Jöfnunartollur á skipasmíðaverkefni

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 16:46:17 (1226)

     Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tók eftir því að hæstv. iðnrh. nefndi ekki í ræðu sinni áðan þessa hluti sem hann nefndi núna, þ.e. fríverslunarsamninginn við Pólland, samninginn milli EFTA og Póllands. Ég spurði líka um það, og þess vegna óskaði ég eftir að veita andsvar, hvort hæstv. iðnrh. hygðist láta skilning Íslendinga á málinu koma fram, þ.e. einhvers konar bókun þar sem kæmi fram að Íslendingar áskildu sér rétt til þess að bregðast við niðurgreiðslum eða opinberum stuðningi við skipaiðnað í Póllandi. Mig langar til þess að fá skýrt svar við því hvort fyrirætlanir hæstv. iðnrh. séu að það verði gert.