Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 14:32:21 (1285)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér er auðvitað um að ræða eitt stærsta málið sem fylgir þessum samningi um Evrópskt efnahagssvæði þar sem hér er gert ráð fyrir því að breyta lögum um skipan opinberra framkvæmda og lögum um opinber innkaup. Hér er um að ræða frv. sem snertir í raun og veru atvinnulífið mjög víða og sömuleiðis efnahagsmálin yfirleitt og þess vegna er full ástæða til þess að staldra við það nokkuð ákveðið.
    Frv. gerir ráð fyrir því að framkvæmdir og innkaup yfir tilteknu marki í verðmætum skuli alltaf boðin út á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það er það sem frv. segir ósköp einfaldlega. Það er auðvitað hægt að hafa um það mörg fleiri orð en þetta er hin einfalda niðurstaða, hin einföldu skilaboð frv. Með öðrum orðum, eftir að þetta frv. væri orðið að lögum ef samþykkt verður, er okkur bannað að taka á þessum verkum á vegum okkar einna hér á Íslandi. Það er óheimilt. Það er með öðrum orðum verið að skerða frelsi íslenskra stjórnvalda og íslenskra verktaka til þess að sitja einir að verkum ef þannig stendur á að menn telja það af efnahagsástæðum eða atvinnuástæðum pólitískt skynsamlegt. Það er verið að banna það. Það er verið að þrengja í raun og veru frelsi okkar að þessu leytinu til.
    Þetta getur auðvitað orðið býsna afdrifaríkt á ýmsum sviðum ef það er þannig að íslenskir verktakar mega ekki sitja einir að verkum sem eru kannski sett af stað til þess að auka atvinnu á Íslandi. Hæstv. utanrrh. gerði grein fyrir því hér fyrr á þessu ári þegar fréttir spurðust um það að þorskstofninn stæði mjög illa að hann teldi nauðsynlegt að setja af stað framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun fyrr en ella vegna þess fyrst og fremst að þar með væri verið að auka atvinnu. Af einhverjum ástæðum dró hæstv. utanrrh. fljótlega í land með tillögu sína um að flýta Fljótsdalsvirkjun, ekki bara vegna þess að markaðurinn er ofsetinn af rafmagni eins og menn þekkja, heldur fyrst og fremst vegna þess að ef við verðum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði er engin trygging fyrir því að þau verkefni komi til Íslendinga sem ákveðið yrði að efna til, t.d. stórvirkjanir eða stórframkvæmdir af ýmsu tagi.
    Þess vegna er hér verið að draga úr frelsi efnahagslífsins, draga úr frelsi atvinnulífsins og draga úr frelsi t.d. verkalýðshreyfingarinnar til að semja um að tilteknar aðgerðir í atvinnumálum verði í þágu íslenskra launamanna einna. Það er verið að banna það. Það er t.d. verið að banna að ráðist verði í segjum einhverjar stórframkvæmdir á Suðurnesjum upp á kannski 400 millj. kr. eða meira fyrir íslenska verkamenn eina. Það er bannað samkvæmt þessu frv. ef það verður að lögum. Það verður að bjóða það út á hinu almenna Evrópska efnahagssvæði. Þetta er auðvitað grundvallarmunur á þeim aðstæðum sem íslensk fyrirtæki hafa búið við.
    Eins og hv. 18. þm. Reykv. benti á áðan snertir þetta ekki bara ríkið. Þetta snertir einkaaðilana og þetta snertir sveitarfélögin mjög mikið. Setjum fyrir okkur dæmi sem er svona: Hafnarfjörður, Garðabær og Kópavogur ákveða í sameiningu að byggja íþróttahús sem er miðsvæðis fyrir þessi byggðarlög. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að hér situr hv. 1. þm. Reykn. sem er einn af forustumönnum bæjarmála í Kópavogi fyrir Sjálfstfl. Ímyndum okkur að staðan sé sú að Kópavogur, Hafnarfjörður og Garðabær ákveði að byggja stórt íþróttahús eða eitthvert annað slíkt sameiginlegt mannvirki, t.d. sýningahús eða eitthvað þess háttar, og að þessi bæjarfélög vilji um leið reyna að leysa atvinnuvandann á þessu svæði alveg sérstaklega og koma þessu í hendurnar á ýmsum innlendum verktökum sem koma mjög við sögu í öðru formi, í stjórn Kópavogs og í stjórn Hafnarfjarðar svo ég nefni dæmi. Samkvæmt þessu frv. ef að lögum verður er algjörlega útilokað að halda þannig á málum að þessir aðilar fengju þessi verkefni.
