Síldarsölusamningar

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:40:09 (1146)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Varðandi þá erfiðu stöðu sem upp er komin í sölu saltsíldar á erlendum mörkuðum vil ég undirstrika eitt atriði sérstaklega. Það er hvort stjórnvöld hafi gert allt sem í þeirra valdi stendur, og þá hæstv. viðskrh. og utanríkisviðskiptaráðherra, til að vinna með síldarútvegsnefnd í þeirri erfiðu stöðu sem upp er komin, að fylgjast með og reyna að ná þeim mörkuðum sem mögulegir eru.
    Ég vil vara sérstaklega við því í þessu sambandi að leggja höfuðáherslu á það að brjóta niður það kerfi sem við höfum haft í sölu saltsíldar því það er staðreynd að þetta kerfi hefur fært okkur Íslendingum þann ávinning að engin þjóð flytur út meira af saltsíld en við og gildir það sama þó að Rússlandsmarkaðurinn bregðist. Það sem er þungamiðjan í þessu máli, í þessari mjög erfiðu stöðu sem upp er komin, er að allt sé gert sem í valdi stjórnvalda stendur til þess að hjálpa til í þessari starfsemi í staðinn fyrir að einbeita sér að því að brjóta niður sölukerfið. Þetta vil ég undirstrika í þessu sambandi og ég veit að

öllum hv. þm. hér inni er ljóst hve mikið er í húfi en hins vegar er við mikil vandamál að glíma í þessu sambandi.
    Ég vil hvetja hv. 5. þm. Austurl. til þess að brýna þetta fyrir hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh., enda hefur hann lofað því á Austurlandi að ala þá menn upp í góðum siðum.