Hækkun raunvaxta hjá Íslandsbanka

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:44:22 (1260)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Annað tveggja er að ríkið veit þá ekki hverjir eru markaðsvextir í landinu eða ríkið fer ekki eftir þeim. Eða hitt að Íslandsbanki veit ekki hverjir eru markaðsvextir í landinu eða hann fer ekki eftir þeim.
    Mér er að vísu ljóst að þessi ákvörðun var tekin áður en hæstv. viðskrh. boðaði að kveikt yrði ljós í myrkrinu af hæstv. ríkisstjórn, en það benda þó vonir til að það ljós megi einnig lýsa þeim í Íslandsbanka þannig að þeir átti sig á raunveruleikanum í þessum efnum. En spurningin er enn brýnni vegna þess að nú er boðað að að selja eigi Búnaðarbankann og Landsbankann trúlega líka. Þá verða þetta allt sjálfstæðir bankar, eins og hér var lýst yfir, og hækka trúlega raunvextina þegar þeim dettur í hug, án tillits til markaðsins.
    Ég tel að það liggi meira þarna á bak við, eitthvað sem hæstv. viðskrh. veit en telur ekki rétt að upplýsa þingið um.