Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:05:38 (1133)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hæstv. viðskrh. skuli taka því svo illa að ég hafi sagt að hann kunni að hafa þrýst á um setningu þessara laga. Það er óþarfi að vera hörundssár yfir slíku. Hæstv. viðskrh. er þekktur fyrir sinn dugnað og tekur m.a. að sér að flytja frv. fyrir aðra ráðherra. Þetta er eingöngu sagt með tilvísun til þess að hæstv. ráðherra leggur fram það sýnishorn sem hér fylgir og sömuleiðis tekur hann að sér að flytja frv. Við skulum láta það fullkomlega liggja á milli hluta.
    Ég hlýt að mótmæla því efnislega sem mér fannst ekki koma fram í svörum hæstv. ráðherra. Hvers vegna er þörf á að veita þessa heimild öllum ráðherrum í ríkisstjórninni? Ég leyfi mér að fullyrða að það er andstætt lögum um Stjórnarráð Íslands. Það er ákveðin verkefnaskipting í Stjórnarráðinu sem mér er kunnugt um að ýmsir ráðherrar hafa stundum viljað víkja frá en eiga náttúrlega alls ekki að gera það. Ég reyndi fyrir mitt leyti að standa gegn því þegar ég gegndi þar starfi forsrh. Ég tel og vil biðja hæstv. ráðherra að skoða það mjög vandlega hvort ekki væri hægt að fallast á að breyta þessu í utanrrh., eins og það var þegar við stóðum að frv. saman á 113. þingi. Sömuleiðis vil ég spyrja í fullri vinsemd hvort ekki væri rétt að telja upp í lagatextanum þau fríðindi sem hér er um að ræða og hafa frv. ekki svona opið. Það er enn þá óeðlilegra að hafa það svo opið þegar hver einasti ráðherra í ríkisstjórninni hefur heimild til að setja reglur um hver þau fríðindi sem hann kýs.