Samkeppnislög

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 15:23:34 (1096)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hafa talað í umræðunni. Ég tel að grunntónninn í ræðum þeirra hafi verið jákvæður í garð þessa frv. og margar málefnalegar ábendingar komið fram í máli þeirra. Það er alls ekki ofsagt að setning nýrra samkeppnislaga sem ætlað er að koma í stað núgildandi laga um verðlag, samkeppnishömlur og ólögmæta viðskiptahætti sé eitt af þeim mikilvægustu verkefnum sem liggja fyrir löggjafarsamkomunni um þessar mundir.
    Frv. sem við ræðum í dag kom reyndar fram á sl. vori í nokkuð annarri mynd og hefur verið til meðferðar í efh.- og viðskn. í sumar eins og kunnugt er og hefur tekið ýmsum breytingum frá þeirri gerð sem það var upphaflega lagt fram í. M.a. hefur verið bætt í það greiðslukortaákvæðum, ákvæðum um hinar sameiginlegu samkeppnisreglur Evrópska efnahagssvæðisins en það er að sjálfsögðu mál sem er alveg nauðsynlegt að taka á sem fyrst.
    Ég þakka hv. efh.- og viðskn., bæði undir fyrri formanni, hv. 1. þm. Vestf. Matthíasi Bjarnasyni og undir stjórn núv. formanns, hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálms Egilssonar, fyrir mjög gott samstarf í málinu og ég treysti á að það haldi áfram. Efh.- og viðskn. hefur átt viðræður við starfsmenn viðskrn. um efni frv. og gert við það ýmsar athugasemdir og ábendingar og hún hefur líka fengið umsagnir ýmissa hagsmunaaðila um þetta mikilvæga mál. Ég nefni sérstaklega ítarlegar umsagnir Verslunarráðs Íslands, Neytendasamtakanna, Lögfræðingafélags Íslands, Tannlæknafélags Íslands og einnig sameiginlegt álit eða umsögn frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Félagi ísl. iðnrekenda og Landssambandi iðnaðarmanna sem hv. 1. þm. Austurl. nefndi m.a. í sinni ræðu. Um þessar umsagnir hefur verið fjallað í viðskrn. að undanförnu og við munum fyrir okkar leyti láta hv. efh.- og viðskn. í té álit okkar á þeim og hugmyndir um breytingar á frv. í samræmi við þær ábendingar sem hafa komið fram í umsögnunum og reyndar að sjálfsögðu í þeim umræðum sem hafa farið fram í þinginu. Ég er alveg sannfærður um að frv. mun með þeim breytingum, sem verða gerðar á því, batna frá núverandi mynd sinni og að þetta sé einmitt mál af því tagi sem æskilegt er að þátttaka þingmanna sé sem mest. Ég er alveg sammála þeim hv. þm. sem hér hafa talað að um grundvallarleikreglur í samfélagi okkar er mikilvægt að sem víðtækust sátt og samstaða náist.
