Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

29. fundur
Mánudaginn 12. október 1992, kl. 22:19:26 (1242)


     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Nú eru samdráttartímar. Hvers vegna? Hér hefur ríkt sex ára efnahagsleg stöðnun að miklu leyti af mannavöldum. Offjárfestingar í orkuverum, fiskeldi, loðdýrarækt ásamt ófullkominni fiskveiðistjórnun og oftrú á stóriðju eru stærstu skýringarnar á því að nú horfir illa. Kvennalistinn er málsvari kvenna og skoðar hinn pólitíska veruleika frá þeirra sjónarhorni. Við horfum nú upp á

vaxandi atvinnuleysi sem hefur þegar komið harðar niður á konum en körlum einkum á landsbyggðinni og á Suðurnesjum og vex nú hratt á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ljóst er að það mun ekki verða til að minnka hinn kynbundna launamun sem þegar er meiri hér á landi en í flestum nágrannalöndum okkar. En hvernig hefur flati niðurskurðurinn hjá hinu opinbera komið niður á konum? Innan hverrar stofnunar virðast þeir halda sínu sem hafa völdin en þeir sem lægra eru settir í valdapíramítanum, þar eru konur gjarnan í meiri hluta, verða að herða sultarólina. Hvers vegna var þrengt að meinatæknum, röntgentæknum og sjúkraliðum á sjúkrahúsum á meðan ekkert heyrðist af þrengingum lækna? Hvers vegna er áætlað að skera kennslu í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands mikið niður þegar ekkert heyrist af niðurskurði í læknadeild að öðru leyti? Hvers vegna hefur kvenstúdentum við Hákólann fækkað hlutfallslega meira en körlum á yfirstandandi skólaári? Var nauðsynlegt að breyta lögum um lánasjóðinn, setja á skólagjöld og hækka um leið greiðslur vegna dagvistunar barna námsmanna? Þessar aðgerðir ganga gegn markmiðum um jafnrétti til náms og virðast koma verst niður á konum. Er sá tími kominn aftur að konur þurfa að vinna fyrir mökum sínum á meðan þeir eru í námi og sjá svo til hvort þær geti menntað sig síðar?
    Hvers vegna er skipuð nefnd til að kanna hvort bætur einstæðra foreldra eða mæðra séu misnotaðar í stað þess að viðurkenna að stuðningskerfi við smábarnaforeldra er algjörlega úr takt við tímann og að meðlagsgreiðslur eru um fjórðungur af framfærslukostnaði barns. Væri ekki æskilegra að hafa viðunandi framboð á leikskólum og lengja skóladaginn frekar en þröngva fólki út í að misnota kerfi einstæðra foreldra?
    En það er ekki bara við lögin og framkvæmdarvaldið að sakast því dómskerfið er ekki algott heldur. Þeir dómar sem birtir hafa verið að undanförnu, bæði vegna nauðgunarmála og kynferðislegra afbrota gagnvart börnum eru ótrúlega vægir. Kröfur um sönnunarbyrði eru með alstrangasta móti. Vitnisburður barna er lítils metinn í réttarkerfi okkar og brýnt er að þar verði breyting á.
    Hvernig hafa hafa konur brugðist við þessum þrengingum? Þá kem ég að einni jákvæðustu hlið samfélagsþróunarinnar. Konur láta alls ekki vaða yfir sig steinþegjandi og hljóðalaust. Þær sýna virka mótspyrnu, samanber t.d. andmæli röntgentækna, meinatækna, sjúkraliða, Félags einstæðra foreldra og starfsfólks Stígamóta á nýliðnum vikum. Baráttan um vinnuna verður hörð og vonandi verður hún þannig að fólk skipti henni með sér fremur en að konur víki af vinnumarkaði og kvennabaráttan fari í nýja öldudal enn og aftur.
    Kjarninn í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar birtist í því að halda genginu stöðugu, beita niðurskurði í ríkisfjármálum og einnig er ætlunin að skapa atvinnulífinu forsendur til eflingar. Ekki bólar þó á tillögum varðandi síðastnefnda atriðið. Þvert á móti er vegið að mikilvægum atvinnugreinum sem ganga vel eins og t.d. bókagerð og fjölmiðlun. Þó á að verja auknu fé til vísindarannsókna og til atvinnuskapandi framkvæmda og því vil ég fagna þó ekki sé ljóst hve mörg atvinnutækifæri það muni skapa fyrir konur.
    Niðurskurðurinn í ríkisfjármálum orkar víða tvímælis. Sérstaklega finnst mér ámælisvert að ætla að skerða áfram kennslutíma skólabarna og fjölga í bekkjum og að svelta Háskóla Íslands annað árið í röð. Þá er það greinilega ætlan stjórnvalda að festa skólagjöldin í sessi.
    Á samdráttartímum ætti að leggja rækt við mannauðinn og gefa fólki tækifæri til að undirbúa sig vel undir æ vaxandi samkeppni og breytt lífsskilyrði. Það á jafnt við um börn sem fullorðna, konur sem karla. Því tel ég mikilvægt að þegar verði gert átak í fullorðinsfræðslu til að auðvelda fólki að skipta um störf. Mikilvægt er að fólk geti byggt sig upp á tímum atvinnuleysis í stað þess að brotna niður sem er eðlileg afleiðing ef ekkert er að gert.
    Ein meginspurningin á aðhaldstímum hlýtur ekki síst að vera sú hvernig kökunni er skipt. Það þarf að færa til tekjur í þjóðfélaginu í gegnum skattakerfið, frá þeim hæstlaunuðu til hinna, m.a. með skatti á fjármagnstekjur og tveggja þrepa tekjuskatti. Gengisfelling þýðir almenna kjaraskerðingu sem þeir lægst launuðu þola ekki og því er ég sammála ríkisstjórninni um að halda í fast gengi eða því sem næst.
    Langmikilvægasta tækið til að jafna lífskjörin í landinu er stefnan í fiskveiðistjórnun, að hún verði í samræmi við 1. gr. laganna um stjórnun fiskveiða. Þar segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmari nýtingu þeirra og að tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Fyrsta og síðastnefnda atriðið hefur Kvennalistinn reynt að tryggja með hugmyndum um svokallaðan byggðakvóta. En sambland af slíku og einhvers konar veiðileyfagjaldi hefur einnig verið í umræðunni. Ef eingöngu verður horft á hagkvæmnissjónarmið eins og því miður virðist vera reyndin núna, því vistfræðilega markmiðið hefur ekki náðst, gæti endirinn orðið sá að allt leyfilegt fiskimagn yrði veitt af nokkrum frystitogurum með erlendum áhöfnum og gróðinn færi á fárra hendur. Er það framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar? Hvað verður þá um fiskvinnsluna? Og hvað verður þá um þjóðina sem byggir þetta land? Það er brýn þörf á að fá nýja stefnu í fiskveiðistjórnun. Núverandi ríkisstjórn virðist ekki ráða fram úr því máli fremur en öðrum.
    Góðir áheyrendur. Kvennalistinn er stjórnmálaafl sem leggur mikla áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð og að lýðræðið í landinu sé eflt. Þeir kostir sem Alþingi stendur frammi fyrir varðandi sjálfstæðis- og viðskiptamál þjóðarinnar, nefnilega að kjósa með eða á móti EES, finnast mér báðir vondir. Það samræmist ekki framtíðarsýn minni að heiminum verði skipt upp í nokkrar hagsmunablokkir sem útiloka gagnkvæm viðskipti við aðra á jafnréttisgrundvelli. Evrópubandalagið er ein slík blokk. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið erum við auk þess að framselja hluta af framkvæmdar- og dómsvaldi okkar til