    Nú geta menn sagt sem svo: Þetta er út af fyrir sig allt í lagi vegna þess að þó að þetta fengju erlendir verktakar, þá fengju þetta eftir sem áður innlendir verkamenn. En það er engin trygging fyrir því vegna þess að þessum erlendu verktökum er heimilt að hafa í vinnu þá sem þeir vilja. Verkalýðshreyfingin getur samkvæmt samningunum um Evrópskt efnahagssvæði ekki takmarkað hverjir eru í vinnu hjá hverjum verktaka. Það liggur auðvitað þannig að verktakinn ræður því, verkalýðshreyfingin ræður engu eftir þetta. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrir menn að átta sig á því að hér er verið að gerbreyta íslensku atvinnuumhverfi.
    Síðan eru í frv., virðulegi forseti, alveg kostuleg ákvæði um skerðingu á ritfrelsi og prentfrelsi á Íslandi. Ég er satt að segja undrandi á því að forseti Alþingis og ríkisstjórnin skuli taka mál af þessu tagi

fyrir. Ég hef aldrei áður séð frv. á Alþingi sem er með þeim hætti og kemur fram t.d. fram í d-lið 4. gr. frv., sem verður 12. gr. laga um opinber innkaup, á bls. 5. Þar sem stendur, með leyfi forseta:
    ,,Hvers konar birting hér á landi á auglýsingu samkvæmt 1. gr. er óheimil þar til hún hefur verið send útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar.`` Það er sem sagt bannað að birta auglýsingu hér á landi fyrr en búið er að senda hana einhverri útgáfustjórn Evrópubandalagsins. Stenst þetta stjórnarskrána eða hvað, virðulegi forseti? Ég tala nú ekki um næstu setningu sem er svona: ,,Sendingardagur skal koma fram í auglýsingunni. Jafnframt er óheimilt að birta í innlendum fjölmiðlum aðrar upplýsingar um innkaupin en þær sem koma fram í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.``
    Ætlar hæstv. fjmrh. að gera menn út af örkinni við að ritskoða t.d. íslensk dagblöð eða íslenska ljósvakamiðla? Verður það hlutverk míns ágæta félaga forðum og lengi vel og verður sjálfsagt einhvern tíma síðar, Indriða Þorlákssonar, að hlaupa á milli fjölmiðla og strika út það sem ekki stendur í auglýsingum sem eiga að fara til Evrópubandalagsins. Ég er alveg viss um það, virðulegi forseti, að þetta stangast á við stjórnarskrána því að það er bannað að leiða í lög takmarkanir á prentfrelsi hér á landi. Það er bannað að leiða það í lög þannig að þessi setning stenst ekki íslensk grundvallarlög, það er hafið yfir allan vafa.
    Í þessu sambandi má kannski líka benda á bls. 2, þar sem er stafliður d, sem verður 24. gr. laga um skipan opinberra framkvæmda. Þar segir:
    ,,Auglýsingar þær sem getið er um í 1. mgr. skulu sendar útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar eins fljótt og unnt er eftir að ákvörðun um útboð eða gerð verksamnings hefur verið tekin.
    Hvers konar birting hér á landi á auglýsingu skv. 1. mgr. er óheimil þar til hún hefur verið send útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar.`` Síðan segir: ,,Jafnframt er óheimilt að birta í innlendum fjölmiðlum aðrar upplýsingar um útboðið en þær sem koma fram í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.``
    Það stendur ekki að bannað sé að birta aðrar auglýsingar. Það stendur að bannað sé að birta aðrar upplýsingar. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort þetta er með ráðum gert, hvort þetta eru ekki bara mistök og hvort þessu hljóti ekki að verða breytt í meðförum þingsins því að ég er sannfærður um að þessi ritskoðunarákvæði, sem á að innleiða í frv., standast ekki grundvallarlög lýðveldisins, þ.e. stjórnarskrána. Það er bannað að leiða í lög allar takmarkanir á prentfrelsi í landinu eins og hæstv. fjmrh., sem er löglærður maður, þekkir.