Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

29. fundur
Mánudaginn 12. október 1992, kl. 22:55:22 (1247)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Þetta stefnuræðukvöld hafið þið heyrt nokkra fulltrúa stjórnarandstöðunnar flytja mál sitt og freista þess að færa rök fyrir því og sannfæra ykkur um hvers vegna ætti að fela þeim landsstjórnina og hvers vegna þeirra ráð, sem þeir þykjast hafa undir rifi hverju, séu betri en ráð ríkisstjórnarinnar. En hefur þetta verið sannfærandi málflutningur? Er það sannfærandi þegar fyrrv. forsrh. og formaður Framsfl. kemur í ræðustól og kýs að horfa fram hjá öllum efnahagslegum staðreyndum veruleikans en kenna því einu um að hér sé svo vond ríkisstjórn og þess vegna sé allt í óefni komið? Er það sannfærandi þegar formaður Alþb. talar eins og hann talaði áðan?
    Það er ánægjulegt ef Alþb. hefur nú gengið í slíka endurnýjun lífdaganna að viðurkenna að allur málflutningur þeirra í sumar og haust, þar sem haldið hefur verið uppi þingskapaþvargi og langar ræður settar á um lítið efni, hafi verið á villigötum. Batnandi mönnum er best að lifa og guð láti gott á vita eins og þar stendur. En þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kemur í ræðustól og fræðir okkur um sænsku leiðina þá þarf hann að lesa sér betur til því í máli hans kom fram að hann hefur ekki kynnt sér það efni sem skyldi. Hann segir okkur að þar eigi að setja nýtt hátekjuþrep í skatti þegar hið rétta er að það er fallið frá því að hækka byrjun efra skattþreps. Hann segir frá því að það eigi að hækka fjármagnsskatt þegar hið rétta er að fallið er frá lækkun skattprósentu úr 30% í 25%.
    Ég legg til að hv. þm. Alþb. og formaður, Ólafur Ragnar Grímsson, byrji á því að kynna sér ástandið á Íslandi áður en hann fer að fræða okkur um ástandið í öðrum löndum. En Alþb. hefur óskað eftir viðræðum við stjórnarflokkana og auðvitað er sjálfsagt að verða við því. Þá er nauðsynlegt að alþýðubandalagsmenn komi til þeirra viðræðna klæddir í eitthvað annað en þau nýju keisarans klæði sem þeir hafa skartað í umræðunum í kvöld.
    Um alla Evrópu fer nú fram umræða um aukið samstarf og samvinnu þjóðanna. Þar er þó vissulega ágreiningur um ýmsa hluti sem eðlilegt er og kannski fyrst og fremst um það hve langt skuli ganga og hve hratt skuli farið. Við eigum ekki að verma bekki varamanna í þeirri samstarfsþróun. Við eigum að taka þátt í henni og hafa áhrif á hana því aldrei áður hafa fámenn ríki átt þess kost að eiga jafnrómsterka rödd í samstarfi Evrópuþjóðanna og nú og við eigum ekki að glutra því tækifæri niður. Breytingarnar á tengslum Norðurlanda við Evrópusamstarfið hljóta að hafa í för með sér breytingu á hinu norræna samstarfi sem er og verður einn af hyrningarsteinum utanríkisstefnu okkar. Norræna samstarfið þarf að breytast því að það samstarf sem ekki þróast og breytist er ekki mikils virði. Þetta samstarf er rótfast í norrænum sverði og nær til allra sviða mannlegra umsvifa. Það er mikilvægt að vel takist til um þær breytingar sem nú eru fram undan. Ég legg sérstaka áherslu á mikilvægi samstarfs okkar við næstu granna í vestri og austri, Grænlendinga og Færeyinga. Það samstarf ber að treysta, ekki síst að því er varðar nýtingu auðlinda sjávarins. Tillögur forsætisráðherranna um breytingar á þessu samstarfi verða ræddar á Alþingi á næstunni. Ríkisstjórnin stefnir að því að slík umræða geti farið fram 29. þ.m. eða annan þann dag sem samkomulag verður um.
    Við Íslendingar erum ekki einir um það að eiga við nokkra efnahagsörðugleika að etja nú um

stundir. Svipað og um sumt verra blasir við hjá þjóðunum allt í kring, enda þótt vandinn sem við erum að fást við sé hégóminn hreinn miðað við þau hrikalegu vandamál sem steðja nú að þjóðum þar sem fólkið stendur á rústum kommúnismans, mesta umhverfisslyss í allri mannkynssögunni.
    Lengi vel bjargaði það þjóðarbúsap okkar að við gátum sótt meiri björg í hafið, stækkað flotann og fullkomnað skipin. Nú horfumst við í augu við þá staðreynd að í næstu framtíð aukum við ekki aflann á hefðbundnum miðum úr hefðbundnum stofnum. Við fjölgum heldur ekki fiskunum í sjónum með því að fella gengi krónunnar hvað sem framsóknarmenn annars um það segja. Við höfum langa og bitra reynslu af því að trúa því að gengislækkun sé allra meina bót og nú ættum við að vita betur og áreiðanlega veit launafólkið í landinu betur.
