Bókaútgáfa Menningarsjóðs

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 15:52:15 (1217)


     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessari ríkisstjórn virðist varla vera sjálfrátt í aðför sinni að íslenskri menningu og íslenskri bókaútgáfu. Með því að leggja niður Bókaútgáfu Menningarsjóðs virtist ætlunin að sú starfsemi, sem þar hefur farið fram, skuli flytjast út á hinn almenna markað. En fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar varðandi hinn svokallaða bókaskatt sýna hins vegar að einnig á að þrengja að annarri bókaútgáfu svo að ekki horfir vel.
    Íslensk menning er að miklu leyti bókmenning og hefur verið svo frá 12. öld. Málsvæði okkar er minna en yfirleitt er talið hugsanlegt að gefa út bækur fyrir. Útgáfan þarf því miklu fremur á stuðningi að halda hér en annars staðar, ekki síst nú á tímum vaxandi samstarfs og samskipta við aðrar þjóðir. Vegna þeirrar aðfarar, sem hér hefur verið gerð að Menningarsjóði og bókaútgáfu hans, vil ég láta koma fram að þingkonur Kvennalistans undirbúa nú nýtt frv. til laga um nýja bókaútgáfu sem gæti tekið við því hlutverki sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs hefur sinnt til þessa.