Bókaútgáfa Menningarsjóðs

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:43:47 (1213)

     Árni M. Mathiesen :
    Virðulegi forseti. Upphaf þessa máls er auðvitað rekstrarvandi Bókaútgáfu Menningarsjóðs. Bókaútgáfan hefur verið rekin með verulegum halla og er því í verulegum fjárhagsvandræðum. Meiri hluti menntamálaráðs er einungis að taka á þessum vanda eins og honum ber skylda til enda ber hann ábyrgð á starfsemi sjóðsins gagnvart Alþingi og framkvæmdarvaldinu. Þetta gerir meiri hlutinn í samræmi við 6. gr. fjárlaga þar sem eru heimildir til ráðstöfunar á eignum sjóðsins og allt tal um að draga þennan meiri hluta til ábyrgðar eins og hv. 15. þm. Reykv. gerði er því algerlega út í loftið. Þessar aðgerðir eru frekar til fyrirmyndar og ef það hefði víðar verið reynt að taka á rekstrarvanda ríkisstofnana á þennan hátt áður en til stórvandræða væri komið þá væri vandi ríkissjóðs eflaust miklu minni en hann er í dag. Farsinn hins vegar í þessu máli var auðvitað tilburðir fyrrv. formanns menningarráðs til þess að halda í formennskuna eftir að hafa misst meiri hluta á staðnum.