Jarðhitaréttindi

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 14:17:52 (1189)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Við þessa 1. umr. um frv. til laga um jarðhitaréttindi, sem reyndar er hér flutt öðru sinni og hefur að sjálfsögðu, eins og fram kom hjá 1. flm. frv., áður komið við sögu og til umræðu hér á Alþingi, þá vil ég láta það koma fram að um það efni sem þetta frv. snýr að verður fjallað og reyndar í víðara samhengi í frv. til laga um eignarhald á auðlindum í jörðu sem áformað er að flutt verði á þessu þingi. Ég tel eðlilegast að hv. iðnn. fjalli um það frv. sem hér er rætt um leið og stjfrv. kemur til meðferðar þingsins. Ég er sammála hv. flm. um að þarna eru vafalaust ýmis atriði sem ástæða er til að skoðuð verði saman. Þetta er mikilvægt málefni, eins og hér hefur áður komið fram, og ekki síst er nauðsynlegt að óviss og óljós lagaákvæði um eignarhald verði ekki til þess að tefja fyrir rannsóknum eða nýtingu mikilvægra auðlinda á Íslandi.