    Ég ítreka að við erum nú að semja löggjöf sem ég tel að muni þegar því starfi er lokið í góðu samstarfi ríkisstjórnar og þings verða með því besta sem gerist í heimshluta okkar. Ég ítreka að þetta frv. mun og á að byggja í aðalatriðum á misbeitingarreglunni, þ.e. að misbeiting markaðsráðandi aðstöðu sé það sem lögin reyna að koma í veg fyrir, ekki í sjálfu sér hin markaðsráðandi staða. Hins vegar verði bann við tilteknum athöfnum og samtökum, samráði, sem menn eru þeirrar skoðunar að séu ávallt skaðleg frjálsri samkeppni og þar með hagsmunum neytenda og atvinnulífs. Ég tel rétt að við höldum fast við þessa reglu, ekki síst vegna aðstæðna á Íslandi eins og hefur verið rætt í mörgum greinum. Ég bendi á að nágrannaþjóðir okkar hafa fært sig nær bannreglu, þ.e. bannað nánast allt samráð eða samtök fyrirtækja í verðlagsmálum og markaðsskiptingu. Þetta hafa Svíar t.d. gert eftir að þeir ákváðu að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Finnar hafa líka fært sig nokkuð nær bannreglu sem er upphaflega komin frá Bandaríkjunum. Norska frv. sem nú liggur fyrir Stórþinginu er ákaflega líkt því frv. sem við ræðum og í öllum meginatriðum. Þar er þó ekki kafli um framkvæmd samkeppnisreglna á Evrópsku efnahagssvæði heldur er gert ráð fyrir því að þau ákvæði verði í sérstökum lögum og er frv. um það málefni fyrir þingi samhliða frv. til almennra samkeppnislaga.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um einstök atriði í því sem fram hefur komið í þessum umræðum. Mig langar þó að víkja að nokkrum atriðum og kem þá fyrst að því sem kom fram í máli hv. 1. þm. Austurl. þar sem hann tók undir það, að mér virtist sem fram hefur komið frá samtökum atvinnurekenda, að þetta frv. einkenndist af viðamikilli og umfangsmiklu stjórnsýslukerfi og mjög víðtæku ráðherra- og ráðuneytisvaldi. Þetta er að sjálfsögðu sjónarmið sem mér finnst rétt að séu hugleidd þótt ég leyfi mér að benda á að þótt það vald sem ráðherra og ráðuneyti og stjórnvöldum sem heyra undir ráðherrann, sé fengið í þessu frv. sé býsna víðtækt, þá höfum við mjög mörg dæmi um slíkt stjórnarfyrirkomulag. Ég leyfi mér að benda á lögin um stjórn fiskveiða þar sem vald ráðherrans er að mínu áliti miklu víðtækara en hér um ræðir. Það segi ég nú líka til samanburðar að ég er hins vegar sammála hv. þm. um að það er mikilvægt að gott samkomulag takist um þessi mál og traust geti ríkt á þeim sem fara með framkvæmd þessara mála.
    Ég legg hins vegar meira upp úr því að framkvæmdaraðilinn, t.d. samkeppnisráðið og samkeppnisstofnun í þessu tilfelli, séu alveg með ótvíræðum hætti á ábyrgð framkvæmdarvaldsins. Það hefur að manni flogið, og ég geri ráð fyrir að það verði rætt í nefndinni, að samkeppnisráðið allt væri skipað af ráðherranum en áfrýjunarnefndin væri algerlega hæstaréttarskipuð. Það er galli á stjórnarfarinu nú, og ég get fallist á það, að í frv. eins og það er upphaflega sett fram hefur ráðherrann íhlutun um áfrýjunarnefndina. Reyndar teldi ég að það mætti vel athuga það að hún væri alveg hæstaréttarskipuð en þá væri líka hægt að fjalla um það hvaða hagsmunaaðilar eigi aðild að samkeppnisráði og samkeppnisstofnun. Það er ef til vill langeðlilegast og einfaldast að hún sé algerlega á ábyrgð ráðherrans, en áfrýjunarnefndin, sem fjallar hugsanlega um mál sem kynnu að rísa vegna þess að stjórnvaldið sé talið hafa farið offari, verði alveg óháð ráðherranum.
    Þetta vil ég hugleiða, einmitt til að koma til móts við þá hugsun sem mér fannst koma fram hjá hv. 1. þm. Austurl. en ég dreg það í efa að hægt sé að setja upp stjórnvaldsstofnun sem eiginlega fyrir fram sé ópólitísk. Ég held að hún geti aldrei orðið það og ég er ekki sammála þeim mönnum sem halda því fram að pólitískar stjórnir séu samkvæmt eðli máls einhvern veginn vondar stjórnir. Ég er ekki sammála því sjónarmiði og tel að þeir sem hafa valist til stjórnmálastarfa séu yfirleitt og alltaf að reyna að gera það sem þeir telja réttast. Ég tel þá eðlilegra að eftirlitsstofnanirnar séu gerðar óháðar stjórnmálavaldinu.
    En af því að ég veit að ábendingar hv. 1. þm. Austurl. eru settar fram í góðu skyni vonast ég til þess að í nefndinni takist okkur að finna á þessu góða lausn. Ég tek það fram að ég er sannarlega reiðubúinn og mínir samstarfsmenn til þess að taka þátt í því að finna fyrirkomulag sem geti gert það sem skýrast að menn vilji ná trausti á þessari framkvæmd og efist ekki um að þar sé farið eftir réttum leikreglum. Ég vil gera allt sem ég get til þess að auka traust á stjórnvaldsákvörðunum í samkeppnismálum. Ég held að það verði kannski best gert með því að hafa áfrýjunaraðilann óháðan ráðherranum.
    Þetta tengist að sjálfsögðu því, sem mér finnst nauðsynlegt, að sem allra fyrst verði sett almenn stjórnsýslulög m.a. um það að hægt sé að skjóta ákvörðunum lægra setts stjórnvalds til úrskurðar æðra setts stjórnvalds sem fari yfir það hvort fylgt sé settum reglum. Þá er auðvitað æskilegt að áfrýjunaraðilinn, áfrýjunarstigið, sé óháð hinu stjórnvaldsstiginu. Þetta vildi ég láta koma fram og tel að á þessu megi vel finna lausnir.
    Það vakti athygli mína að hv. 1. þm. Austurl. var ekki hlynntur því að samkeppnisráðið hefði sér til halds og trausts fastanefnd um auglýsingamálefni. Það gladdi mig að bæði hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 15. þm. Reykv. fögnuðu því að í frv. skuli vera auglýsingaákvæði þótt vafalaust megi hafa á því ýmsa skoðun hvort þau gætu verið skarpari og betur orðuð. Ég tel þetta þó árangur af margítrekuðum tilraunum til þess að festa í lög, eins og hv. 4. þm. Norðurl. réttilega nefndi, almennar reglur um siðfræði auglýsingastarfsins, sérstaklega hvað varðar áhrif þeirra á börn. Ég vil þess vegna vona að það takist loksins að setja þessi ákvæði í lög.
    Þarna eru líka málverndarákvæði, ekki bara barnaverndarákvæði, og ég vona sannarlega að þingið styðji þær tillögur sem þarna eru fram komnar.
    Fastanefndin er hins vegar í raun og veru í frv. í framhaldi af frv. um auglýsingamálefni sem flutt hefur verið á allmörgum þingum, ég hygg fjórum, oft stjfrv. og í allmörg skipti flutt í nafni ríkisstjórnar sem hv. 1. þm. Austurl. átti aðild að. Þar var nákvæmlega þetta stjórnarfar sem hér er verið að tala um og ég vil alls ekki á það fallast að hér sé um eitthvert bákn að ræða. Sennilega kæmi nefnd eins og þessi afar sjaldan saman. Auðvitað mundi samkeppnisstofnun fyrst og fremst styðjast við sitt starfslið og samkeppnisráðið við það sama starfslið en þegar um meiri háttar auglýsingamál væri að ræða teldi ég mjög gagnlegt fyrir samkeppnisstofnun og samkeppnisráð að hafa sér til halds og trausts einmitt slíka sérhæfða nefnd. Ég tel þess vegna, ekki síst með tilliti til þess að ekki er gert ráð fyrir nema fimm manna samkeppnisráði í samanburði við níu manna verðlagsráð, fjarri öllu lagi að halda því fram að þetta frv. einkennist af

einhverju stjórnsýslubákni. Ég er heldur ekki sammála þeim sem telja að í frv. komi fram óhæfilega mikið regluvald eða tilskipunarvald fyrir ráðherra, en er hins vegar fús til þess að líta á og taka þátt í að ræða allar tillögur sem að því lytu að draga úr því og setja upp leikreglur sem gætu verið sjálfum sér nógar í sem flestum greinum.
    Ég vil með þessum orðum um fastanefnd um auglýsingar og stjórnsýsluna hverfa að öðrum ábendingum sem fram hafa komið í þessum umræðum. Ég er að sjálfsögðu alveg sammála hv. 1. þm. Austurl. um að það sé ákaflega mikilvægt að tryggja samkeppnisstöðu atvinnuveganna. Ég er honum hins vegar ekki sammála um að það sé miður um vert að festa samkeppnisreglur í lög. Ég tel þær ákaflega mikilvægar fyrir starfsemi atvinnulífsins og ég tala nú ekki um þá vernd fyrir hagsmuni neytenda, sem þessi löggjöf felur í sér, og ég tel að eigi að standa alveg jafnt og hagsmunir atvinnulífsins.
