Gatnagerðargjöld

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:10:46 (1206)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um gatnagerðargjöld. Fyrsti flm. er Auður Sveinsdóttir, 1. varamaður Alþb. í Reykv., og ég er 2. flm.
    Þetta frv. var fyrst lagt fram til kynningar á síðasta þingi og er endurflutt nú óbreytt. Megintilgangur frv. er að tryggja gangandi og hjólandi vegfarendum meira öryggi í sínu daglega umhverfi og enn fremur að auka möguleikana á betri og snyrtilegri frágangi grænna svæða fljótlega eftir að hús hafa verið reist.
    Breytingin sem lögð er til í þessu frv. felst í því að skilgreina fleiri svæði er þurfa frágangs við en eingöngu götur, þ.e. leiksvæði, göngstíga, hjólreiðastíga og önnur opin svæði. Þessari tegund svæða er hvergi markaður neinn tekjustofn innan sveitarfélaganna eins og nú er.
    Í núgildandi lögum um gatnagerðargjöld er sveitarstjórnum veitt heimild til að leggja á sérstök gjöld til uppbyggingar gatna og gerð bundins slitlags á þær. Í þessum lögum er ekki getið um neinn annan frágang. Það sama gildir um önnur lög, hvergi er getið um frágang opinna svæða á einn eða neinn hátt. Hins vegar er brýnt að hægt sé að ganga frá öðrum svæðum um svipað leyti og framkvæmdir við gatna- og gangstéttagerð eiga sér stað.
    Þegar ný hverfi byggjast er oft um það að ræða að þangað flytjast ungar fjölskyldur og þar með talsvert af börnum. Yfirleitt verður gatan nærtækasti leikvöllur barnanna. Því er leitast við að ganga frá henni sem fyrst. Önnur svæði svo sem leiksvæði, göngu- og hjólreiðastígar sitja á hakanum og getur dregist í lengri tíma að ganga frá þeim. Oft líða mörg ár. Öllum hlýtur að vera ljós sú hætta sem börnum, jafnt sem öðrum vegfarendum stafar af akandi umferð. Tölur og upplýsingar frá Umferðaráði og lögreglu sýna svo ekki verður um villst að slys, sérstaklega á börnum, eru allt of mörg.
    Það er kappsmál allra að fyrirbyggja slysin, en auðveldasta leiðin er tvímælalaust sú að tryggja vegfarendum öruggt umhverfi. Á undanförnum árum hafa hjólreiðar aukist mikið og er svo komið að árlegur innflutningur á hjólum er umtalsverður. Það gefur auga leið að þessi hjól sem að miklu leyti eru í eigu barna og unglinga eru meira og minna notuð í umferðinni, á götum þéttbýlisins og þá oftast innan um akandi umferð. Samkvæmt lögreglusamþykkt er heimilt að hjóla á gangstéttum. Sú heimild varð vissulega til mikilla bóta þegar hún var veitt en hún var veitt sem algert neyðarúrræði vegna skorts á öruggum hjólreiðastígum. Þar var látið við sitja og vandinn talinn leystur en því er öðru nær því eins og fyrr segir var þetta algert neyðarúrræði. Í nýjum hverfum eiga hjólreiðastígar að vera jafnsjálfsagðir og gangstéttar og frágangur þeirra á vissulega að verða um leið og aðrar gatnaframkvæmdir.
    Við byggjum dýr og vönduð hús, leggjum áherslu á vandaðar innréttingar og frágang. Hins vegar hefur það viljað sitja á hakanum að ganga frá lóðum og öðrum svæðum sem í raun verður að líta á sem hluta af byggingarframkvæmdum. En því miður eru þessi ófrágengnu svæði oftast þau svæði sem börnum og unglingum eru ætluð sem leiksvæði ásamt göngu- og hjólreiðastígum.
    Í skipulagi bæja er það öryggisatriði að göngu- og hjólreiðastígar séu lagðir jafnframt akvegum eða götum. Auk þess að það sé öryggisatriði þá mun það líka hvetja til aukinnar notkunar á hjólum og þannig draga úr notkun einkabílsins. Notkun bifreiða er of mikil í hinum vestræna heimi og erum við hér á Íslandi þar ekki undanskilin. Bílaeign okkar er ein sú mesta í heiminum og komumst við jafnfætis Bandaríkjamönnum í þeim efnum. Það er mikill kostnaður sem samfélagið þarf að taka á sig vegna notkunar einkabílsins. Því hlýtur það að vera kappsmál að geta dregið sem mest úr notkun hans. Til skamms tíma hefur verið talinn óþarfi að útbúa sérstök leiksvæði fyrir börn. Það var vafalaust hér áður fyrr en í dag er ekki hægt að komast hjá því. Það er ábyrgðarhluti að tryggja ekki börnum örugg og góð svæði til leikja og þau verður að útbúa um leið og húsin. Með frv. þessu er sveitarfélögum veittur sá möguleiki að ganga frá þessum svæðum með því að innheimta sérstakt gjald sem varið skal til framkvæmda við gerð göngustíga, hjólreiðarstíga, leiksvæða og annarra opinna svæða.
    Virðulegi forseti. Þetta er sú framsöguræða sem hv. 1. flm. hafði sett saman og ég flyt í forföllum hennar eða öllu heldur vegna þess að hún er aftur farin af þingi og ekki vannst tími til að taka málið fyrir meðan hún sat hér.
    Ég vil, virðulegi forseti, leggja nokkra áherslu á það að þingheimur taki þetta mál nokkuð alvarlega. þetta er mikið brýnna mál en það lætur yfir sér. Þetta virðist lítil mál við fyrstu sýn en eins og menn sjá sem lesa greinargerðina og kynna sér efni frv. er þetta mál sem varðar okkur alls staðar um landið.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.