskattskerfinu og lækka tekjuskatt fyrirtækja til samræmis við tekjuskatt í öðrum löndum og er það vel en lítið eða ekkert hefur heyrst um það hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar aflétta kostnaðartengdum sköttum sem ekki þekkjast í okkar samkeppnislöndum. Það má líka nefna það að ekki er vitað hvernig farið verður með ákveðna skatta, sem tengjast sjávarútvegi. Þótt ég taki þannig undir það, hæstv. forseti, að fjalla þurfi um samkeppnislög liggur miklu meira á því að vinna á Alþingi að því að samræma allar samkeppnisreglur við það sem gengur og gerist erlendis. Um það hefur hæstv. ríkisstjórn litla forustu og ekkert yfirlit liggur fyrir um það. Ég tel því að þetta mál megi í sjálfu sér bíða eitthvað því að það tengist ekki svo mjög því máli sem við erum hér að fjalla um og á að vera aðalmálið til umfjöllunar nú á haustþingi.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara í mikla efnisumfjöllun um málið. Það er flókið og það er vandmeðfarið og það er ekkert einhlítt hvernig það á að leysa. Frv. einkennist að mínu mati af mjög umfangsmiklu stjórnsýslukerfi, sem á að fara með þessi mál, og mjög miklum völdum til þeirra aðila sem verður trúað fyrir því að fara með samkeppnismál á íslenska markaðnum. Hugtök eru mörg hver mjög óljós og lítt vitað um það hvernig þessir aðilar kunna að fara með vald sitt og ég hef miklar efasemdir um það hvort rétt sé að fela þeim þau miklu völd sem koma fram í frv.
    Varðandi stjórnsýsluþáttinn er rétt að nefna það að samkvæmt 5.--9. gr. á viðskrh. að skipa svokallað samkeppnisráð. Ráðherra skipar þrjá fulltrúa, formann ráðsins án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands. Síðan á Hæstiréttur að skipa tvo menn í ráðið en viðskrh. getur fellt niður skipun formanns og varamanns hans og skipað nýja menn í þeirra stað til loka skipunartíma samkeppnisráðs er þá situr, þ.e. við ríkisstjórnarskipti. Þetta ber mjög mikinn keim af því sem í daglegu tali er kallað pólitísk yfirstjórn.
    Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að viðskrh. á að vera ábyrgðaraðili fyrir samkeppnisreglum í þjóðfélaginu. En ég hef enga fullvissu fyrir því að það sé nauðsynlegt ef skipt er um viðskrh. að þá þurfi að skipta um menn í þessum störfum. Ég vænti þess að hæstv. núv. viðskrh. ætli sér fyrst og fremst að skipa menn með fagþekkingu á þessum sviðum en ekki einhvern sérstakan pólitískan stuðningsmann sinn eða aðila sem hann treystir best pólitískt fyrir þessum málum. Ég tel að þessi mál eigi ekki að hafa þennan svip. Ég vil vitna, hæstv. forseti, í umsögn aðila vinnumarkaðarins, þ.e. Vinnuveitendasambands Íslands, Landssamands iðnaðarmanna og Félags ísl. iðnrekenda en þeir segja í umsögn sinni, með leyfi forseta:
    ,,Öll stjórnsýsla samkeppnismála verður að vera hafin yfir pólitíska hagsmunagæslu og dægurþras. Því miður er það svo að mörg ákvæði frv. eru til þess fallin að koma í veg fyrir að samkeppnisyfirvöld muni njóta þessa trausts. Í mörgum atriðum er hlutverk ráðherra of víðtækt. Hann á að skera úr um merkingu hugtaka``, og vil ég þar vitna t.d. til 4. gr. frv. þar sem ráðherra á að skera úr um ágreining út af hugtökum. ,,Hann getur skipt um formennsku í samkeppnisráði við ríkisstjórnarskipti. Hann skipar nefndir, hann ræður forstjóra o.s.frv. Þessi miklu afskipti hins pólitíska valds eru óæskileg og aðeins til þess fallin að bjóða heim þeirri hættu að samkeppnisyfirvöld njóti ekki nauðsynlegs trausts í þjóðfélaginu.``
    Ég held að það sé alveg rétt hjá þessum umsagnaraðilum að það er að sjálfsögðu aðalatriðið að viðkomandi yfirvald njóti trausts. Ég vil ekki halda því fram að það hljóti að rýra traust þeirra þó að viðskrh. skipi viðkomandi aðila. Ég get ekki beinlínis tekið undir það. Ég tel hins vegar að andi þessarar greinar sé með þeim hætti að hann bendi til þess að viðkomandi formaður og varamaður hans eigi að einhverju leyti að lúta vilja viðskrh. á hverjum tíma. Ég hélt satt best að segja að það væri ætlun núv. ríkisstjórnar að reyna að losa um slík bönd og láta markaðinn meira um þessi atriði en umrædd ákvæði vekja vissulega efasemdir um þann vilja.
