Síldarsölusamningar

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:55:01 (1152)


     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ekki veit ég til þess að nokkur hv. þm. hafi lagt það til í þessum sal, hvorki með till. til þál. né í ræðu að hann vilji brjóta niður síldarútvegsnefnd eða leggja hana niður. Það hefur eigi að síður verið skoðun mín að það eigi að auðvelda fleiri aðilum að koma að þessu máli með markaðsleit, markaðsrannsóknum og taka þátt í útflutningsstarfseminni. Þar veit ég að hæstv. sjútvrh og hv. þm. sem hér hafa talað taka hjartanlega undir og vilja að stuðla. ( Gripið fram í: Hver bannar það?)
    Sú umræða, sem hér hefur farið fram, hefur valdið mér með nokkrum hætti vonbrigðum vegna þess að það sem vakir í mínum huga er ekki hvort síldarútvegsnefnd verði brotin niður eða lögð niður heldur hvort atvinnulífið í dreifðum byggðum landsins verði frekar brotið niður en raun ber vitni. Þess vegna spurði ég hæstv. sjútvrh. um það hvort gripið hafi verið til einhverra aðgerða og ráðstafana til að tryggja enn betur en verið hefur hingað til sölu saltsíldar á erlendum mörkuðum. (Gripið fram í.) Ég veit vel að hæstv. sjútvrh. vill gera vel í þessu máli og leggja sig fram eins og hann frekast má og ég veit það líka að hv. þm. Egill Jónsson hefur sama hug þó hann hafi ekki sömu getu. Það er önnur hlið málsins. En hvort árangur næst, það er kjarni málsins. Ég veit um hug hæstv. sjútvrh. og vona að hann birtist í jákvæðari hugarfari gagnvart þessu máli þegar það verður næst til umræðu í þinginu.