Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

25. fundur
Þriðjudaginn 06. október 1992, kl. 16:51:45 (1110)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég verð að segja að það varð mín niðurstaða eftir að hafa plægt í gegnum skjalabunkann um Evrópska efnahagssvæðið og reynt að tileinka mér inntak samningsins og anda að þá væri tungumálakunnáttu einungis hægt að beita fyrir sig sem hæfniskröfu. Þannig að ég er sammála hæstv. ráðherra í því.
    Ég vil velta því upp í framhaldi af því að þá sýnist mér að erlendir aðilar geti t.d. hafið hér starfsemi á grundvelli samningsins, t.d. barnaleikskóla, þar sem hæfniskrafan er fyrst og fremst menntun til starfsins en það er spurningin hvaða þröskuld á að setja á tungumálahæfnina í þeirri starfsemi. Ég sé það ekki alveg fyrir mér hvernig menn ættu að geta lokað fyrir þá starfsemi á grundvelli þess. En ég vakti athygli á þessu vegna þess að öðru sjónarmiði var haldið fram af hæstv. félmrh. í framsöguræðu um frv. um atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES en þá sagði ráðherra, með leyfi forseta: ,,Öll mismunun sem byggð er á þjóðerni er bönnuð nema starfið krefjist kunnáttu í innlendu tungumáli.`` Í erindi hæstv. félmrh. var því tungumálakunnátta skilgreind sem þjóðernisbundið skilyrði.
    Auðvitað skiptir þetta miklu máli því fari menn að reka mál eða gera ágreining út af ráðningu í starf þá skiptir það máli hvort menn eru að hefja málið á grundvelli þess að þeim hafi verið hafnað á kröfum um faglega kunnáttu eða á mismun á þjóðerni sem er allt annað mál og miklu meiri krafa og er vernduð í EES-samningnum.