Hlustunarskilyrði útvarps á Stöðvarfirði og í Breiðdal

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 10:35:44 (1159)


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við báðum liðum fsp. Þar er staðfest að tilefni var til að leita upplýsinga og jafnframt að til að ráða bót á þessu ástandi til frambúðar, sem er kannski ekki eins slæmt þessa stundina og þegar það var verst fyrir fáum mánuðum, þarf að ráðast í aðgerðir, eins og kom fram í svari ráðherrans, byggingu örbylgjukerfis eða leigu á ljósleiðara sem hvort tveggja mun vera kostnaðarsamt. Hér er því um að ræða mál sem vafalaust varðar fjárveitingar til Ríkisútvarpsins og snertir því meðferð Alþingis á fjárveitingum til þess. Auðvitað er þetta spurning um forustu ríkisstjórnar að þessu leyti að því er varðar fjárlagafrv.
    Ég vil að sjálfsögðu hvetja til þess að brugðist verði við nú og í sambandi við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár til þess að mögulegt verði að nýta þá tækni sem í boði er. Þá held ég að menn horfi eðlilega til ljósleiðara sem búið er að leggja um mikinn hluta landsins og að ríkisstofnun eins og Ríkisútvarpið geti nýtt sér þá braut sem þar hefur verið lögð. Ef menn hafa aðrar viðunandi lausnir ber auðvitað ekki að hafna þeim fyrir fram.
    Ég tek undir þau orð hv. þm. Stefáns Guðmundssonar að auðvitað er þörf á því að fá heildaryfirlit yfir stöðu þessara mála á landinu öllu því það er víðar en á fyrrnefndu svæði sem ástandið er óviðunandi. Ég vek athygli þeirra þingmanna sem eru umbjóðendur fólks á þéttbýlissvæðinu, Reykjavíkursvæðinu, á þessu og hvet þá til að styðja við þetta mál því það getur auðvitað hver maður séð hversu gjörsamlega óviðunandi það er nú á tímum að búa ekki við bærilegt ástand að því er snertir aðgang að meginfjölmiðlum landsmanna.