Misnotkun áfengismeðferðar

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:38:54 (1255)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ákvörðunin er sú að gera tillögur til Alþingis um að draga verulega úr fjárveitingum til áfengismeðferðar, bæði hjá SÁÁ og hjá Ríkisspítölum. Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er gerð er ekki sú að það liggi fyrir rökstuddur grunur um að þessi meðferð sé á einhvern hátt misnotuð. Ástæðan er einfaldlega sú að við höfum ekki fjármuni til þess að greiða fyrir alla þá þjónustu sem veitt er á þessum sviðum og við neyðumst til þess að draga úr fjárveitingum til þessara mála.
    Við eigum hins vegar nú í viðræðum við SÁÁ um þessa huti þar sem þessi þáttur, sem hv. 18. þm. Reykv. ræddi um, verður m.a. skoðaður, þ.e. hvort ekki sé hægt þrátt fyrir minni fjármuni að veita áfram þá þjónustu sem þarf að veita bráðveikum sjúklingum án þess að gert sé ráð fyrir að aðrir, sem eru kannski ekki í jafnmikilli þörf fyrir þá þjónustu sem SÁÁ veitir, eigi áfram jafngreiðan aðgang að henni og hingað til.