Vannýtt orka Landsvirkjunar

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 11:05:27 (1171)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli hér. Hæstv. iðnrh. lýsti því yfir fyrir ekki mjög löngu síðan að hann mundi hafa um það frumkvæði að leita leiða til að auka orkusölu til íslenskra fyrirtækja. Íslensk fiskvinnsla hefur m.a. mátt búa við óhóflega hátt orkuverð. Því vakti það undrun mína fyrir örfáum dögum, þegar fulltrúar þessarar atvinnugreinar sátu fund með sjútvn. þingsins, að þegar ég varpaði fram þeirri spurningu til forsvarsmanns Sambands fiskvinnslustöðva hvort ráðuneytið hefði haft samband við þá stofnun og þau fyrirtæki sem innan greinarinnar störfuðu um hugsanlega lækkun á orkuverði til íslenskrar fiskvinnslu kannaðist hann ekkert við málið og sagði að aldrei hefði verið við hann rætt um þetta mál.
    Því spyr ég og hlýt að velta því fyrir mér hvort þessi yfirlýsing ráðherrans, sem gefin var í sama ræðustól og ég stend í, hafi verið einhvers virði.
    Ráðherrann segir það nú að hann hafi sett nefnd á laggirnar fyrir ári síðan til að endurskoða og reyna að gera tillögur í þessu efni. Hann nefndi að vísu ekki nöfn þeirra sem í nefndinni sitja eða hverjir hefðu verið skipaðir í nefndina og frá hverjum. Ég leyfi mér að draga í efa að þeir sem tilnefndir hafa verið hafi mikinn áhuga á því að lækka orkuverð til íslenskra fyrirtækja.