Vannýtt orka Landsvirkjunar

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 11:08:37 (1173)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans og vil sannarlega láta í ljós þá von að það sem hæstv. ráðherra er að láta vinna að nú beri árangur. Það er rétt að oft hefur verið rætt um það hér hvernig hægt væri að láta innlenda orku koma í stað innfluttrar. Það hefur vissulega mikið gildi fyrir þjóðarbúskapinn, sérstaklega þegar framleiðsla hinnar innlendu orku kostar ekki neitt eins og nú háttar. Hins vegar var ég sérstaklega með það í huga að margföld ástæða væri til að nýta orkuna þegar hægt er að benda á dæmi þess að ef viðbótarorkan er lækkuð til þess verðs sem er í okkar samkeppnislöndum er hægt að auka fjölda starfa, koma í veg fyrir atvinnuleysisbætur, greiðslur á þeim úr ríkissjóði, og draga eitthvað úr viðskiptahalla. Það er því margföld ástæða að mínu mati til þess að gera sérstakt átak núna. Þegar fyrirtækin segja: Við getum aukið okkar starfsemi ef við fáum orkuna á sama verði og keppinautarnir í nágrannalöndunum, finnst manni ótrúlegt ef ekki er reynt að verða við slíku og nota þá möguleika. Það hefur verið mjög talað um það og hæstv. viðskrh. gerði það fyrir skömmu síðan að það þyrfti að jafna skattalög og samræma þau hér á landi og í samkeppnislöndunum, nágrannalöndum til þess að fá erlenda aðila til að fjárfesta hér. Ég held það þurfi ekkert síður að huga því að bæta stöðu íslensks atvinnurekstrar til þess að íslenskir eigendur geti rekið þau og aukið umsvif.