Jarðhitaréttindi

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 14:19:29 (1190)

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra staðfestir hér að það sé ásetningur hans að flytja stjfrv. í þinginu í vetur varðandi auðlindir í jörðu og þá trúlega tengt eignarrétti á þeim auðlindum. Það er vissulega góðra gjalda vert að ráðherrann hafi slík áform uppi. En ég undrast það hins vegar nokkuð að fyrst það er viðhorf ríkisstjórnar og ætlan að flytja slíkt frv. inn í þingið skuli það ekki vera komið fram. Mér hefur skilist að ríkisstjórnin tengi það efni við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem hún stendur að gagnvart þinginu. Þar sem hér er um mikilsvert mál að ræða, einnig í því samhengi, finnst mér það ekki góð málsmeðferð að liggja á þessu máli gagnvart þinginu og bera það ekki fram tímanlega svo þingmönnum gefist kostur á að fjalla um það efni samhliða öðrum stórum þáttum sem snerta samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Tek ég það þó skýrt fram að minn áhugi beinist ekki að því að tengja þessi mál saman þó hitt sé jafnljóst að ef menn ætla að skrifa upp á samning um Evrópskt efnahagssvæði er náttúrlega knýjandi nauðsyn, ef menn ætla ekki að missa gersamlega og með óskipulögðum hætti hagsmuni okkar úr höndum sér með enn hraklegri hætti en gerist samkvæmt almennum leikreglum þess samnings, að menn spyrji: Hvenær kemur málið fram? Ég leyfi mér að inna hæstv. ráðherra nánar eftir því hvað líður þessu máli. Það getur varla verið neitt leyndarmál og ráðherrann hlýtur að geta upplýst þingheim um það hvenær þess er að vænta að stjfrv. birtist.
    Ég hef skilið það svo að ásetningur ríkisstjórnar og forustu þingsins sé að samningur um Evrópskt efnahagssvæði komi til afgreiðslu hér 20. nóv. nk. Ég spyr: Eru það áform stjórnarinnar að knýja það mál til afgreiðslu í þinginu áður en þýðingarmikil mál, sem varða þann samning, liggja hér fyrir og hafa verið rædd á Alþingi? Er það virkilega ásetningur ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar á Alþingi að standa þannig að máli? Ég hafði satt að segja ekki búist við því þó að við höfum ýmsu mátt kynnast hér af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í sambandi við málafylgju hennar gagnvart þinginu og reyndar óhóflegum drætti á framlagningu fjölmargra þingmála. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra greini okkur frá því hvar þetta mál er statt og hvað valdi þeim drætti sem á er orðinn. Reyndar varðar það ekki bara þetta þing heldur líka síðasta þing, ef ég man rétt, að því er þetta mál varðar. Er það rétt munað að frv. hafi verið komið fram um þetta efni og verið til sýnis í þingnefnd á liðnu sumri? Ég hef ekki farið yfir það mál en mér skilst að lagt hafi verið fram mál um þetta efni af hálfu ríkisstjórnarinnar, eins og ýmis fleiri mál sem snertu samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, í iðnn. þingsins. Hvað varð um það frv.? Hvar er það statt? Var það dregið til baka og hvað dvelur það?
    Ég vil einnig rifja það upp, vegna þess að hæstv. ráðherra hefur minnst á þetta stjfrv. og það fylgir listum yfir frumvörp sem væntanleg eru vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, að mikið hefur verið rætt í norska Stórþinginu að undanförnu hver sé staða Norðmanna að því er snertir löggjöf um olíuauðlindir Norðmanna, olíulindir á norska landgrunninu. Ástæðan fyrir því er sú að í gildi hefur verið löggjöf í Noregi, svokölluð ,,konsesjonslög``, sem varða úthlutanir á svæðum til rannsókna, nýtingar og vinnslu á olíu á norska landgrunninu. Norðmenn hafa staðið þannig að málum frá því að þeir hófu nýtingu á sínum olíuauðlindum að þjóðarhagsmuna Noregs hefur verið gætt á kostnað hinna svokölluðu frjálsu sjónarmiða eins og þau endurspeglast m.a. í fjórfrelsinu og á kostnað þess að útlendir aðilar hafa ekki komist með jöfnum hætti og getað keppt við norsk fyrirtæki og félög sem hafa fengið úthlutanir í sambandi við nýtingu olíunnar. Það gildir líka að því er snertir samskiptaaðila, þjónustuaðila við olíuvinnsluna í Noregi. Þar hefur Norðmönnum tekist með stýringu að margfalda þann arð sem þeir hafa fengið af sínum olíuauði með því að tryggja að þjónustan í kringum uppbygginguna á olíuvinnslunni komi að meiri hluta til frá norskum fyrirtækjum og langtum meira en ella yrði samkvæmt svokallaðri frjálsri alþjóðlegri samkeppni.