    Ég get heldur ekki fallist á að það sé nauðsynlegt að samkeppnisráð hafi sér til ráðgjafar ákveðna fastanefnd skipaða þremur mönnum sem eigi sérstaklega að fjalla um auglýsingar en þessi nefnd á að nefnast auglýsinganefnd. Það hlýtur að vera verkefni viðkomandi stofnunar, sem er undir stjórn samkeppnisráðs, að fjalla um þau samkeppnismál eins og öll önnur samkeppnismál. Ég sé engin rök fyrir því að setja sérstakt batterí í það verkefni. Auk þess á ráðherra að fá heimild til að skipa fastanefndir á ýmsum sviðum til að fjalla um afmörkuð og aðskilin mál. Það er nú svo að best er að viðkomandi stofnun sé þannig í stakk búin að starfsmenn hennar séu vel fallnir til að sinna öllum þessum málum undir yfirumsjón samkeppnisráðs og ég tel ekkert sérstakt mæla með því að settar séu sérstakar nefndir í það eins og gert er ráð fyrir í frv.
    Ég vil svo að lokum koma inn á eftirlit með samkeppnishömlum sem er e.t.v. mikilvægasta atriði frv., þ.e. 17. og 18. gr. Þar er gerð grein fyrir víðtækum völdum sem samkeppnisráð fær. Má t.d. nefna að samkeppnisráð verður oft að byggja úrskurð sinn á allóljósum hugtökum eins og markaðsráðandi staða eða skaðleg áhrif án þess að frekari skilgreining sé á þessum hugtökum, a.m.k. ekki fullnægjandi skilgreining. Það er nauðsynlegt að menn geri sér bærilega grein fyrir því hvað er markaðsráðandi staða. Það getur verið nauðsynlegt að grípa inn í í samkeppnsimálum, og ég get tekið undir það, ef fyrirtæki hefur markaðsráðandi stöðu. Það getur hins vegar verið mjög erfitt að úrskurða um það og það getur líka verið erfitt að úrskurða hvenær skaðleg áhrif eiga sér stað þótt það sé nokkuð skilgreint í frv.
    Þetta eru atriði sem þarfnast mjög vandlegrar skoðunar og yfirferðar í nefnd. Mér þykir nauðsynlegt að kalla til þá aðila sem hafa gefið umsagnir um þetta mál. Ég tel að það sé alveg ljóst að umfjöllun um þetta mál mun taka alllangan tíma í efh.- og viðskn. Með því er ég ekki að draga úr mikilvægi málsins, alls ekki, aðeins að benda á að það hafa komið fram mjög víðtækar athugasemdir sem þarfnast nánari skoðunar.
