Meðferð fíkniefnamála

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:33:52 (1251)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í fréttum Stöðvar 2 undanfarin kvöld hafa birst býsna alvarleg tíðindi varðandi meðferð fíkniefnamála. Fullyrt er að tilteknu stórmáli hafi verið lokið í raun og veru 1987, það hafi verið hjá lögreglustjóra í hálft ár og það hafi legið hjá saksóknara í tvö ár áður en ákæra var birt. Í tilefni af þessu vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. dóms- og kirkjumrh. þessara spurninga:
    1. Hefur hann fylgst með þessu máli sérstaklega að undanförnu?
    2. Hefur hann tekið afstöðu til þess hve lengi þetta mál var í höndum lögreglustjóra?
    3. Hefur hann velt því fyrir sér af hverju mál af þessu tagi var svo lengi í höndum saksóknara þó að það væri fullupplýst og játningar lægju fyrir?
    4. Hefur dómsmrn. aðhafst eitthvað í þessu máli?
    5. Hyggst dómsmrn. gera grein fyrir málinu með opinberri greinargerð á næstunni?