Síldarsölusamningar

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:29:54 (1144)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Enn berast fréttir frá síldarútvegsnefnd að illa horfi með samningsgerð um síldarsölu fyrir síldarafurðir sem á land gætu borist á þeirri síldarvertíð sem nú er nýhafin. Víða um land gegnir síldarverkun afar mikilvægu hlutverki í atvinnulífi margra byggða. Um þessar mundir bíða síldarverkendur og söltunarfólk á milli vonar og ótta um það hvort samningar um síldarsölu takast eða ekki svo söltun geti hafist í einhverjum mæli. Ég hef því leyft mér að taka þetta mál upp utan dagskrár á Alþingi enda miklir atvinnuhagsmunir í húfi og eins vegna þess að hér bera stjórnvöld mikla ábyrgð, meiri ábyrgð en gildir um almenna viðskiptasamninga í útflutningsstarfseminni. Ábyrgðin felst í því einkaleyfi sem síldarútvegsnefnd nýtur samkvæmt lögum varðandi útflutning á síldarafurðum og forgöngu um markaðsleit fyrir síld. Síldarútvegsnefnd starfar með beinum hætti á ábyrgð hæstv. sjútvrh. sem skipar stjórn stofnunarinnar.
    Sl. þrjú ár hefur síldarútflutningurinn átt í miklum erfiðleikum. Þar veldur mestu að stærsti síldarmarkaður heims í Sovétríkjunum hrundi í kjölfar þeirrar stjórnarfarslegu byltingar sem þar átti sér stað. Á sama tíma hafa síldveiðar annarra þjóða við Atlantshafið stöðugt aukist sem valdið hafa vaxandi framboði á öðrum mörkuðum. Í ljósi þessara aðstæðna hljóta síldarútvegsnefnd og stjórnvöld að hafa gripið til sérstakra aðgerða og ráðstafana í leit að nýjum mörkuðum, eflt markaðsrannsóknir og sóst eftir stærri hlut á mörkuðum utan Rússlands.
    Afkastageta síldarsöltunar á Íslandi er gríðarlega mikil og enn binda fjölmargir miklar vonir við að síldarsöltun megi verða áfram traustur hlekkur í atvinnulífi þjóðarinnar og þá ekki síst í ljósi þeirra þrenginga sem nú steðja víða að atvinnulífi með vaxandi atvinnuleysi og samdrætti í útflutningstekjum. Á sama tíma fer ástand síldarstofnsins batnandi í hafinu umhverfis Ísland og á þessari vertíð er heimil veiði 110 þús. lesta af síld.
    Virðulegi forseti. Enn eru í fersku minni umræður utan dagskrár hér á Alþingi 14. jan. sl. um beiðni síldarútvegsnefndar til Landsbanka Íslands um 15 millj. dollara lán til utanríkisviðskiptabanka Rússlands til þess að greiða fyrir greiðslusamningi vegna síldarsölu til Rússlands. Nú liggur fyrir samkvæmt fréttum frá síldarútvegsnefnd að Rússar hafi lokað fyrir nokkur kaup á síld á yfirstandandi vertíð þótt viðskiptasamningur þjóðanna kveði á um kaup á 140 þús. tunnum að verðmæti 14 millj. dollara en frá síðustu síldarvertíð voru aðeins flutt út 500 tonn af saltaðri síld.
    Þá berast einnig fregnir frá síldarútvegsnefnd að óvissa sé um sölu síldar á hefðbundna markaði á Norðurlöndum.
    Í ljósi þess alvarlega ástands sem blasir við varðandi síldarsöltun á yfirstandandi vertíð er mikilvægt og brýnt að sjútvrh. geri Alþingi nú grein fyrir því hvort gripið hafi verið til sérstakra ráða eða hvort í undirbúningi séu sérstakar aðgerðir og ráðstafanir af hálfu stjórnvalda og síldarútvegsnefndar sem gætu tryggt eðlilegt umfang síldarsöltunar á nýbyrjaðri vertíð. Stjórnvöld bera mikla ábyrgð eins og ég hef áður vikið að. Ég skil gjörla þá erfiðleika á mörkuðunum sem við er að etja, en erfiðleikarnir hafa nú staðið yfir í samfellt þrjú ár svo tími er kominn til að ætla að úr megi rætast, ella blasir ekkert annað við en að síldarsöltun dragist mikið saman með alvarlegum afleiðingum fyrir þjóðarbúið og byggðina í landinu á meðan síld veður um allan sjó.
    Það var nánast orðin hefð að síldarsamningar væru í uppnámi og óvissu í upphafi hverrar vertíðar. Á árum áður björguðust mál jafnan farsællega áður en yfir lauk en nú er vandinn og erfiðleikarnir af

öðrum toga. Rússland virðist hafa lokað á öll frekari kaup á síld að þessu sinni og markaðir á Norðurlöndum eru í óvissu samkvæmt fréttum síldarútvegsnefndar. Þetta eru hin nýju tíðindi. Því er mikilvægt að Alþingi fylgist vel með hvernig brugðist er við breyttum aðstæðum. Þess vegna óska ég eftir að hæstv. sjútvrh. geri grein fyrir stöðu þessara mála utan dagskrár á hinu háa Alþingi.