Bókaútgáfa Menningarsjóðs

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:48:14 (1215)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað fullkomið tilefni til þess að taka upp þessa umræðu hér í þinginu í dag. Það er aumkvunarvert að heyra hæstv. sjútvrh., sem má nú að gegna ýmsum verkum fyrir samráðherra sína þessa dagana, reyna að klóra sig fram úr þeim vandræðum sem ríkisstjórnin hefur komið málefnum Menningarsjóðs og menntamálaráðs í og þeim vinnubrögðum, þeim afturfótavinnubrögðum sem þar er beitt í sambandi við málefni Menningarsjóðs. Getur það vafist fyrir nokkrum að það sé eðlilegt að taka á máli sem þessu með frv. hér á Alþingi áður en farið er í raun að ganga yfir settar reglur og lög í landinu? En það eru hættirnir sem hv. þm. Árni M. Mathiesen er að mæla með. Ef hann sér einhvers staðar rauða tölu þá á að ráðast á viðkomandi fyrirtæki og slá það niður. Það eru leikreglurnar sem þessi meiri hluti hér á Alþingi ætlar að innleiða. Það blæs nú ekki mjög byrlega fyrir menningarmálum í landinu ef marka má þær tillögur og hugmyndir sem fyrir liggja frá stjórnvöldum og það ekki síst varðandi bókina. Hvers eðlis eru þær tillögur sem verið er að reiða fram hér á Alþingi þessa dagana? Það er að rota íslenska bókaútgáfu, ekki aðeins þá sem Menningarsjóður hefur staðið undir heldur almenna bókaútgáfu í landinu. Það er hinn hugmyndalegi bakgrunnur þeirra aðgerða sem beitt er hér með lögleysu að mínu mati á Alþingi og af ríkisstjórn.