alþjóðastofnana sem við erum ekki aðilar að. Slíkt er brot á stjórnarskrá að mati sumra sérfræðinga og hinn minnsti vafi hlýtur að metast stjórnarskránni í vil. Ég tel því nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni ef meiri hluti þingsins samþykkir samninginn. Ég tek undir með þeim sem krefjast þjóðaratkvæðis um samninginn en álitamálið um stjórnarskrárbrotið flækir það mál óneitanlega.
    Hinn kosturinn, að standa utan við samninginn, hlýtur einnig að vekja upp spurningar um stöðu Íslands ekki síst ef þróunin verður sú að öll Norðurlöndin verði aðilar að honum og gangi í EB. Mín framtíðarvon er sú að Ísland geti tekið vaxandi þátt í samvinnu við nágrannalönd okkar í Evrópu á jafnréttisgrundvelli án þess að afsala valdi til alþjóðastofnana sem við erum ekki aðilar að og án þess að verða hluti af miðstýrðu ólýðræðislegu stórveldi. Hvort það næst best með því að samþykkja eða hafna EES-samningnum er mér ekki ljóst á þessari stundu. Enda er margt óljóst enn varðandi undirtektir við EES-samninginn annars staðar og hvernig EB þróast. Þetta er eins og að vera beðinn um að velja blátt eða rautt þegar þú vilt grænt eða bleikt. Þetta mál er þó óneitanlega eitt stærsta málið sem liggur fyrir þinginu og enginn virðist vita hvernig endanleg málsmeðferð verður. Frá sjónarmiði lýðræðisins þætti mér mjög alvarlegt ef ekki yrði farið út í þjóðaratkvæði þrátt fyrir óskir stjórnarandstöðunnar og fjölmargra samtaka í þjóðfélaginu og ef horft yrði fram hjá stjórnarskrárþætti málsins.
    Mikilvægar ákvarðanir eru fram undan og vonandi taka sem flestir þátt í þeirri þjóðmálaumræðu sem slík mál ættu að kalla á í lýðræðisþjóðfélagi.
    Árið 1881 sagði bandarísk kvenfrelsiskona að það sem kæmi í veg fyrir að konur létu skoðanir sínar í ljós og krefðust réttar síns væri hræðsla þeirra við almenningsálitið og að komast í ónáð hjá eiginmönnum sínum eða feðrum. Óhætt er að fullyrða að hvað þetta snertir hefur margt áunnist í kvennabaráttunni.
    Ég er bjartsýn á að konur séu vel í stakk búnar til að takast á við þau vandamál sem fram undan eru, að þær láti ekki traðka á sér sem vissulega verður reynt á meðan völdin eru ekki þeirra til jafns við karla. --- Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.