Síldarsölusamningar

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:46:29 (1149)

     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Sá atburður hefur gerst hér á Alþingi að hv. 5. þm. Austurl. hefur flutt framsöguræðu utan dagskrár fyrir þingmáli sem hann hefur lagt fram í þinginu í dag. Það hygg ég að sé nánast einsdæmi.
    Til viðbótar við það hefur það líka skýrst að erfiðleikarnir virðast verða orðnir svo miklir innan Alþfl. að hv. þm. hefur ekki treyst sér til að spyrja hæstv. viðskrh., sem þessa stundina er líka utanríkisviðskiptaráðherra, um stöðu þessara mála en svo sem kunnugt er heyrir þessi embættisfærsla undir þennan mann, utanríkisviðskiptaráðherrann. Það hlýtur að vera orðið erfitt samband innan Alþfl. þegar jafneinföldum skilboðum er ekki hægt að koma á framfæri.
    Til viðbótar við þetta vildi ég hins vegar segja að það mál sem hér er til umræðu er of stórt og alvarlegt til þess að það sé meðhöndlað í þinginu með þessum hætti. Fólkið, sem á afkomu sína undir þessari framleiðslu og þessum viðskiptum, á allt annað skilið en að draga þetta mál fram í því ljósi sem hér ber raun vitni um. Ég hlýt að vara við málflutningi af þessum toga.
    Virðulegi forseti. Til viðbótar vil ég aðeins segja að auðvitað treysti ég því að ríkisstjórnin, og meira að segja ber ég þá líka það traust til viðskrh. og utanríkisviðskiptaráðherra að ég nefni nöfn þeirra hér í þessu samhengi eins og hluta af þessari ríkisstjórn, geri það sem í hennar valdi stendur til þess að upplýsa þetta mál og ná fram þeim árangri í því sem hvað frekast er kostur.