    Hið efnahagslega umhverfi er vissulega forsenda velferðar og velmegunar en æ fleiri gera sér grein fyrir því að umhverfismálin snerta alla aðra málaflokka, alla þætti mannlegra umsvifa. Þetta er mannkyni að lærast af dýrkeyptri reynslu. Á hverjum vettvangi verðum við að taka tillit til umhverfisins. Því stendur ekki skrifað: ,,Vinnið ekki jörðinni grand og ekki heldur hafinu né trjánum.``
    Í allri framleiðslustarfsemi verður að taka tillit til umhverfiskostnaðar. Á það hefur skort en þennan kostnað verðum við að greiða, annars fellur sú greiðsla á börnin okkar og þeirra börn. Til að halda hafinu, landinu og loftinu hreinu þurfum við að gera hreint í kringum okkur vegna starfa okkar og umsvifa og ganga hreint til verks í öllum greinum. Í öðru lagi verðum við að ástunda öflugt samstarf við aðrar þjóðir vegna þeirrar mengunar sem hingað berst með sjó og lofti. Mengun virðir engin landamæri og þjóðunum er að lærast að skilja verður hugtakið fullveldi öðrum skilningi nú en áður vegna þess að einhliða yfirlýsingar duga afar skammt gegn aðborinni mengun.
    Á vettvangi umhverfismála ber tvennt hæst á þessu ári. Hið fyrra er umhverfisþing þjóðanna í Ríó sem markaði þáttaskil í umræðum og aðgerðum til að bæta umhverfið í heiminum. Hið síðara sem ég vildi nefna er nýr alþjóðasamningur kenndur við París og fjallar um varnir gegn mengun sjávar og tekur til Norðaustur-Atlantshafsins. Það voru tímamót þegar sá samningur var undirritaður og um áramótin gengur í gildi algert bann við losun geislavirks úrgangs hverju nafni sem nefnist á þessu hafsvæði. Í framhaldi af þessu mun ríkisstjórnin áfram vinna að því að fleiri ríki svo sem Rússland, Bandaríkin og Kanada taki formlega þátt í þessu samstarfi þannig að vernda megi enn þá stærra hafsvæði.
    Forsenda þess að hlustað sé á okkur í alþjóðlegu umhverfissamstarfi og tillit tekið til skoðana okkar er sú að sjálfir höfum við hreinan skjöld. Við getum ekki leyft okkur að hafa aðrar eða linari reglur um mengandi útblástur t.d. frá bifreiðum en aðrar þjóðir, heldur ekki um þau efni sem eyða ósonlaginu. Við getum ekki leyft okkur að losa þann úrgang í sjóinn sem aðrar þjóðir banna. Við verðum að ganga jafn vel um miðin og landið. Miðin eru okkar akrar. Í þessu sambandi hlýtur það að vekja umhugsun, raunar valda áhyggjum, þegar í flotann bætast afkastamikil og glæsileg skip þar sem kastað er aftur í hafið nær helmingnum af því sem kemur inn á þilfarið. Það hlýtur að vera keppikefli okkar að gera verðmæti úr öllu því sem um borð kemur, hverjum ugga.
    Hvarvetna ber mönnum saman um að fram undan sé mikill vöxtur þeirra greina og þeirrar framleiðslu sem tengist hreinsun umhverfis og hreinu umhverfi. Þannig verður það líka hér.
    Nú þegar efnahagsörðugleikar hafa um sinn leitt til vaxandi atvinnuleysis þá hljótum við að hugsa til þess að á sviði umhverfismála eiga bæði ríki og sveitarfélög mörg verkefni óleyst. Því er ástæða til að fagna nýgerðu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um atvinnuaukandi aðgerðir. Þar hljóta mjög að koma til álita verkefni á sviði umhverfismála eins og umbætur á sviði frárennslismála og sorpförgunar, enda eru verkefni þar ærin og ástandið hvergi nærri gott. Á þetta hefur formaður Sambands ísl. sveitarfélaga réttilega bent. Á vegum umhvrn. fer nú fram heildarúttekt á ástandi frárennslismála frá þéttbýlisstöðum hér á landi, sú fyrsta sinnar tegundar.
    Við verðum að tileinka okkur ný viðhorf í umhverfismálum. Fyrir Alþingi liggja frumvörp til laga um rétt almennings til upplýsinga um umhverfismál og um umhverfismat, þ.e. lagaskyldu til að meta áhrif framkvæmda á umhverfið. Þá hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir setningu laga um umhverfisvernd og umhverfisrétt og í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir að lög verði sett um eignarhald og afnotarétt þjóðarinnar af landi sem ekki er í séreign. Það er hagsmunamál okkar allra.
    Góðir áheyrendur. Undanfarin missiri höfum við kynnst nýjum stöðugleika. Verðbólga er nú minni hér en í flestum öðrum löndum. Það er ný staða. Við skulum ekki fórna þeirri stöðu fyrir ímyndaða stundarhagsmuni. Það er og verður eitt meginverkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja, eftir því sem hún hefur tök á, að hér verði ekki verulegt atvinnuleysi. Það er mesta og stærsta hagsmunamál okkar allra nú um stundir og þar verða allir að leggjast á árina og er þá sú stjórnarandstaða sem hér hefur talað í kvöld ekki undanskilin. --- Þökk sé þeim er hlýddu. Góðar stundir.