    Síðan er það svo að suður í Brussel, sem er sá banki sem sumir vilja sækja efnið í íslenska löggjöf og fyrirmæli til, er verið að móta ,,directive`` eins og það er kallað á þeirra máli, tilskipun varðandi olíumálefni og olíuauðlindir. Menn hafa hrokkið heldur betur við í Noregi vegna þeirrar tilskipunar sem þar er á leiðinni, ekki fullsmíðuð, en menn þekkja efnið, það er ekkert leyndarmál. Norðmönnum líst ekki á blikuna. Norskir ráðamenn sem eru að bera fram samning, eins og hæstv. iðnrh. og hæstv. utanrrh., um Evrópska efnahagssvæðið hafa fullyrt að þetta mál . . .   Fyrst sögðu þeir að þetta snerti ekki Noreg í samhengi við Evrópskt efnahagssvæði. Það væri fyrst ef reyndi á aðildina að Evrópubandalaginu að þetta yrði alvörumál fyrir Noreg. En annað er nú komið á daginn.
    Það er ljóst að hugur Evrópubandalagsins er sá að þessi tilskipun nái til hins Evrópska efnahagssvæðis að því er olíuauðinn varðar. Þá voru varnirnar þær hjá Bjørn Tore Godal, hinum norska starfsbróður hæstv. viðskrh., að segja sem svo: Við eigum að geta haft áhrif á að þetta hitti okkur ekki með þeim hætti sem drögin benda þó til. Þegar vísað er til þess hvernig leikreglurnar eru á hinu Evrópska efnahagssvæði verður þrautarlendingin sú --- og þannig stóðu málin áður en samningurinn var afgreiddur frá utanríkismálanefnd norska þingsins á dögunum --- að ráðherrann sagði: Við höfum þó alltjent neitunarvaldið í sameiginlegu nefndinni sem verið er að setja á laggirnar á hinu Evrópska efnahagssvæði. Við getum þó alla vega beitt neitunarvaldinu.
    Við skulum staldra við þetta mál vegna þess að það getur verið lærdómsríkt fyrir okkur og sýnir okkur hver er staðan ef við ætlum að fara inn í þetta Evrópska efnahagssvæði, hver staðan er í stórmáli sem þessu. Hver er staða Norðmanna sem eru að fara inn í þetta ef þeir ætla að byrja á því að beita neitunarvaldi gegn tilskipun af þessum toga innan Evrópsks efnahagssvæðis? Á hverju mega þeir eiga von? Ætli því verði tekið með þegjandi þögninni af Evrópubandalaginu ef þeir ætla að setja stólinn fyrir dyrnar og segja nei? Ætli þeir fengju ekki að kenna á því á öðrum sviðum samkvæmt þeim leikreglum sem markaðar eru í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði?
    Síðan gerðist það sem hæstv. viðskrh. veit að upp á borðið kom, einum eða tveimur dögum eftir að álit utanríkismálanefnd norska þingsins kom fram, álitsgerð frá norska olíuiðnaðinum, unnin sem mat á vegum norska Statoil og annarra hagsmunaaðila í norskum olíuiðnaði sem staðfestir öll varnaðarorðin sem andstöðuaðilar við EES í norska Stórþinginu voru búnir að halda fram en stjórnvöld búin að sverja af sér. Það var mat hagsmunaaðilanna í Noregi á stöðunni. Ég er að draga þetta hér fram vegna alvöru málsins og hliðstæðunnar sem blasir við að því er snertir jarðhitann okkar, sem er okkar auðlind ekki ósvipað og olían í Noregi. Engar tryggingar liggja fyrir í samningi um Evrópskt efnahagssvæði um að við höldum yfirráðarétti yfir þessari auðlind og hún verði ekki seld undan okkur með öðrum landareignum hér á landi þar sem ekkert liggur fyrir í samningnum sem tryggir okkar hagsmuni. Þar liggur allt fyrir opið og óvarið að því er varðar íslenska hagsmuni.
    Ég ítreka nú fyrirspurn mína til hæstv. iðnrh. og treysti ráðherranum til þess að greina þinginu í tilefni þessarar umræðu frá stöðunni að því er varðar það frv. sem hann boðar hér sem stjfrv. um þetta þýðingarmikla efni. Hæstv. ráðherra verður eflaust spurður nánar um það þegar menn fara að fjalla frekar um samninginn í öðru samhengi, þ.e. samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði.