Samkeppnislög

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 15:08:54 (1095)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að segja nokkur orð um þetta frv. til samkeppnislaga. Fulltrúi Kvennalistans í efh.- og viðskn. er Kristín Ástgeirsdóttir og hefði hún gjarnan viljað segja nokkur orð um frv. en hún er því miður í opinberum erindagerðum á vegum Alþingis og gat því ekki tekið þátt í þessum fundi. Það má segja að löngu tímabært sé orðið að endurskoða lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Að því leyti ber að fagna því að við skulum ræða frv. til samkeppnislaga hér á þessu þingi. Það er samt ekki þar með sagt að ég geti verið ánægð með öll ákvæði frv. og ég hef þar nokkrar athugasemdir. En ég ætla ekki að fara með tæmandi hætti ofan í þetta mál enda verður það unnið í efh.- og viðskn. áður en það kemur aftur til kasta þingsins.
    Almennt má segja að aukin samkeppni geti verið af hinu góða þó að auðvitað megi ekki hafa oftrú á því að með aukinni samkeppni muni allt snúast til hins betra. Þó að menn telji að hægt sé að ná niður verði með aukinni samkeppni verðum við að gera okkur grein fyrir því að markaðurinn á Íslandi er mjög lítill. Hann mjög lítill jafnvel þótt við miðum við höfuðborgarsvæðið hvað þá heldur ef við förum út á land. Undanfarin ár hefur komið í ljós þegar samkeppni hefur aukist á Reykjavíkursvæðinu, t.d. í verslun, að verðlag úti á landi hefur fremur hækkað en lækkað. Það hefur ekki verið utanbæjarfólki til nokkurra bóta, fremur hið gagnstæða þar sem mörg fyrirtæki hafa hreinlega lagt upp laupana.
    Við getum heldur ekki gert ráð fyrir því að öll þau fyrirtæki, sem starfa nú á markaðnum, geti náð kostnaði niður frekar en orðið er nema þá ef menn trúa því að fyrirtæki hafi almennt allt of háa álagningu og muni þar af leiðandi geta lækkað hana til þess að lækka verð. Það eru því mörg atriði sem ber að athuga þegar fullyrt er um ágæti þess að auka samkeppnina. En almennt er mjög af hinu góða að setja skýrar reglur í þessu sambandi.
    Ef litið er á þetta frv. sem er til umræðu þá hlýtur að vera nauðsynlegt að endurskoða lög um samkeppnishömlur, verðlag og óréttmæta viðskiptahætti óháð því hvort við gerumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Hv. 1. þm. Austurl. sagði áðan að þetta frv. væri að engu leyti tengt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, en 12. kafli laganna er þó ótvírætt tengdur þeim samningi. Það er því ekki að öllu leyti rétt en kannski má segja að fyrir utan 12. kaflann sé þetta algerlega óháð þeim samningi.
    Ég nefni nokkur atriði sem ég tel athugunarverð í þessu frv. Fyrst og fremst má nefna að ég tel að samkeppnisráð og samkeppnisstofnun fái gífurlega mikil völd án þess að lögin segi á nokkurn hátt um eftir hvaða leikreglum skuli fara. Ég get tekið sem dæmi í 18. gr. frv. sem segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Telji samkeppnisráð að samruni fyrirtækja eða yfirtaka fyrirtækis á öðru fyrirtæki dragi verulega úr samkeppni og sé andstæð markmiði laga þessara getur ráðið lagt bann við fyrirhuguðum samruna eða yfirtöku fyrirtækja og mælt fyrir um ógildingu á samruna eða yfirtöku sem þegar hefur átt sér stað.``
    Ég tel að gífurlega mikið vald sé falið þessu samkeppnisráði og samkeppnisstofnun í umboði þess. Ekkert er talað um stærð fyrirtækja eða hversu sterk staða þeirra er á markaði heldur er þetta mjög opið. Ég held að þurfi að lagfæra þetta. Ég tel eðlilegt að reynt sé að koma í veg fyrir samruna fyrirtækja þannig að þau yfirtaki allan markaðinn en varla getur verið eðlilegt að gefa samkeppnisráði svona mikil völd.
    Eins og kemur fram í 42. gr. getur samkeppnisstofnun krafið fyrirtæki og fyrirtækjahópa um allar upplýsingar, sem þykja nauðsynlegar, til að athuga fyrirtækin og einstaka mál. Jafnframt þessu er tekið fram í 11. kafla frv. að eftirlitsstofnun EFTA, fulltrúum hennar og fulltrúum framkvæmdastjórnar EB, sé heimilt að vera viðstaddir og taka þátt í vettvangsrannsóknum sem samkeppnisstofnun framkvæmir. Þá er væntanlega miðað við að það sé þegar um er að ræða fyrirtæki sem eru í samkeppni við fyrirtæki frá öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins. Því fær samkeppnisstofnunin ekki eingöngu heimildir, sem ég tel mjög opnar, heldur einnig eftirlitsstofnun EFTA og fulltrúar framkvæmdastjórnar EB. Ég reyndi að glugga í bókun 4, sem þarna er vitnað enn til, og ég gat a.m.k. ekki séð á auðveldan hátt að þar væru svo greinilegar og skýrar reglur að eðlilegt væri að veita þessum stofnunum frekar en samkeppnisstofnun svo mikil völd sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég tel þess vegna að það þurfi að fara sérstaklega ofan í þessi mál í nefndinni þar sem það verður að vera nokkuð ljóst eftir hvaða leikreglum slíkar stofnanir eiga að fara þegar þær fá svo mikil völd í hendur.