    Ég vil að lokum, hæstv. forseti, ítreka það að ég tel það aðalatriði við þær aðstæður sem nú eru í okkar þjóðfélagi að bæta samkeppnisstöðu atvinnurekstrarins, bæta samkeppnisstöðu fyrirtækjanna, bæta möguleikana til verðmætasköpunar í þjóðfélaginu. Hvaðeina sem við gerum þarf að stuðla að því markmiði, hvort sem það er á sviði ríkisfjármála, skattamála eða annarra mála. Það er óviðunandi fyrir atvinnulífið að búa alltaf við óvissar leikreglur. Það er óviðunandi að ráðherrar í ríkisstjórn komi saman á næturfundi og taki ákvarðanir sem eru svo gersamlega út í hött, eins og í þessu bókaútgáfumáli, að enginn getur skilið það. Eina skýringin hlýtur að vera svefnleysi og þreyta. Það er náttúrlega ekki hægt að bjóða íslensku atvinnulífi upp á svona vinnubrögð, hæstv. iðnrh. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að nefna það heilbrigðisvandamál en það þarf að vanda alla ákvarðanatöku varðandi rekstrarumhverfi fyrirtækja. Frv. stefnir ekki sérstaklega í þá átt og er ekki til þess fallið að bæta aðstöðu íslenskra fyrirtækja. Hins vegar er gerð heiðarleg tilraun með þessu frv. til að bæta réttarstöðu neytendanna í samfélaginu og þeirra sem þurfa að eiga viðskipti við viðkomandi fyrirtæki. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt mál. En við megum ekki gleyma því að íslenskur atvinnurekstur býr við mjög þröngan kost um þessar mundir og nánast flest atvinnufyrirtæki eru rekin með tapi. Atvinnureksturinn þarf á því að halda að fá einhverja tryggingu fyrir rekstrarumhverfi til lengri framtíðar. Ég held að fleiri og fleiri þjóðir séu að gera sér betur grein fyrir nauðsyn þess og aðilar vinnumarkaðarins víða um lönd eru jafnframt að gera sér grein fyrir þessu. Það er að myndast breiðari samstaða meðal stjórnmálaflokka víða um lönd um að reyna að tryggja þessa framtíð betur, t.d. að við tilkomu nýrrar ríkisstjórnar sé ekki farið að grauta í öllu skattkerfinu upp á nýtt. Svíar hafa t.d. áttað sig á þessu og hafa nú nýlega komist að víðtæku samkomulagi um leiðréttingar á skattkerfinu. Þjóðverjar hafa tekið á þessu m.a. með samvinnu milli stjórnar og stjórnarandstöðu og samvinnu þingsins, og þeirra sem þar bera ábyrgð, og aðila vinnumarkaðarins. Slík víðtæk samvinna um starfsumhverfi atvinnurekstrarins er nauðsynleg um þessar mundir. Og það er ekki síður nauðsynlegt hér á Íslandi en annars staðar í Evrópu. En hæstv. núv. ríkisstjórn virðist ekki hafa mikinn skilning á þessu. Hún telur greinilega best að gera þetta á næturfundum, ráðherrar eru þá illa fyrir kallaðir og svefnlausir, án þess að tala um það við nokkurn einasta mann, ég tala nú ekki um að það sé talið til siðs að ræða það við nokkuð sem kallast stjórnarandstaða, m.a. í þeim tilgangi að tryggja betur til frambúðar starfsumhverfi atvinnurekstrar hér á landi. Nei, það dettur þeim ekki í hug að gera. Auðvitað er það nauðsynlegt og menn eiga að gefa sér tíma í það. Ég tel það vera hvað mikilvægast fyrir íslenskt samfélag í dag að tryggja samkeppnishæfni okkar fyrirtækja til að þau geti tekið þátt í alþjóðlegri samkeppni og staðist hana. Það er ekkert dægurmál. Það er langtímamál, og ég vildi, virðulegur forseti, sjá einhverja tilburði í þá átt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég mun vinna að þessu máli í þeirri nefnd sem ég á sæti í. Ég hef ýmsar efnislegar athugasemdir við það og mun koma þeim þar á framfæri og vil ekki eyða tíma deildarinar í það mál. Það yrði allt of langt mál. (Gripið fram í.) Ég er búinn að sitja hér svo lengi að ég er farinn að gleyma því stundum að þingið er nú orðin ein deild. Ég vona að það fyrirgefist. Ég vil ekki eyða tíma þingsins í að fara yfir einstök efnisatriði. Ég held að betra sé að gera það í nefnd. Ég vænti þess að þetta sé mál sem nokkuð góð samstaða getur náðst um en það er alveg ljóst að á frv. þurfa að verða nokkrar breytingar. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra sé tilbúinn til samstarfs í þeim efnum.