Samkeppnislög

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 15:46:02 (1097)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Bara til að fyrirbyggja misskilning þannig að ekki sé neinn slíkur í gangi. Sú brtt. sem ég legg til varðandi skilgreiningu á markaðsráðandi aðstöðu fyrirtækis er fyrst og fremst viðmiðunarmörk. Ég er út af fyrir sig sammála hæstv. viðskrh. um að það er ákaflega vandséð að hægt sé að festa niður eina allsráðandi prósentu í þessum efnum. Hitt er að mínu mati skynsamlegt og nauðsynlegt til þess að framkvæmdin verði ekki of losaraleg í þessum efnum, að stuðst sé við einhver viðmiðunarmörk í þessum efnum sem verki þannig að gul ljós fari að blikka þegar markaðshlutdeild eins aðila eða fleiri tengdra aðila fer yfir tiltekin viðmiðunarmörk og þar með færist þeir undir aukið aðhald, eftirlit o.s.frv. Auðvitað getur vel verið að menn reyni svo einhver undanskot frá því og reyni að gefa sig ekki upp í réttri stærð o.s.frv., en það er vandamál sem við munum eiga við að glíma hvort sem er. Ég held að einhver viðmiðunarmörk af þessu tagi séu skynsamleg og vil fyrst og fremst að það sé alveg ljóst að það er það sem ég er að fara fram með en ekki endilega að einhvers staðar liggi hin eina rétta prósenta sem ráði úrslitum um það hvenær fyrirtæki er orðið markaðsráðandi og hvenær ekki.
    Ég saknaði þess svo, hæstv. forseti, að hæstv. viðskrh. skyldi ekki aðeins ræða nokkur önnur atriði sem hér bar á góma, svo sem stöðu hinnar miklu fyrirtækjasamstöðu Eimskips/Flugleiða og umsvifa þess fyrirtækis í samgöngumálum og ferðaþjónustu og tengd vandamál sem lúta að hinu litla íslenska efnahagskerfi og samþjöppun valds og fjármuna í því eins og við þekkjum hana.