    Það er þessi tvíþætti tilgangur frv., að setja upp leikreglur fyrir starfsemi atvinnulífsins og reglur til að vernda hagsmuni viðskiptaaðila og neytenda, sem ég vonast til að þingið sameinist um að setja. Það dregur alls ekki úr mikilvægi þess að við setjum okkar atvinnuvegum þau starfskjör sem við best getum í samkeppni við önnur lönd en menn skyldu ekki vanmeta það hversu mikilvægt er að samræma okkar samkeppnisreglur því sem gerist í löndunum í kringum okkur, ekki síst með tilliti til vaxandi samstarfs við og viðskipta við þau.
    Ég kem þá, virðulegi forseti, að ábendingum hv. 4. þm. Norðurl. e. Ég hef þegar nefnt að ég fagna undirtektum hans við auglýsingakaflann í frv. Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að benda á að ég tel að hv. þm. hljóti að hafa litið fram hjá, eða hann hefur ekki tekið eftir því, þegar hann taldi að í 44. gr. væri eftirlitsstofnun EFTA og dómstóli EFTA gert hærra undir höfði en íslenskum stjórnvöldum. Í 42. gr. er auðvitað hin frumlæga heimild samkeppnisstofnunar til þess að krefja einstök fyrirtæki á Íslandi um upplýsingar. En til þess að ítreka það að þær samþjóðlegu framkvæmdastofnanir, sem við erum að gerast aðilar að, hafi líka upplýsingarétt, er það ítrekað að samkeppnisstofnunin geti leitað sömu upplýsinga. Þetta er í raun og veru ítarákvæði á því sem fram er komið í 42. gr. Röðin er þarna alveg rétt, virðulegur þingmaður. Þetta hlýtur þingmanninum að hafa yfirsést því ekki ætla ég honum annað en vilja hafa það sem sannara reynist í þessu máli frekar en öðrum.
    Þá kem ég að því sem var kannski einna mikilvægast í ræðu hv. þm., þ.e. ákvæðin um samkeppnisaðstæður og um markaðsráðandi fyrirtæki, um skilgreiningu hugtaka og fleira af því tagi. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur lagt fram brtt. í sex liðum við frv. til samkeppnislaga. Ég tel að sjálfsögðu rétt, þótt það sé nokkuð óvenjuleg aðferð miðað við venjulegan gang þingmála, að um þessar brtt. verði þegar fjallað í efh.- og viðskn. Ég er honum sammála um það að leita beri allra leiða til að koma í veg fyrir misbeitingu á markaðsráðandi stöðu fyrirtækja. Ég er honum hins vegar ekki sammála um að það sé fyrir fram víst að það að setja hlutfallstölur í lög um hvað teljist markaðsráðandi fyrirtæki þjóni þessum tilgangi betur en opin ákvæði eins og eru í frv. Það er að áliti flestra sérfróðra manna ekki skynsamlegt að setja almenna tölusetta reglu um hvað séu markaðsyfirráð, enda er skilgreiningin á markaði breytileg eftir aðstæðum og gæti ég rakið um það mörg dæmi. M.a. það dæmi sem hv. þm. tók af flugsamgöngum og skipasamgöngum sem er til marks um að það getur verið mikið álitamál hvaða fyrirtæki eru í samkeppni hvert við annað, hvað séu samkeppnishömlur o.s.frv.
    Ég tel skynsamlegra að setja þetta í hendur samkeppnisráði og samkeppnisstofnun. Þar munu myndast fastar verklagsreglur. Þær hafa myndast í nágrannaríkjum okkar við framkvæmd á sams konar löggjöf og hér er til umræðu. Við munum, m.a. með samstarfi okkar innan hins Evrópska efnahagssvæðis, öðlast á þessu betri skilning og þekkingu m.a. með þátttöku okkar þar og íslenskum starfsmönnum á þeim vettvangi. Ég tel að hugmyndin að baki frv. sé fyrst og fremst sú að verklagsreglurnar myndist hér og mótist í úrskurðum samkeppnisráðs. Markaðsyfirráðin, og ég ítreka það eins og kom fram hjá mér áðan, eru ekki ólögmæt út af fyrir sig en það er hins vegar hvers konar misbeiting á þeim. Þá geta samkeppnisyfirvöldin, eins og ég hef þegar nefnt og rækilega kemur fram í frv., hindrað sameiningu fyrirtækja sem augljóslega felur í sér hættu á misbeitingu. Við þurfum þess vegna að fara mjög vandlega yfir orðalag frv. og ég get verið hv. þm. sammála um að það megi huga að því orðalagi.
