Jarðhitaréttindi

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 14:50:19 (1202)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram alveg skýrt að auðvitað hefur frv. sem við ræðum hér í dag, frv. um jarðhitaréttindi, alveg sjálfstætt tilefni. Frv. sem ég nefndi að mundi taka á málinu í almennara og víðara samhengi, frv. til laga um eignarhald á auðlindum í jörðu, sem væntanlegt er sem stjfrv. hefur þá stöðu líka. Það hefur sjálfstætt gildi og tekur á mjög mikilvægu löggjafarmálefni alveg óháð samningum okkar við önnur ríki. Þess vegna átta ég mig ekki á því þegar þingmenn stíga hér í stólinn til þess að ræða það mál í samhengi við frv. hv. 4. þm. Austurl. Kannski eru þau hugrenningatengsl einhvern veginn öðruvísi en maður fær skilið. Ég vil taka það skýrt fram að við erum ekki að ræða frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið eða staðfestingu þess samnings sem fyrir þinginu liggur.