Vannýtt orka Landsvirkjunar

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 11:11:06 (1174)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Það hefur komið glöggt fram í athugasemdum þeirra sem hér hafa talað að menn eru sammála um að það þurfi að gera sérstakt átak til þess að örva sölu á raforku umfram venjulega notkun hennar hér miðað við núgildandi aðstæður vegna þess að við þurfum að selja þessa umframorku. Um það er alls enginn ágreiningur. Spurningin sem við þurfum hins vegar að svara er hvernig við gerum þetta án þess að spilla fjárhagsstöðu þeirra fyrirtækja sem þarna eru söluaðilar. Vegna þeirrar athugasemdar sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. vil ég segja það alveg skýrt að skilmálar þeir sem nú hafa verið mótaðir um sölu á umframorku munu að sjálfsögðu líka gilda fyrir fiskiðnaðarfyrirtæki. Þeim munu verða kynntir þeir. Ég vil alls ekki fyrir fram ætla þeim sem að þessu standa, sem eru að sjálfsögðu fyrirtæki sem selja raforku, ráðuneyti selja ekki raforku, virðulegi þingmaður, heldur höfum við aðra skipan mála í okkar landi. ( Gripið fram í: Voru ekki fulltrúar fyrirtækjanna í nefndinni?) Jú, að sjálfsögðu. Og þeir eru að móta þessi . . .  ( Gripið fram í: Sem selja orkuna.) sem selja orkuna og munu gera þessar tillögur nú á næstunni heyrinkunnar þeim sem þeirra vilja. Ég er alveg sammála hv. þm. um að við þurfum ekki síst að leita þarna leiða í okkar undirstöðugreinum. En þó því aðeins að við séum ekki bara að færa vandamálin til í okkar samfélagi. Við verðum að leysa þau með því að selja raunverulega viðbótarorku.
    Ég vildi taka undir með hv. 4. þm. Reykv. að það er auðvitað röng hugsun að ekki eigi að lækka verðið á þessari umframorku. Sú hugsun hefur alls ekki heyrst hér í þessum sal að það ætti ekki að gera. Hins vegar verður þarna allt að vera af setningi slegið og skynsamlega fram sett því að það er enginn bættari ef við búum bara til tap og fjárhagsvandræði í okkar orkufyrirtækjum í viðleitni til þess að leysa vanda annarra.