Jarðhitaréttindi

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 14:51:39 (1203)

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta var dálítið sérkennileg lokakveðja frá hæstv. iðnrh. varðandi málið. Hann kemur allt í einu hér upp og segir okkur að við séum í raun að misskilja hann stórkostlega, hann beri þetta frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu ekki endilega fram í tengslum við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, frekar sem almennt mál. Þó held ég að það sé ekki leyndarmál, að vísu mun það hafa fylgt trúnaðarplaggi nýlega sem forsrh. á eitthvað í og ég ætla ekki að ræða hér, að þar fylgdi með skrá yfir stöðu frumvarpa sem vörðuðu hið Evrópska efnahagssvæði. Ég held að ég hafi tekið eftir því að frá iðnrn. var mjög skýrt tíundað að annað af tveimur frumvörpum sem þaðan væri að vænta væri frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu vegna hins Evrópska efnahagssvæðis. Ég held því að hæstv. ráðherra komist varla undan því nema sverja af sér þessar sendingar sem liggja í höndum þingmanna, eigin bréf til þingsins og skilaboð. Hitt er annað mál að ekki hefði ég haft á móti því að hæstv. ráðherra hefði fyrir mörgum árum komið fram með slíkt frv. og þá hefði ég litið á það í almennu samhengi. Auðvitað hefur hvert frv. sem Alþingi tekur afstöðu til, meðan Íslendingar hafa löggjafarvaldið sem getur nú farið að styttast í eins og skýrt og skilmerkilega var fram tekið af hv. 4. þm. Reykv. hér áðan, sitt sjálfstæða gildi.