    Ég tel einnig mjög óeðlilegt að lögfesta ákvæði með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 48. gr. en þar sem segir að ákvæði 1.--3. gr. bókunar 25 við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði varðandi verslun með kol og stál skuli hafa lagagildi hér á landi. Mér þykir svona lagasetning óheppileg, sérstaklega með tilliti til þess að ekki er farið neitt ofan í það hvað felst í þessu en bókun 25 er kannski ekki neitt sérstaklega margar greinar. Það eru einar 7 greinar og ekki mjög langar. Ég vek hins vegar athygli á að í tengslum við þetta atriði segir í frv. til laga um Evrópskt efnahagssvæði, 2. gr., að meginmál EES-samningsins skuli hafa lagagildi hér á landi og síðan kemur: ,,Sama gildir um ákvæði bókunar 1 við samninginn, ákvæði 9. tölul. VIII. viðauka og g-liðar 1. tölul. XII. viðauka við samninginn. Þetta getur svo sem verið allt í lagi en síðan les ég 2. gr. meginmáls samningsins og þá kemur fram: ,,Í samningi þessum merkir hugtakið ,,samningur`` meginmál samningsins, bókanir við hann og viðauka auk þeirra gerða sem þar er vísað til``. Ég sé því ekki betur en að með því að lögfesta samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, þá lögfestist allar bókanir og viðaukar við hann. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna þetta ákvæði er nauðsynlegt í 42. gr. Ég hefði gjarnan viljað fá svar við því hér því að þetta skiptir auðvitað máli og hafa svipuð ákvæði gjarnan komið fram í fleiri lagafrumvörpum og vil ég spyrja hæstv. viðskrh. um þetta atriði.
    Ég tel mjög mikilvægt að setja reglur um auglýsingar og þá sérstaklega með tilliti til barna en í 22. gr. er miðað við að ekki megi misbjóða börnum á nokkurn hátt í auglýsingum og einnig að eigi sýna sérstaka varkárni gegn trúgirni barna og unglinga. Mér þykja þetta mjög góð ákvæði en ég hefði gjarnan viljað sjá þetta miklu ítarlegar og betur útfært og ég hefði óskað eftir því að hv. efh.- og viðskn. eða fulltrúar þar athuguðu sérstaklega þær ábendingar sem hafa komið fram frá Svíþjóð þess efnis að ákvæði samningsins um Evrópskt efnahagssvæði geri það að verkum að þeir þurfi að minnka kröfur að því er varðar auglýsingar sem höfða til barna. Mér er ekki sjálfri kunnugt um hvað þarna er á ferðinni, en ég hefði gjarnan viljað að nefndin athugaði þetta sérstaklega vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að við förum varlega í þeim efnum sem varða börn.
    Ég ætlaði reyndar ekki að taka fyrir mjög mörg atriði. Ég hnaut um 23. gr. Þar er tekið sérstaklega fram að sé leiðbeininga þörf með vöru verði að veita fullnægjandi leiðbeiningar og upplýsingar um ýmislegt sem er á ferðinni. Þingmönnum hlýtur að vera kunnugt um að t.d. í Danmörku hefur dönskum framleiðendum verið bannað að merkja efni eins og málningarvörur, sem eru með ákveðnum leysiefnum, og auglýsa þau þannig að þau geti verið hættuleg heilsunni. Ekki má skrifa á asbestplötur að þær séu krabbameinsvaldandi og set ég ákveðið spurningarmerki við hversu miklar heimildir við höfum þrátt fyrir þessa grein til að setja skikkanlegar merkingar á vörur. En ég tek fram að mér hefur oft fundist nokkuð skorta á hér á landi að það hafi verið gert með viðhlítandi hætti.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég láti þetta nægja að sinni um þetta annars mikilvæga frv. Mjög mikið verk er eftir í efh.- og viðskn. að fara yfir ákvæði frv. og gera þar breytingar og betrumbætur, en ég tel ákaflega hættulegt að gefa stofnunum svo mikið vald eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. til þess að skoða fyrirtæki, sérstaklega með tilliti til þess að þarna er um mjög opnar heimildir að ræða. Að lokum langar mig til að benda á ákvæði til bráðabirgða, sem er ákaflega umdeilt atriði, þar sem gert er ráð fyrir að 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eigi ekki við um þá starfsmenn sem munu missa störf sín þegar Verðlagsstofnun verður lögð niður, ef þeir eigi kost á sambærilegu starfi hjá samkeppnisstofnun og benda á að einmitt þetta atriði varð mikið deilumál á síðasta ári þegar við ræddum önnur frumvörp.