Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 16:44:00 (1105)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef nú reynt að hlusta rækilega á þessa umræðu eins og flest það sem hér fer fram um Evrópskt efnahagssvæði, Evrópubandalagið, EFTA o.s.frv. og ég verð að segja um þessa síðustu ræðu að þar var um miklar missagnir að ræða, óvart held ég, en það var margsinnis sagt: Við spurðumst fyrir um það hvort við gætum gert þetta, hvort við gætum notað þetta hugtakið á þennan veg eða á hinn. Ég geng út frá því að þessir ,,við`` séum Íslendingar og svörin sem þeir, þ.e. okkar fulltrúar, þ.e. við Íslendingar, fengu voru tvíræð, stundum neikvæð, stundum ekki.

    Ég veit ekki betur en að íslenskum lögum getum við gert það sem okkur sýnist í löggjöf. Hver hefur samþykkt þetta Evrópska efnahagssvæði og hver ætlar að samþykkja það? Það er stanslaust, ekki bara af fylgismönnum þessara samtaka verið að segja: Þetta verður svona, hitt og þetta verður svona. Það verður ekkert svona nema við segjum að það verði svona og lögfestum það. Það er ekkert orðið enn þá. En áróðurinn er svo magnaður að besta fólk er stanslaust að tala um að þetta verði svona, þetta sé orðið, orðinn hlutur. Við erum að fara inn í Evrópskt efnahagssvæði og þess vegna eigum við að gera þetta og eigum við að gera hitt.
    Ég segi: Við þingmenn eigum ekki að gera neitt nema það sem samviska okkar býður. Við erum búnir að skrifa undir þann eiðstaf. Og við eigum heldur ekki að rangtúlka hlutina með þeim hætti að vera stöðugt að tala um það að Evrópskt efnahagssvæði sé orðið að veruleika. Það er ekki til. Við höfum ekki samþykkt eitt eða neitt í þá átt. Við verðum að læra þetta og kenna fólkinu þetta áður en allsherjaratkvæðagreiðsla verður um málið á Íslandi.