Vegasamband hjá Jökulsárlóni

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 13:18:13 (1179)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég kem hingað í ræðustól til þess að lýsa stuðningi við þessa tillögugerð um aðgerðir til að tryggja vegasamband hjá Jökulsárlóni sem hv. 3. þm. Austurl. hefur nú mælt fyrir. (Gripið fram í.) 4. þm. Austurl. Ég hækkaði hann aðeins upp um stundarsakir en tek það til baka. Tillagan og grg. með henni er mjög vönduð og ég hef í rauninni litlu við framsöguræðu hv. 4. þm. Austurl. að bæta. Ég vil undirstrika það að við þingmenn Austurlands höfum rætt þessi mál með samgöngunefnd Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og þar kemur fram óskoraður stuðningur við þessa tillögu. Ég vildi að það kæmi fram við þessa umræðu um leið og ég óska eftir því og tek undir það að tillagan fái ítarlega meðferð í hv. Alþingi.
    Eins og fram hefur komið er hér um einstakar aðstæður að ræða sem eiga sér ekki hliðstæðu hérlendis. Sú hætta sem þarna er uppi er frekar í ætt við náttúruhamfarir en að hún eigi sér hliðstæðu í öðru. Við höfum fylgst með því sem erum tíðum á ferð á Suðausturlandinu hversu óskaplegir náttúrukraftar eru að verki við ströndina. Þess er skemmst að minnast þegar suðurfjörutanginn á Höfn brast og hve samspil veðurfars, strauma og sjávargangs hefur mikil áhrif og hve miklar rannsóknir þarf til þess að fylgjast með því og geta brugðist við á réttan hátt.
    Þarna er eins og fram hefur komið ekki hægt að bregðast við ef illa fer nema með úrræðum sem eru afar kostnaðarsöm og þess vegna er áríðandi að marka þá stefnu í upphafi að bregðast við í samræmi við það og eins og alltaf hefur verið gert þegar um náttúruhamfarir hefur verið að ræða. Í rauninni er þetta ástand sem þarna er, og ég tala nú ekki um ef það versnar enn, tengt því og á að meðhöndla sem slíkt. Þess vegna vil ég aðeins leggja áherslu á að tillagan fái ítarlega meðferð í hv. Alþingi. Ég styð það eindregið og í þingmannahópnum á Austurlandi er samstaða um að hún verði samþykkt á hv. Alþingi.