    Það er líka rétt athugað hjá hv. þm., eins og kom fram í ræðu hans og athugasemdum sem fylgja tillögum hans um breytingar, að markaðsyfirráð fyrirtækis eigi að kalla á sérstakt eftirlit samkeppnisyfirvalda með starfseminni og íhlutun ef þörf þykir að mati samkeppnisráðs. Undir þetta get ég allt tekið. Hins vegar tel ég að hlutfallstölur sem væru festar í lög gætu jafnvel torveldað framkvæmd meginstefnu laganna vegna þess að menn mundu þá með augnayndisgerðum og samkomulagi koma svo fyrir að öllum tölusettum takmörkunum væri fullnægt en færu svo sínu fram eigi að síður og gætu sagt: Hér er þetta svart á hvítu. Við liggjum undir þessu hlutfalli. Hér er ekki um neinar óeðlilegar hömlur á samkeppninni að ræða.
    Þetta vildi ég hafa nefnt, virðulegi þingmaður, en ég fagna áhuga hv. 4. þm. Norðurl. e. á þessu máli og fyrir framlag hans til þess að þetta mál fái vandaða meðferð í þingnefndinni. Ég tek undir það með honum að það er einmitt okkar verkefni nú að betrumbæta þetta frv. og ég vonast til þess að við getum fundið þar góðan samstarfsvettvang. Ég fullvissa hv. 4. þm. Norðurl. e., eins og hv. 1. þm. Austurl., um að það er sannarlega góður vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar að taka við ábendingum stjórnarandstöðunnar og annarra þingmanna í efh.- og viðskn. og í þinginu yfirleitt. Þetta er mál sem þarf að vanda mjög vel til og ég veit að um þetta mun geta tekist góð samvinna eins og mér finnst að ræður manna hafi borið um glöggt

vitni.
    Ég get tekið undir með þeim sem hér hafa talað að auðvitað leysir ekki lagasetning, eins og sú sem við erum að fjalla um, allan vanda. Það er rétt að vara við oftrú á samkeppni og markaðslausnum. En á sama hátt megum við ekki hafa af okkur að nýta þá kosti sem aukin samkeppni og markaðslausnir geta boðið upp á. Það hefur því miður viljað við brenna og ég er þess vegna ákaflega ánægður með hversu góðar viðtökur þetta frv. hefur í stórum dráttum fengið.
    Ég tel enga ástæðu til að óttast að EES-samningurinn hamli gegn þeim tillögum sem eru gerðar um barnaverndarákvæði gagnvart auglýsingum, en að sjálfsögðu er rétt að efh.- og viðskn. kanni það sem vandlegast. Ég tek undir það, sem kom fram bæði hjá hv. 1. þm. Austurl. og hv. 4. þm. Norðurl. e., að það er langheppilegast að fjalla um hin tæknilegri atriði frv. í efh.- og viðskn.
    Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að setning nýrra samkeppnislaga er eitt af mikilvægustu málum þessa þings. Ég leyfi mér að lýsa yfir þeirri von að frv. verði að lögum á haustþinginu og út af fyrir sig tel ég að okkur sé ekkert að vanbúnaði að fylgja nýjum lögum af þessu tagi því að við erum ekki að gera tillögur um að byggja upp nýja stofnun og framkvæmdin verður byggð á kynningarstarfi sem þegar er hafið. Ég leyfi mér því að vonast til að efh.- og viðskn. ljúki umfjöllun sinni um þetta mál sem fyrst, en um leið er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að sú umfjöllun verði sem vandlegust.