Íslenskt sendiráð í Japan

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 13:54:05 (1187)


     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm., þar á meðal hæstv. utanrrh., fyrir þátttöku í umræðunni og jákvæðar undirtektir við þessa tillögu Ég tel það mikils virði að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að hann beri jákvæðan hug til málsins og að tillagan verðskuldi alla athygli og skoðun. Ég held að ég fari rétt með þau orð úr hans munni.
    Það skiptir auðvitað miklu þegar svona mál er til athugunar að það hafi sem breiðastan stuðning. Mér er fyllilega ljóst að hugmyndir okkar flm. úr fjórum þingflokkum verða ekki að veruleika nema breiður stuðningur sé við slíkt mál á Alþingi og þá einnig frá ríkisstjórn og þeim sem þar fara með mál. Allt skiptir það miklu.
    Hér er um að ræða að meta okkar hagsmuni í víðu samhengi og hvernig við ráðstöfum okkar takmarkaða fjármagni sem við höfum úr að spila til þess að rækja samskipti við önnur ríki í formi utanríkisþjónustu. Það hefur verið gert við lítil efni um langt skeið en af miklum dugnaði margra sem þar hafa að málum komið, af miklum dugnaði fárra væri nú kannski rétt að segja, sem eru þar ráðnir með beinum hætti til starfa en margra sem ljá því lið. Einnig þeirra konsúla sem leggja á sig ómælt erfiði og mikið starf til þess að sinna störfum fyrir Íslands hönd víða um heiminn og er þeirra þjónusta ekki alltaf ýkja mikið í hámælum eða mikils metin en þörf á því að minnast þess einnig þegar við ræðum um stöðu okkar sem smáþjóðar á vettvangi hins stóra heims.
    Ég hef ekki miklu að bæta við það sem fram hefur komið um málið og ég hef engar ástæður til að gera athugasemdir við það sem hæstv. ráðherra sagði um þetta mál. Það var í þeim anda sem mér þótti gott að heyra.
    Ég ítreka að hér er um það að ræða að hasla sér völl á öðru menningarsvæði. Þeim sem til þekkja í Austur-Asíu ber saman um að þar skipti máli að ætla sér tíma að plægja jörðina og yrkja akurinn. Sú litla innsýn sem ég hef í japanskt samfélag eftir eina heimsókn austur þar, er sú að það er af allt öðrum toga en sá heimur sem við búum við hér og að sjálfsögðu ólík menning. Viðskiptahættir þarlendis ganga með talsvert öðrum hætti fyrir sig en í þeim hluta heimsins þar sem við erum staðsett. Hvað sem menn vilja segja um þá hluti eru áhrif og samfléttun starfa stjórnmálaflokka og þeirra sem þar eru í forustu og viðskiptalífs með samslungnari hætti en almennt gerist í vestanverðri Evrópu. Og það ber auðvitað að taka tillit til þess þegar metin er þýðing þess að koma upp og halda úti sendiráði af Íslands hálfu.
    Ég treysti því að þessi tillaga fái vandaða meðferð í hv. utanrmn.