Bókaútgáfa Menningarsjóðs

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:45:12 (1214)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Þá höfum við heyrt það. Hv. 3. þm. Reykn. vill leggja niður öll þau fyrirtæki sem halli er á. Það mætti þá benda honum á að leggja niður þjóðfélagið.
    Þeir ágætu nefndarmenn, sem hér hafa skrifað forsætisnefnd þingsins, eiga að starfa samkvæmt lögum nr. 50/1957 í ráði sem hefur eftirfarandi verkefni: Það skal verja tekjum Menningarsjóðs til bókaútgáfu, til stuðnings við gerð íslenskra menningar- og fræðslukvikmynda, til eflingar þjóðlegum fræðum og athugana á náttúru landsins, til styrktar íslenskri tónlist og myndlist, til kynningar á íslenskri menningu innan lands og utan og til greiðslu fargjalda sbr. 7. gr., og hef ég ekki tíma til að gera grein fyrir því. Þessum sjóði, sem enn þá eru innheimtar tekjur til þó þær séu látnar í annað, er ætlað það verkefni að efla íslenska menningu. Þeim nefndarmönnum, sem kjörnir voru í núverandi menntamálaráð, ber skylda til að vinna að þessu og það hafa engin lög enn þá verið samþykkt um að leggja þennan sjóð niður. Hins vegar segir hér á bls. 353 í fjárlagafrv. hins íslenska ríkis: ,,Menningarsjóður. Framlag til sjóðsins fellur niður, enda verður á haustþingi lagt fram lagafrv. sem nemur úr gildi lög um Menningarsjóð.`` Og á öðrum stað í fjárlagafrv. er svipuð klásúla. Það er ekki bara verið að leggja niður Bókaútgáfu Menningarsjóðs, það er verið að leggja niður Menningarsjóð. Og ég vil spyrja hæstv. forseta sem ég lít svo á að hljóti að vera verndarvættur Hins íslenska þjóðvinafélags: Hvað verður nú um félagið sem eini maðurinn, sem er á mynd í þessum sal, stofnaði á sínum tíma, eina félagið sem fær að halda aðalfundi sína í þingsölum og forseti þess eini maður utan þings sem fær að stíga í stól hæstv. forseta? Ég held að stjórn þingsins ætti að fara að huga að hvernig ruðst er inn í þingsali og rifið niður það sem Íslendingar hafa verið að byggja upp síðan lýðveldið var stofnað á Þingvöllum árið 1944.