Hlustunarskilyrði útvarps á Stöðvarfirði og í Breiðdal

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 10:31:29 (1157)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ríkisútvarpið hefur með bréfi svarað þeim fyrirspurnum sem hv. þm. hefur borið fram með þessum hætti:
    ,,Algengasta leið sjónvarps- og hljóðvarpsmerkja eru tvö til þrjú þrep. Annars vegar stofnleið um örbylgju sem dreifir merkjum til sendistöðva og hins vegar frá hinum ýmsu sendistöðvum til notenda, stundum fyrir milligöngu endurvarpa.
    Þeir sem aftast eru í keðjunni verða fyrir samanlögðum bilunum allra milliliða á undan. Þannig eru þessu háttað á Stöðvarfirði og nokkrum öðrum stöðum á Austfjörðum og sumpart einnig í Breiðdal. Bilanir hafa verið þó nokkrar á Austfjörðum í sumar. Má þar nefna erfiða bilun sjónvarpssendis á Gagnheiði sem þó tókst að gera við seinni hluta júlímánaðar. Þegar aflminni varasendir sendi út náði hann ekki nægjanlega sterku merki víða, m.a. á Stöðvarfirði og í Breiðdal og olli það erfiðleikum á móttöku sjónvarps. Þá sló eldingu niður í örbylgjustöðina á Hellisheiði og fleira mætti nefna af bilunum sem ættu nú að vera úr sögunni.
    Önnur orsök útfalla, bæði útvarps og sjónvarps, eru ákveðnir grundvallarveikleikar í uppbyggingu örbylgju- og dreifikerfis. Má e.t.v. kalla það hönnunargalla frekar en bilanir. Kemur þar til að örbylgju- og

dreifikerfi Ríkisútvarpsins er komið til ára sinna sem einnig hefur áhrif á áreiðanleika kerfisins. Þótt kerfið hafi svarað kröfum tímans þegar það var hannað og gangsett þá mun það tæpast gera það í dag. Samanlögð útföll sendinga vegna þessa þættu vart boðleg á Reykjavíkursvæðinu.``
    Varðandi síðari fyrirspurnina segir svo í bréfi Ríkisútvarpsins:
    ,,Nú standa yfir viðræður við rekstraraðila dreifikerfis Pósts og síma um endurbyggingu örbylgjukerfis Ríkisútvarpsins eða um mögulega leigu á flutningsleiðum í ljósleiðarakerfi Pósts og síma sem verið er að leggja um landið. Með nýju kerfi er ætlunin að færa senda, m.a. á Stöðvarfirði, þannig að endurvarp frá Gagnheiði hætti að vera aðalflutningsleið. Þá verða einnig úr sögunni árstíðabundnar sjónvarpstruflanir frá erlendum stöðvum sem gætir aðallega vor og haust. Það mun skýrast á næstu mánuðum hvor kosturinn verður valinn og þá um leið hvenær úrbóta er að vænta. Bygging nýs örbylgjukerfis eða leiga á ljósleiðara hringinn í kringum landið mun kosta Ríkisútvarpið mikið fé en er engu að síður nauðsynlegt til að tryggja öryggi og gæði þjónustunnar.``